Gvendur dúllari

0
483

Það getur verið gaman að prestasögum. Ein er alveg sérlega góð og það er saga Árna prófasts Þórarinssonar, sem var skrásett af Þórbergi Þórðarsyni.  Á milli stríða gefst oft ráðrúm til þess að setjast niður með bók og ég mæli með sögunni hans Árna. Af mörgum köflum í þeirri miklu sögu, er einn alveg sérlega áhugaverður og fjallar um föðurbróður Árna, sem hét Guðmundur Árnason og margir kannast við undir nafninu Gvendur dúllari.

Bolli Pétur Bollason
Bolli Pétur Bollason

 

Guðmundur þótti efnilegur í æsku, en veiktist ungur af heilabólgu og varð ekki samur maður eftir það. Þrátt fyrir það tókst honum að setja mark sitt á mannlífið með mjög svo eftirtektarverðum hætti og auðgaði þá fábreytt þjóðlíf og tilveru fólks með þeirri íþrótt og þeirri listgrein er nefnist dúll. Og hvað er nú það?

Jú, dúllið var einskonar söngur, sem Guðmundur söng með sérstökum seremoníum. Hann setti sig í stellingar og best þótti honum að leggja olnboga á kvenmannssvuntu, en þannig sagði hann að dúllið hljómaði best. Þegar hann hafði komið sér fyrir upphófst dúllið og það gerðist með þeim hætti að hann söng eða raulaði eitthvert lag og lét engin orð fylgja. Í staðinn fyrir textann velti hann tungubroddinum upp og niður við efra góminn svo að dillandi hljóð í margvíslegum tilbrigðum barst um bæinn.

Til þess að gera sönginn fegurri og áhrifameiri fyrir sjálfum sér og auka á kraft raddbandanna dillaði hann enda litla fingurs vinstri handar í vinstri hlustinni á meðan hann dúllaði lagið. Hann dúllaði t.d. sálmalög og tón presta ásamt ýmsu öðru, sem átti upp á pallborðið hjá landanum og venjulegast gerði hann grein fyrir lögunum, áður en hann dúllaði, eins og tónlistarmenn í dag eru gjarnir á að gera.

Guðmundur varð vinsæll og oft var húsfyllir á skemmtunum, þar sem hann tróð upp, það leiðir hugann að því að ef til vill væri það gráupplagt að fá svolítið dúll inn í kirkjuna sem og víða annars staðar, til þess að auðga mannlífið og fá það til þess að gleyma sér um stund í allri umræðu um kreppu, slæmt gengi og hærri vexti, sem vissulega er alltaf fyrirferðamikið umræðuefni í heitu pottunum og allt um kring.

En sennilega fer enginn í spor Guðmundar, því bæði var hann einstakur og víst er hann ekki lengur til frásagnar og leiðsagnar, það minnir reyndar á lýsingu hans sjálfs á lífi og dauða föður síns Árna, sem var með þessum orðum:

„Hann faðir minn lifði alla sína ævi og dó þegar og lifði ekkert eftir það.“

En minning Guðmundar lifir og í þessu pistilkorni mínu vek ég athygli á þeirri minningu, ekki síst vegna þess að Guðmundur myndi án efa ekki falla inn í staðalímyndina og slíkt gefur lífinu einfaldlega lit og um leið kennir það okkur þá lexíu að það er varhugavert að steypa alla í sama mót, við erum jú öll einstök og sérstök og getum haft svo margt skemmtilegt fram að færa. Dúll, auk margs annars, er þar viss áminning.

Annar kostur, sem Guðmundur kenndi með lífi sínu, var umtal um annað fólk, en brestir manna bárust lítt í tal hjá honum. Það er stór kostur og gott að hafa í huga. Það var aðeins einu sinni, sem Guðmundur gat varla orða bundist og það var þegar honum varð hugsað til fóstru sinnar. Þetta eru orð Guðmundar:

„Þeir voru ekki margir gallarnir, sem hún hafði hún fóstra mín heitin sálaða. Gallinn var aldrei nema einn. En hann var líka stór. Það var þegar hún lét grautinn út á skyrið í staðinn fyrir að láta skyrið út á grautinn.“