Hann átti alltaf bílnúmerið Þ177

0
271

Arnór Benediktsson oftast kenndur við Borgartún, fæddist í Barnafelli, var fermdur þar en flutti síðan með foreldrum sínum sem voru Benedikt Sigurðsson og Kristín Kristinsdóttir á leigujörðina Landamótssel í Kinn. Benedikt og Kristín eignuðust 8 börn, Sigurð 1911, Ingimar 1913 lést á öðru ári, Ingimar 1915, Braga 1918, Arnór 1920, Þórhall 1922, Sigríði Árnínu 1928 og Guðbjörgu 1934. Bræðurnir keyptu síðar jörðina handa foreldrum sínum. Guðbjörg býr í Reykjavík og Arnór (kallaður Nóri af heimafólki) býr á öldrunardeildinni á Húsavík.

Nóri úti á stöppum í Borgartúni
Nóri úti á tröppum í Borgartúni

 

 

 

 

 

 

 

Arnór bjó með foreldrum sínum í Landamótsseli fram yfir tvítugt en fór þá að vinna hjá öðrum. Hann var ráðinn á skurðgröfu á vegum Vegagerðarinnar.  “Ég vann mikið við að moka upp skurði til að þurrka upp land fyrir vegagerð og var uppgröfturinn notaður undir annað efni í veg. Þegar ég fór að vinna hjá Ríkinu fór ég að eignast krónu og krónu og loks gat ég keypt mér VOLO vörubíl 1946.” (samkv. uppl. frá Sverri á Samgönguminjasafninu var bíllinn nýskráður 16. September 1946). Nóri átti alltaf bílnúmerið Þ177.  Þá fór Nóri að vinna svona hingað og þangað, keyrði mjólkurbíl til Húsavíkur með hléum til ársins 1968. Ferðirnar til Húsavíkur gátu tekið hálfu og heilu sólahringana á vetrum og í vondu veðri, ég fór ferð eftir ferð án þess að vita hvar vegurinn var, enda engar vegstikur komnar þá, maður fann þetta á undirlaginu hvar bíllinn var og fór rólega. Á árunum 1950-1953 var fé flutt úr Þingeyjarsýslu suður í Árnessýslu “þá var þetta sólahringsferð að aka suður  “lítt’á á sko” því ekki var búið að klæða einn einasta blett.  Einnig vann Nóri við ýmsa þungafluttninga, og oft á gröfu samhliða akstrinum, hann hefur verið heppin bílstjóri og á að baki farsælan bílstjóraferil.  “Ég hef átt eina 12 bíla, en segja má að enginn vegur hafi verið fær fyrir 50 árum, miðað við það sem er í dag.”

Árið 1948 fór Nóri að grafa fyrir húsinu sínu, það fékk nafnið Borgartún og var nýbýli úr Landamótsseli.  “þetta var sinuhóll og landið frekar blautt en ég þurrkaði það upp og breytti í tún. Húsið var í byggingu til 1953, maður þrjóskaðist við þetta, en ég átti eitt herbergi eftir óklárað þegar við fluttum inn, og ætli ég klári það nokkuð héðan af”  segir Nóri, brosir og skellir svo uppúr hristist af hlátri. Eiginkona Nóra var María Indriðadóttir  þau gegnu í hjónaband  þegar þau fluttu í húsið ‘53 og voru gefin saman af Þormóði Sigurðssyni presti á Vatnsenda.  Arnór og María eignuðust þrjá syni Indriða 1951, Þórhall 1955 og Hauk 1958 sem lést árið 2006.

“Ég gat verið að þvælast þetta hingað og þangað í vinnu því ég átti góða konu, hún sá um allt heimavið, hún sat yfir fénu á vorin og mjólkaði kýrnar, við vorum ekki með stórt bú enda gaf aksturinn meira af sér.”  María var meira en myndarleg húsmóðir, hún var höfðingi heim að sækja og kaffiborðið þekkt í sveitinni, ævinlega hlaðið heimabakkelsi og sortirnar ófáar.   “Okkur leið alltaf vel í Borgartúni segir Nóri.”

