Hættunni boðið í Þingeyjarsýslur

0
111

Ránið í Jarðböðunum í Mývatnssveit um verslunarmannahelgina, þar sem stórfé var stolið um nótt, kann að vera afleiðing þess að löggæsla á Norðausturhorni landsins er óviðunandi og hefur spurst út hve umferð lögreglumanna er takmörkuð á stórum svæðum. Frá þessu er sagt í Akureyri-vikublaði í dag. Guðrún María Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, segir að bent hafi verið á að opinber umræða um vandann kunni að virka sem segull fyrir sakamenn, en sveitarstjórn Skútustaðahrepps sendi í sumar frá sér harðorða ályktun ásamt Þingeyjarsveit og Norðurþingi þar sem úrbóta var krafist. „Við höfum heyrt að með þessu höfum við auglýst upp ástandið, en við erum búin að þegja í tvö ár síðan hér var skorið mest niður. Við getum ekki þagað lengur,“ segir Guðrún María.

Jarðböðin í Mývatnssveit.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Milljónavelta verslunarmannahelgarinnar fór fyrir lítið í jarðböðunum í ráninu og leikur grunur á að vanir þjófar hafi verið að verki. Einn lögreglumaður þarf á köflum að sinna svæði sem nær frá Víkurskarði og austur á öræfi og niðurskurður ekinna kílómetra hjá lögreglu er um 60% á tveimur árum að sögn Guðrúnar Maríu. Á sama tíma gista meir en 2000 manns í Mývatnssveit yfir sumarið á næturnar þegar háönn ríkir í ferðamennsku. Að miða fjölda lögreglumanna við íbúa með lögheimili er því ónothæfur mælikvarði að sögn sveitarstjóra Skútustaðahrepps.Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fékk ályktun sveitarfélaganna í hendur meðal annarra en engin viðbrögð hafa orðið. „Þetta gengur ekki svona. Við gerum þá kröfu að við íbúar hér njótum sama öryggis og fólk á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Guðrún María Valgeirsdóttir.  Akureyrivikublad.is