Hafralækjarskóli 40 ára

0
580

Haldið var uppá Fjörutíu ára afmæli Hafralækjarskóla í gær. Hátíðardagskrá var í skólanum frá kl 14-16 þar sem fluttar voru ræður ásamt skemmtiatriðum frá tónlistardeild skólans.

Ólafur Arngrímsson skólastjóri Stórutjarnaskóla og Harpa Hólmgeirsdóttir skólastjóri Þingeyjarskóla á Hafralæk. Mynd: Árni Pétur Hilmarsson.

Dagurinn var einstaklega vel heppnaður og skemmtu allir sér vel. Góðar kveðjur komu víða að. Þingeyjarsveit og Stórutjarnarskóli færðu Hafralækjarskóla gjafir í tilefni dagsins. Færum við öllum gestum okkar þakkir fyrir heimsóknir og hlýhug á þessum degi.

Hér eftir fer brot úr ræðu skólastjóra Hörpu Þ. Hólmgrímsdóttur þar sem hún rifjar upp sögu skólans og liðna tíð.

Gestir á Hafralæk í gær.
Mynd: Árni Pétur Hilmarsson

 

 

Fyrsti fundur byggingarnefndar fyrir Hafralækjarskóla var haldinn í maí 1965. Staðsetningunni réði eflalaust að fundist hafði heitt vatn í landi Hafralækjar og skv. fundargerðum bygginganefndar frá þessum tíma takast samningar með Hafralækjarbónda um heitavatnsréttinn og land til skólabyggingar sem að hluta til var gefið og hluta til keypt. Skólabyggingin var sameiginlegt verkefni Aðaldælahrepps, Reykjahrepps og Tjörneshrepps og framkvæmdir hófust árið 1968 samkvæmt upplýsingum úr Árbók Þingeyinga. Arkitekt hússins er Skúli Norðdahl, yfirsmiður Stefán Óskarsson. Árið 1969 er sagt í sama riti að verkinu hafi skilað áfram og vonir standi til að hægt verði að hefja þar skólahald árið 1971 ,,ef ekkert óvænt kemur fyrir“.  1970 er þess enn getið í árbókinni að byggingu Hafralækjarskóla miði áfram jafnt og þétt og 1971 hafi verkinu miðað vel áfram. Hvað réði því að fyrri áætlanir um að nýting hússins hæfist það ár gengu ekki eftir kemur ekki fram en  árið eftir eru störf hafin í Hafralækjarskóla. Fyrsti nemendadagur var 16. október og hef ég orðið þess vör að nú þegar skóli hefst orðið í ágúst  að nemendur horfa til þeirrar dagsetningar öfundaraugum.Í fréttum úr héraði í árbókinni þetta ár 1972 kemur fram að kostnaður við bygginguna hafi verið 65 milljónir króna og húsnæðið sé milli 9 og 10 þúsund rúmmetrar að kennaraíbúðum meðtöldum. Þó vantaði þá ennþá sundlaug og íþróttasal.

Það voru um 120 nemendur sem hófu nám í skólanum þetta haust, úr sveitarfélögunum þremur sem að byggingunni stóðu auk nemenda úr Út-Kinn. Heimavist var fyrir nemendur Tjörneshrepps til ársins 1992 en þá var gerð tilraun með heimanakstur þaðan sem síðan reyndist komin til að vera þar til ekki fundust lengur nein börn á Tjörnesi.

Ég minntist þess við skólasetningu sl. haust hversu viðbrigðin voru mikil að koma úr gamla, litla og fámenna barnaskólanum uppi við Staði í þessi nýju húsakynni og í fjölmennari nemendahóp. Bjartmar Guðmundsson segir í skrifum sínum í Árbókinni þetta ár að gaman sé að ,,litast um innna veggja og vita til þess að þarna hafi skapast skilyrði fyrir börn og kennara með allt öðrum og betri hætti en áður var. Ennfremur segir hann: ,,Nú hafa kennararnir fengið hallir til umráða… þarna hafa þeir tækin og tækifærin …sem eru með allt öðrum hætti en hinir höfðu sem á undan þeim fóru.“

Þessi miklu húsakynni eru mér efst í huga þegar ég hugsa til baka. Það virtist enginn endir vera á því hversu stór þau voru og í hvert sinn sem maður taldi sig þekkja húsið orðið út og inn komst maður að því að enn var hægt að uppgötva nýjar vistarverur. Að fara í íþróttir niður í Víti, gluggalausa kjallaraherbergið þar leikfimi var kennd, var þvílík krókaleið að maður var aldrei viss um hvort maður myndi nú lenda á réttum stað..hvað þá hvort maður kæmist til baka!

Í eldhúsinu réði Denna ríkjum og hafði m.a.sér til fulltingis Finnu sem skammtaði hafragrautinn af miklli lyst. Þar störfuðu líka fleiri góðar konur sem ég nefni ekki hér þó einnar verði ég þó að geta. Það er hún Didda sem haldið hefur tryggð við staðinn frá upphafi, að því frátöldu að bregða sér frá um tíma tvisvar sinnum til barneigna. Og Didda veit allt!!! Ef ég þarf að rifja upp eitthvað í sambandi við sögu skólans leita ég til Diddu.

Þennan fyrsta vetur í skólanum hóf skólablaðið Tætlur göngu sína. Ritstjóri var Hólmgeir á Staðarhóli. Nemendur sendu inn efni, það voru tekin viðtöl, birtar voru valdar ritgerðir nemenda, auglýsingum var safnað og síðan hófst uppsetning blaðsins. Ritnefndin vann hörðum höndum við að vélrita upp efnið, teikna myndir og handskrifa….allt náttúrulega á þartilgerða stensla sem síðan voru settir í fjölritann sem ég man reyndar ekki lengur hvort var handsnúinn eða rafdrifinn. Allt þetta var unnið undir stjórn Dóru ábyrgðarmanns, en hún eins og Didda hefur verið starfandi í Hafralækjarskóla frá upphafi, með einhverjum hléum þó.

Það er gott að hafa fólk sem hefur yfirsýn yfir heildarmyndina. Denna sagði einhverntíma að nemendafjöldinn hefði mest farið í 147 en þá bætti Dóra við, nei þeir urðu 150 …í einn dag!!!!!

Skólastjórar við Hafralækjarskóla hafa verið átta á þessum 40 árum.

Sveinn Kjartansson frá 1972-1976 en þá hætti hann á miðju skólaári og við starfi hans tók Ragnheiður Jónsdóttir sem var kennari við skólann. Hún gegndi því starfi til vors en næsta skólaár kom Sigmar Ólafsson og starfaði hann sem skólastjóri til ársins 1997
Svanhvít Magnúsdóttir tók við af Sigmari til ársins 1999 en þá tók við skólastjórn Brynhildur Þráinsdóttir í eitt skólaár. Bjarni Guðmundsson tók síðan við af henni og stýrði skólanum fram í mars 2005 en þá tók Þórunn Sigtryggsdóttir við störfum hans. Sú sem hér stendur kom til starfa haustið 2005 og hef starfað hér síðan utan eins árs í námsleyfi en þá gegndi Þórunn einnig störfum skólastjóra.

Ég óska Hafralækjarskóla til hamingju með áfangann,…. ykkur fyrir að heiðra hann með nærveru ykkar.