Heiðurstónleikar í Hofi í tilefni af 100 ára afmæli Ellu Fizgerald

0
201

Ella Fitzgerald á sérstakan stað í hjörtum margra enda er hún ein ástsælasta söngkona sem uppi hefur verið. Þessi drottning djasstónlistarinnar hefði orðið 100 ára þann 25. apríl síðastliðinn og af því tilefni ætlar söngkonan og lagahöfundurinn Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir ásamt Helgu Kvam píanóleikara, Stefáni Ingólfssyni bassaleikara og Rodrigo Lopes slagverksleikara að heiðra minningu þessarar einstöku konu með tali og tónum.

Tónleikarnir eru haldnir í Hofi fimmtudagskvöldið 17. ágúst kl 20:00. Viðburðurinn er unninn í samstarfi við Listasumar og Menningarfélag Akureyrar og er miðasala á tix.is og mak.is

„Tónlistarferillinn minn byrjaði þegar ég fór að hlusta á Ellu Fizgerald. Ella kynnti mig fyrir djassinum og er í raun ástæðan fyrir því að ég heillaðist af honum og ákvað að leggja tónlistina fyrir mig á sínum tíma. Frá árinu 2006 hef ég flutt lög hennar á ýmsum tónleikum sem síðar þróaðist út í að ég byrjaði í FÍH og fór að búa til djassmúsík. Þar stofnaði ég síðan djasshljómsveitina Kjass sem gefur út sína fyrstu plötu á árinu,“ segir Fanney og bætir við:

„Ég hef grátið og hlegið með Ellu, nefnt eina kind og einn hund í höfuðið á henni og mögulega væri ég ekki með kærastanum mínum í dag nema fyrir þetta tónlistarbrölt svo ætli hún sé ekki bara ábyrg fyrir því líka.“