Heiti Potturinn – Söfnun á Karolina Fund

0
107

Heimildamyndin Heiti Potturinn eftir Húsvíkingin Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur verður sýnd á Heimildamyndahátíðinni í Skjaldborg á Patreksfirði um helgina, þar sem myndin verður kynnt sem verk í vinnslu. Í gær hófst söfnun á vefnum Karolina Fund þar sem áhugasamir geta styrkt framleiðslu myndarinnar. Myndin verður ca. 20 mín að lengd og er hún í leikstjórn Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur og framleidd af Evu Sigurðardóttur og Önnu Sæunni Ólafsdóttur hjá Askja Films.

Heiti Potturinn
Heiti potturinn

Heiti Potturinn er stutt heimildarmynd sem fangar sérstæða og skemmtilega umræðuhefð Íslendinga sem myndast í heita pottinum – hefð sem á sér hvergi líka annars staðar í heiminum.

 

 

 

 

Myndin heimildar og festir á filmu tengingar fólksins í pottinum – raunverulegar umræður og félagslegar, samfélagslegar og pólitískar skoðanir, hugsanir og einkenni okkar Íslendinga.

Áhorfandinn færist inn í heim heita pottsins, inn í heim umræðnanna, inn í heim fólksins og fær smátt og smátt að kynnast þeim betur og betur; á fallegan, einlægan og hugljúfan hátt, sem er á sama tíma áhugaverður og fræðandi. Fólkið, sem öðlast rödd í heita pottinum, fær tækifæri á að láta hana heyrast víðar – og okkur hinum er gefið tækifæri á að kynnast einstökum karakterum og kafa ofan í skemmtilega og hrífandi menningu.

Viðfangsefnið, þ.e. fólkið í pottinum, verður nálgast af mikilli virðingu og fegurð, af sannkallaðri gætni og samkennd, hlátri og gleði. Við munum kynnast draumum þeirra og lífsgildum, sem eiga sér hliðstæðu í menningarkimum um allan heim: Bretar hittast á pöbbnum til að ræða við félagana um heimsmálin, Tyrkir hittast á tehúsum, Úgandabúar hittast á internetkaffihúsunum, Múslimar í moskvum, Indverjar í brúðkaupum og veislum, og við Íslendingar í heita pottinum!

Heimildarmyndin Heiti Potturinn verður myndskreytt að hluta af Láru Garðarsdóttur og einnig hljóðskreytt af Grúska Babúska, Kira Kira og dj flugvél og geimskip. Myndin verður ca. 20 mín að lengd og er hún í leikstjórn Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur og framleidd af Evu Sigurðardóttur og Önnu Sæunni Ólafsdóttur hjá Askja Films.

Karolina Fund