Hærra minn Guð til þín

Séra Bolli hífður upp með kranabíl

0
457

“Þau eru margvísleg vorverkin á prestssetrinu í Laufási. Á verkalýðsdaginn slitnaði fánalínan eins og fyrr hefur verið frá greint. Þá þurfti að skipta um línu og þar sem vont þykir að fella stöngina hafði ég samband við Bjössa (Halldór Sigurbjörn) vin minn í Réttarholti og hann lyfti hjörtum vorum til himins. Mér fannst tilvalið að klæðast hempu við þessa guðsþjónustu hversdagsins enda fór ég nokkuð nær Almættinu en gengur og gerist og hefði ég síðan fallið til jarðar hefði það orðið með meiri reisn í tilkomumiklum embættisklæðunum. Dagurinn fagur og hlýr til verksins og þarna leit ég stoltur yfir umdæmið og orð sr. Matthíasar sóttu á mig: „Ó, mikla hnoss að hitta þig og helga svölun fá,” en síðan hefðu næstu orð sótt fremur á nána ástvini þ.e.a.s. ef illa hefði farið: „Minn Guð, þá syndin særir mig og sorgin dynur á.” En allt fór vel að lokum”, skrifar Bolli Pétur Bollason.

Myndirnar hafa vakið mikla kátínu á Facebook eftir að þær voru birtar þar í gær.  Komment eins og “Ertu að blessa allan Eyjafjörðinn?” Uppstigning, himnaför, dýrð í hæstu hæðum, klerkurinn fljúgandi, Þvílíkur predikunarstóll og fleira hafa verið skrifuð við myndirnar.

Björn Ingólfsson á Grenivík samdi eftirfarandi vísu

Hamingjan kemst á hæsta stig,
á himninum sólin skín
er Halldór Sigurbjörn hífir mig
hærra, minn Guð, til þín!

Lagt af stað
Komin hálfa leið

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Best að fara varlega
Bolli Pétur komin upp