Hafdís Sigurðardóttir – Aldrei verið í betra keppnisformi

0
301

Hafdís Sigurðardóttir, frjálsíþróttakona úr UFA frá Tjarnarlandi í Ljósavatnsskarði, hefur sjaldan eða aldrei verið í betra keppnisformi. Hún sigraði í þremur einstaklingsgreinum á Landsmótinu á Selfossi. Hún vann sigur í bæði 100 og 200 metra hlaupum og svo stökk hún lengst allra í langstökki og setti um leið landsmótsmet. Einnig vann hún silfur með boðhlaupssveit UFA og svo krækti hún sér í brons í sleggjukasti. Frá þessu segir á vef landsmóts UMFÍ á Selfossi.

Hafdís með uppskeru helgarinnar.
Hafdís með uppskeru helgarinnar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

,,Ég var mjög sátt við 200 metra hlaupið þrátt fyrir mikinn vind á móti í beygjunni en lagaðist síðan á beinu brautinni. Sátt þegar upp er staðið og að hlaupa undir 24 sekúndum er ágætt út af fyrir sig,“ sagði Hafdís Sigurðardóttir skömmu eftir hlaupið. Hún sagðist ennfremur vera ánægð með langstökkið í gær, gott að setja landsmótsmet og fara yfir sex metra en serían sem slík var ekkert sérstök.

,,Það er alltaf gaman að koma á Landsmót, ákveðin stemning en auðvitað hefði veðrið mátt vera betra og fleira fólk í stúkunni. Ég held að keppendur hafa verið ánægðir með mótið og árangur í mörgum greinum var góður og margir að bæta sinn árangur,“ sagði Hafdís.

Aðspurð hvað væri fram undan hjá henni sagði Hafdís smá pásu næstu daga en síðan væri nóg að gera eftir það.

,,Ég er í besta keppnisformi á ferlinum og vonandi held ég áfram að bæta mig. Ég hef æft mikið og er að uppskera núna laun erfiðisins. Það er bara búið að ganga vel og mér hefur gengið ofsalega vel í sumar,“ sagði Hafdís Sigurðardóttir fyrrverandi Bjarma og HSÞ meðlimur í spjalli við landsmótsvef UMFÍ.