Grunnskólakennarar í Þingeyjarsveit – Skora á samninganefndir að ganga sem fyrst frá kjarasamningum

0
115

Grunnskólakennarar beggja grunnskóla Þingeyjarsveitar Stórutjarnaskóla og Þingeyjarskóla, lögðu niður störf kl 13:30 í dag og efndu til samstöðufundar í Dalakofanum á Laugum. Í tilkynningu segir að fundurinn hafi verið góður og var almenn þátttaka kennara á fundinum.

Frá fundinum í Dalakofanum
Frá fundinum í Dalakofanum

 

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum sem sendar voru til samninganefnda annarsvegar og sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar og fræðslunefndar Þingeyjarsveitar hinsvegar.

 

 

Sameiginlegur fundur grunnskólakennara Stórutjarnaskóla og Þingeyjarskóla í Þingeyjarsveit haldinn í Dalakofanum 22. nóvember 2016, skorar á samninganefndir grunnskólakennara og sveitarfélaga að ganga sem fyrst frá kjarasamningum við grunnskólakennara svo sátt komist á og eðlileg nýliðun verði í stéttinni um leið og flótti grunnskólakennara úr stéttinni stöðvist.

 

Sameiginlegur fundur grunnskólakennara Stórutjarnaskóla og Þingeyjarskóla, haldinn í Dalakofanum 22. nóvember 2016, skorar á fræðslunefnd og sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að vinna að því að ná fram breytingum á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga svo sveitarfélögum á Íslandi verði gert kleift að reka grunnskóla sem þeim ber samkvæmt lögum með viðunandi launakjörum kennara miðað við sambærilega menntun annarra stétta.