Hausthugvekja í Þorgeirskirkju

0
167

Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
horfin sumars blíða.

Sagði Kristján Jónsson svokallað fjallaskáld um haustið.

Benedikt Gröndal sem var samtíðarmaður Kristjáns á 19. öldinni segir ennfremur um haustið.

Syngur Lóa suðr í mó
sætt um dáin blóm.
Alltaf er söngurinn sami
með sætum fuglaróm.

Og nær í tíma segir ljóðskáldið Hannes Sigfússon um haustið.

Gamlar konur á ferð yfir haustbrúna heiði
með hyrnur af svartri ull
knýttar að korpnuðum vöngum

Nætur sem líða hægt eins og haltur leiði
helsáran vin að gröf

Fiðlarinn stendur gneypur á gatnamótum
og gæðir svipvindi köldum
á leifum síns ljóðræna hjarta

Bliknuðu haustlaufi blæðir
björkin á malbikið svarta

Frá sjöundu hæð fer lyftan nður á neðstu
með nætur og daga
og læsir þau inni með leynd

Og síðasta lestin til suðurs úr norðrinu brunar

Við sjáum ljósin lengur en augað grunar.

Um haust gerast skáldin angurvær hvort sem þau tilheyra 19. öldinni eða þeirri 20. eða jafnvel þeirri 21. Yngsta skáldið í þessum hóp er líka angurvært. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson segir um haustfugla.

Það flugu tveir svanir
suður yfir heiðar
Ég sá þá snemma morguns
hverfa bakvið ský.

Langt síðan ég heyrði
hóglát vængjatökin
og hélt mig geta fundið
andblæ annars tíma.

Lét fyrst sem ég væri
laus við fjaðraþytinn
en langaði til að vita
hvað réði slíkri för.

Það flugu tveir svanir
og sumarið með þeim
ég sá alla litina týnast
í haustgrárri heiði.

Við heyrum í þessum ljóðum um það sem er horfið, það sem er farið, það sem er dáið, um tímann sem líður. Við finnum gjarnan samsvörun við mannlífið í haustljóðum. Haustið er sá árstími þegar gróðurinn sölnar. Skáldin tengja við hrörnun og dauða í mannlífinu.

Söknuður er tilfinning sem er samofin haustinu, sumarið sem er hlýtt, blómlegt, fullt af lífi og lit er farið, horfið og saknaðartilfinningin gerir okkur angurvær, það tilheyrir ekki aðeins skáldunum.

En það er fróðlegt að lesa haustkveðskap, því skáldin góðu eru sérstaklega næm fyrir umhverfi sínu, augnablikunum, samfélaginu, mannlegu eðli, séu þau á annað borð góð skáld.

Þau eru glúrin að fanga augnablik, landslag og jörð í texta, og það knappann texta, séu þau þá raunverulega glúrin, texta sem segir margt, sem birtir heilan heim, stemningu, skýrar kjarnamyndir.

Við eigum því oft auðvelt með að samsama okkur því sem birtist í kvæðum skáldanna, ég tala nú ekki um þegar um hið sammannlega er fjallað í haustljóðum, tíminn sem líður og breytist, hið jarðneska sem hrörnar og deyr.

En þetta er ein hliðin á haustinu. Haustið á sér fleiri hliðar, líka þær sem fær fólk til að halda því fram að haustið sé líflegasta og skemmtilegasta árstíðin. Uppskerutími.

Köngulóin vísar þér í berjamó. Kartöflurnar og rófurnar eru teknar upp. Fé er sótt á fjall, smalað heim, dregið í dilka, slátrað og gengið frá afurðum fyrir vetrarkomu, safnað í sarpinn.

Og allt eru þetta samfélagsleg verk, fólk kemur saman, íbúar í þéttbýli sjá sér leik á borði og taka bíltúr út í sveit til að hjálpa, spjalla og borða, iðandi líf á sveitaheimilum.

Og svo getur það verið þannig að við gleymum bara í öllum haustönnum fyrrnefndri angurværð, öllum söknuðinum, tímanum, dauðanum, þegar líkami og sál eru í syngjandi virkni í smalamennskunni, réttum, vigtun og flokkun líffjár eða í sultugerð ellegar sláturgerð, tíminn verður minni til að velta umhverfinu, lífsgildum eða jarðneskri hrörnun fyrir sér eins og skáldin gera.

En að önnum afstöðnum, þegar róast, sækir ýmislegt á hugann, eitthvað sem við hugsuðum um áður eða þess vegna eitthvað alveg nýtt og við þurfum að tala um það, torvelt oft að burðast með það ein, sumt má heyrast, annað krefst trúnaðar.

Þetta er ekki ólíkt því þegar við missum ástvin, þá er svo margt til að hugsa um þegar verið er að undirbúa jarðarförina, ég hef heyrt fólk segja að það hafi ekki tíma til að syrgja þann sem horfinn er, því það er um svo margt að hugsa, margt að muna, og svo margir láta líka vita af sér með kveðjur, hlýjan hug og faðm.

En eftir allt kveðjuferlið fellur svo allt í dúnalogn, sorgin sækir á af meiri þunga, spurningar eins og „Hvað svo?” herja á. „Hvað svo?”

Söknuður og vangaveltur um dauðann, og þú ferð meira að segja að skilja angurværð skáldanna um síðustu lestina sem brunar úr norðrinu suður eða svanina sem hverfa á bakvið skýin, að ógleymdri lóunni sem syngur sætt um dáin blóm.

Á þeim tíma er gott að hafa eyra sem vill heyra og sem vill túlka með þér veruleikann og hjálpa þér að vera viss um að þú sért ekki að rangtúlka. Skáldin túlka veruleikann, þess vegna er gott oft að lesa það sem þau segja og finna að þau þekki einnig það sem við þekkjum.

Og þannig er það með Krist sem er næmur á aðstæður, umhverfi, sameiginlegan hjartslátt og takt, lífsins leyndardóm, á guðdóminn, á hið heilaga.

Þess vegna er líka svo gott að tala við Krist sem gefur sterka innsýn inn í leyndardóma lífsins og opnar glugga inn í eilífðina. Allt þetta litróf mennskra tilfinninga er okkur mannfólkinu mikilvægt, bæði söknuðurinn og angurværðin sem haustið tjáir og sömuleiðis tilhlökkunin og lífsgleðin sem t.a.m. haustverkin framkalla.

Skáldin hafa jafnframt tjáð hið síðarnefnda eins og Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri í ljóði sínu um kartöflugrösin.

Þegar sumarið þreytist
velur myrkrið sér náttstað
á þökum húsanna.

Börn í blómalitum
vitja skólagarðanna.
Það er tími uppskeru
Þau hafa vaxið
í kapp við kartöflugrösin

Ég safna sumrinu
með berum höndum
fyrir frostin

finn að jörðin
á erindi við mig.