Nemendur og starfsfólk Framhaldsskólans á Laugum fóru í þriggja daga menningarferð suður á land sem lauk í gær. Litið var við í Verslunarskólanum, Kvikmyndaskólanum, á Þingvöllum, Menntaskólanum á Laugarvatni, Viðskiptaháskólann á Bifröst og svo var skólanum boðið í heimsókn til forsetahjónanna á Bessastöðum.

Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari skrifar eftirfarandi ferðasögu á facebooksíðu sína.
Við lögðum í hann klukkan 07.00 á sunnudagsmorgni 10. mars og ókum á tveimur rútum sem leið lá til Reykjavíkur með viðkomu í Staðarskála að hætti almennilegra Íslendinga. Vorum komin í borgina upp úr tvö og því góður tími til að koma sér fyrir í félagsmiðstöðinni í Miðbergi, þar sem gist var eina nótt. Klukkan 16.00 fórum við á leiksýningu Versló, V.Í. will rock you, aldeilis frábæra sýningu. Þaðan fórum við í mat á Höfnina, þar sem við fengum þríréttaða veislumáltíð, uppbakaða þistilhjartasúpu, beikonfyllta kjúklingabringu og meðlæti og svo volga súkkulaðiköku með ís og jarðarberjum. Einstaklega góður matur, góð þjónusta og allir mjög ánægðir. Á mánudagsmorgun var farið í heimsókn í Kvikmyndaskólann og þaðan í hádegisverð á KFC.

Klukkan 14.00 hófst síðan móttaka forseta vors og forsetafrúar að Bessastöðum, sem var hápunktur ferðarinnar. Þar dvöldum við í góðu yfirlæti rúma tvo tíma. Við fengum auðvitað ágrip af sögu Bessastaða hjá forsetanum, skoðum húsakynni og muni, fornleifauppgröftinn í kjallara hússins og Bessastaðakirkju. Við áttum skemmtilegar samræður við forsetahjónin og nutum veitinga sem okkur voru bornar. Ég færði þeim gullmerki Framhaldsskólans á Laugum sem persónulegar gjafir þeim til handa, frá skólanum. Þetta var einstaklega afslöppuð og ánægjuleg stund sem við áttum á Bessastöðum og færum við þeim hjónum bestu þakkir okkar fyrir.


Næsti áfangastaður var Þingvellir. Þar áðum við drjúga stund og nutum veðurblíðunnar og fegurðar og mikilfengleika hins helga sögustaðar þjóðarinnar.
Um 18.00 renndum við í hlað á Laugarvatni. Þar tók á móti okkur Halldór Páll, skólameistari. Við snæddum þar kvöldverð með menntskælingum og nutum síðan samvista fram eftir kvöldi með þeim, uns gengið var til hvílu í gamla Héraðsskólanum.
Á þriðjudagsmorgni fengum við góða kynningu á námi og félagsstarfi og húsakynnum menntaskólans og háskólans. Að hádegisverði snæddum héldum við í norðurátt, fróðari öll og glöð með Laugarvatnsdvöl.
Síðasti viðkomustaður okkar var Viðskiptaháskólinn á Bifröst. Þar fengum við öfluga kynningu á námsframboði og allri aðstöðu, sem er hin glæsilegasta. Mér heyðist að Lauganemar gætu vel hugsað sér að stefna þangað að loknu stúdentsprófi á Laugum. Við fengum síðan pizzuhlaðborð af bestu gerð á Kaffi Bifröst áður en við lögðum í síðasta spölinn heim, þreytt og ánægð með afar vel heppnaða menningarferð.
Bestu þakkir, nemendur og starfsmenn og allir gestgjafar okkar fyrir dýrmæta samveru, skrifar Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari Framhaldsskólans á Laugum.