Þrjú systkini héldu tombólu til styrktar Rauða krossinum við Dalakofann á Laugum í dag. Ýmis leikföng voru boðin til sölu á tombólunni mest bílar og bangsar, á mjög vægu verði. Leikföngin áttu systkinin Heiður Anna Arnarsdóttir, Brimir Búason og Kári Búason frá Fjalli á Laugum og voru þau tilbúin að sjá á eftir gömlu leikföngunum sínum til nýrra eigenda.

Tombólan gekk vel og seldu systkinin fyrir 9.300 krónur. Á morgun ætla þau með peninginn í Sparisjóð Suður-Þingeyinga á Laugum og leggja hann inn á reikning Rauða krossins.
Leikföngin sem ekki seldust í dag ætla þau svo að gefa í Rauða krossbúðina á Akureyri.
Meðfylgjandi mynd tók tíðindamaður 641.is af krökkunum við Dalakofann í dag.