Heimilisguðrækni

0
105

Minnist þú þess að farið hafi verið með bænir með þér þegar þú í bernsku þinni fórst að sofa á kvöldin? Skrímslin undir rúminu hurfu skyndilega og þú gast loksins lagt af stað inn í draumlandið með sælusvip. Góðar bænir stilla hugann, hugsanir þær sem sækja á er höfuð snertir kodda hljóta vissan farveg.

Bolli Pétur Bollason

 

 

 

 

 

 

 

Ég rifjaði það upp við helgistund í Illugastaðakirkju í Fnjóskadal nú í sumar er ég lítill snáði fékk að dvelja yfir nótt hjá föðurafa mínum Gústav Berg Jónassyni og dóttur hans Ingibjörgu á Akureyri. Ungum sveitasveini þótti það mikil upplifun að fá að gista hjá skyldfólki í kaupstaðnum og þess vegna hafa þær heimsóknir vafalaust varðveist nokkuð lifandi í hugskoti hans.

Þetta voru líka svokallaðar dekurstundir, því sveinninn fékk t.a.m. ótakmarkaðan aðgang að Macintoshboxi heimilisins. Þó er það ekki beint sú minning, sem situr hvað tærust eftir heldur þegar komið var að því að fara að sofa á kvöldin.

Eftir að búið var að bursta í burtu Macintoshleifar úr tönnum gengu langfeðgar saman inn í herbergi, afi Gústi lokaði hurðinni og gerði krossmark á hana og drengurinn hermdi eftir. Það að gera krossmark á herbergishurð er skýrt ákall um vernd Krists og ekki ósennilegt að um sé að ræða arf úr hjálpræðissögu Ísraelsþjóðar hans þegar Drottinn þyrmdi  frumburðunum í húsum þeim í Egyptalandi, þar sem blóð sást á dyrastöfum. Engill dauðans flaug framhjá og þaðan er merking hugtaksins páskar komin sem er á grísku Pasha og þýðir að fara framhjá.

Eftir að búið var að signa yfir hurðina var gengið til náða og farið með kvöldversin hollu og góðu sbr.

„Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt,
hafðu þar sess og sæti,
signaði Jesús mæti.“

Að bænaiðju lokinni hóf Gústi afi upp raust sína, fyrsti bassi í Smárakvartett, og söng Góða nótt þannig að í hvert skipti sem það fagra ljóð og lag hljómar vöknar mér um augu.

Þannig verða lifandi minningar til, það er andleg umhyggja sem skapar þær helst.  Þarna höfum við jafnframt skýrt dæmi um heimilisguðrækni, sem lifir enn að einhverju leyti hjá þjóðinni, en ég geri mér ekki grein fyrir því að hversu miklu leyti. Það er von mín að umrædd guðrækni deyji ekki út með eldri kynslóðum, orð Sigurbjörns Einarssonar fyrrum biskups eru að mínu mati enn í fullu gildi, þegar hann brást með eftirfarandi hætti við spurningum blaðamanna skömmu eftir að hann var kjörinn biskup árið 1959.

„Heim­il­is­guð­rækni á Ís­landi verð­ur með ein­hverju móti að byggja upp að nýju, mann­líf nú­tím­ans þarfn­ast kyrr­látra staða, sem menn geta leit­að til, sér til sálu­bót­ar.“

Á þeim tímum þegar hesturinn var þarfasti þjónninn og heimilisfólk í íslensku bændasamfélagi gat ekki farið allt til kirkju, snéru þau sem fóru aftur heim með boðskapinn, sem var síðan ræddur í bland við annað baðstofuhjal. Trúmálaumræða var m.a. dægradvöl á baðstofuloftinu.

 

Þannig sé ég eitt af hlutverkum kirkjunnar fyrir mér í dag, hvort sem til hennar kemur heimilisfólk margt eða fátt, að hún veiti með þeim sem koma næringu inn á heimilin, að þar efli hún umræður og vangaveltur um trú og tilvist og hvetji til einlægrar trúariðkunar innan þess helgidóms sem heimili okkar eru og skapi á þann hátt góðar og sælar minningar í hugarfylgsnum ungra sem aldinna.

Að þessu öllu sögðu finnst mér ekki rétt að leggja niður penna án þess að geta þess hvers vegna heimilisguðrækni varð undirrituðum svona hugleikin. Flestir myndu jú telja það sjálfsagt, þar sem hann er þjónandi prestur, en þar fyrir utan og ásamt kærri minningu frá Akureyri forðum daga, þá rak ég augun í einstaklega vel smíðað skáldverk, sem ber heitið Fjallkirkjan og er eins og margir þekkja eftir Gunnar Gunnarsson. Þar má finna mjög forvitnilega sögupersónu, áhrifaríka og stórskemmtilega, sem er hún Begga gamla. Hún var sem sagt óbifanlegur klettur á æskuheimili Ugga Greipssonar, aðalpersónu sögunnar, er gerist á 19. öldinni.

Vídalínspostilla var ritið hennar Beggu gömlu, sem hún hafði lesið aftur á bak og áfram. Segja má að hún sé holdgervingur heimilisguðrækninnar í þessari sígildu sögu Gunnars. Það var því ekki að ástæðulausu að Uggi kom ósjaldan til hennar, einkum í þeim tilgangi að fá útskýringar á gátum tilverunnar. Viðbrögð hennar við fróðleiksþorsta drengsins eru venjulegast afar hnyttin , en ekki síður umhugsunarverð, þar leynist víða lærdómur fyrir börn nútímans. Við skulum leyfa Beggu gömlu að eiga lokaorðin.

„Guð skapaði ekki helgidagana til þess að menn eigi að flatmaga og skemmta sér, segi ég, heldur umfram allt til þess að þegar maður verður kallaður fyrir auglit hans skuli ekki mega afsaka sig með því að ekki hafi verið tími til að hugsa um hann og biðja hann.“

Bolli Pétur Bollason.