Guðni klár í slaginn

0
70

Lesefnið sem flestir hafa beðið eftir fyrir jólin er komið út, það er Hrútaskráin vinsæla sem á næstu dögum fer í dreifingu til sauðfjárbænda enda sæðingar framundan í desember.

Guðni klár í slaginn

 

En það eru ekki bara bændur sem hafa gaman að því að lesa bókina og pæla í vinsælustu hrútum landsins heldur á hún marga aðdáendur víða um land.  Í gegnum sæðingastöðvarnar hafa orðið miklar kynbætur í íslenska fjárstofninum.

 

Sauðfjárbændur hafa notið góðs af kynbótunum og svokallaðir frístundabændur hafa einnig notfært sér ræktunina með því að kaupa lambhrúta til kynbóta sem eru afkomendur þeirra hrúta sem valdir hafa verið á sæðingarstöðvar til undaneldis.

Einn af þeim er Guðni sem nefndur er í höfðuð á þeim ágæta manni Guðna Ágústsyni sem flestir þekkja enda farsæll stjórnmálamaður og mikill baráttumaður.  Guðni hefur meðal annars undanfarið staðið fyrir fjársöfnum til handa bændum á Norðurlandi sem fóru illa út úr óveðrinu um miðjan september.

Ofurhrúturinn Guðni er í eigu hlutafélagsins Grobbholts, sem frístundabændur á Skógargerðismelnum á Húsavík standa að. Guðni er 87 stiga hrútur ættaður úr Hagalandi í Þistilfirði komin út af þeim mikla kynbótahrút Kveik 05-965 sem er einn af betri hrútum sem notaður hefur verið á sæðingarstöðvunum á síðustu árum. Guðni stigast mjög hátt auk þess sem hann fékk 5 fyrir lögun sem er það hæsta sem gefið er.

Frístundabændurnir á Skógargerðismelnum eru ekki beint þekktir fyrir að vera til baka þegar sauðfjárrækt er annars vegar en þeir telja ástæðulaust að halda hrútasýningu á Mærudögum á næsta ári þar sem Guðni sé fyrirfram búinn að sigra keppnina. Engin hrútur hafi framlappirnar þar sem Guðni hafi afturlappirnar, þvílíkir séu yfirburðirnir.

Nú er að sjá hvort þessar stóru yfirlýsingar standast en áhugsamir þurfa að bíða eftir næstu Mærudögum til að fá það staðfest.   Frétt fengin af 640.is