Borgartún
Borgartún

 

 

 

 

 

 

Nóri var um árabil skólabílstjóri, ók börnum úr Bárðardal og Kinn í Stórutjarnaskóla, einu sinni sem oftar var vonsku veður, norðan blind hríð, og það sást ekki glóra útúr augunum og rokhvasst, Nóri var staddur á Holtakotsmóunum, hann greip til þess ráðs að láta einn unglingspiltinn undir stýri, bíllinn var settur í lága drifið og svo fór Nóri sjálfur út og gekk á undan bílnum, “jú lítt’á sko það var ekkert annað hægt að gera” segir Nóri og kímir.

Árið 1925 varð atburður í Barnafelli sem lengi verður minnst.

Nóri segir svo frá:    Veðrið var kyrrt og gott, mamma var að þvo þvotta inni. Við vorum fjórir bræðurnir úti á hlaði Ingimar 10 ára, Bragi 7 ára, ég 5 ára og Þórhallur 3 ára. Hlaðið var ekki stórt og svo var snarbratt túnið niðurundan og glæra hjarn yfir öllu. Ég held að engin hafi gert sér grein fyrir því hvað hjarnið var sleipt. Þórhallur var að leika sér með kassa sem hann svo missir og kassinn rennur niður túnið og stoppar á miðri leið. Þórhallur fer að skæla og Bragi býðst til að sækja kassann en fellur og rennur niður hjarnið framhjá kassanum og getur ekki stoppað sig, það voru tvær þúfur sem stóðu uppúr hjarninu niður við gilbarminn gengt Barnafossi, hann hentist yfir fyrri þúfuna en stoppar á þeirri seinni, þá voru ekki nema 2-3 metrar, hallandi fram að bjargbrún. Ingimar hleypur þá inn og segir mömmu hvað gerst hafði, sem kemur hlaupandi út, en hún fellur og rennur sömu leið og stöðvast hjá Braga. Sigurður þá 14 ára var rétt nýlagður af stað í Glaumbæjarsel (að skila bókum held ég). Í Glaumbærjarsel er farið yfir á klakaboga sem myndast þegar úði frá Barnafossi frýs yfir kvíslina úr Skjálfandafljóti, þessi klakabogi var notaður til að reka fé til vetrarbeitar út í Þingey. Sigurður heyrir í þeim, snýr við og hleypur heimá leið, hann kallar til þeirra að vera alveg gafkyrr. Sigurður fer áleiðis heim að bæ en kallar til Ingimars um að binda kaðal í reku og láta síga til sín. Sigurður sporar sig yfir hjarnið, heggur slóð með rekunni að þúfunni, bindur snærisendann í Braga og kemur honum uppá holt sunnar, og fer svo eins að við að sækja móður sína.

Barnafoss með klakaboga
Barnafoss með klakaboga

 

 

 

 

 

 

 

Fréttaritari spyr Nóra hvort honum líði ekki vel á Húsavík  “það er merkilegt hvað mér semur vel við Húsvíkinga, ég hafði nú ekki mikið álit á þeim hér áður fyrr” segir og hann dillar af hlátri. En svona án gríns “ jú það er óskaplega elskulegt allt fólkið útfrá, við hittumst þrír kallar alla daga klukkan fimm og tölum saman til hálf sex, þetta er bara alveg föst regla og starfstúlkurnar eru allar yndislega góðar.

Þegar fréttaritari stóð upp frá eldhúsborðinu í Borgartúni þennan síðsumarsmorgun, eftir að hafa þegið kaffisopa og pönnukökur, og sagði við Nóra “jæja ég fer þá heim og skrifa eitthvað, kannski tóma vilteysu og lýgi”  þá svarar Nóri  “já já það er nú ekkert púður í því öðruvísi” við Nóru kvöddumst svo á tröppunum eftir að hafa horft yfir sveitina, því mjög fallegt útsýni er úr Borgartúni.