Grímur Hákonarson um Hrúta – Woody Allen elskaði hana

0
184

Kvikmyndin Hrútar er ein mest verðlaunaða íslenska kvikmyndin sem gerð hefur verið. Frá því að myndin fékk “Un Certain Regard” verðlaunin í Cannes í maí hefur hún fengið 25 alþjóðleg verðlaun á kvikmyndahátíðum í Evrópu og Bandaríkjunum og í febrúar hirti hún 11 af þeim 13 Edduverðlaunum sem hún var tilnefnd til. Myndin var að miklu leiti tekin á Bólstað og Mýri í Bárðardal sem eru fremstu bæir í vestan verðum Bárðardal. Grímur Hákonarson er leikstjóri og handritshöfundur Hrúta og 641.is spjallaði við Grím um myndina og verkefnin sem framundan eru.

Grímur Hákonarson var viðstaddur Íslandsfrumsýninguna á Laugum
Grímur Hákonarson var viðstaddur Íslandsfrumsýninguna á Laugum

Ertu ánægður með viðtökurnar á myndinni hér heima og erlendis?

Viðtökurnar hafa farið fram úr öllum vonum. Myndin hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur og næstum allir dómar hafa verið jákvæðir. Myndin virðist höfða til fólks á öllum aldri og snertir fólk hvar sem það býr í heiminum, þó hún sé mjög íslensk.

 

Á eftir að sýna myndina á einhverjum kvikmyndahátíðum í viðbót ?

Kvikmyndahátíðavertíðin er að mestu leiti búin, þar sem búið er að frumsýna myndina fyrir nokkru síðan, en hún verður þó sýnd á kvikmyndahátíðum í Panama í Íran fljótlega.

Hvað er búið að selja sýningarréttinn á myndinni til margra landa ?

Það er búið að selja sýningarréttinn til um 40-50 landa og svæða víðsvegar í heiminum og til allra landa í Evrópu nema Búlgaríu. Sennilega eru Hrútar orðin víðförlasta íslenska kvikmyndin til þessa.

Jón Friðrik Benónýsson, Guðrún Sveinbjörnsdóttir, Teodór Júlíusson, Grímur Hákonarson, Sigurður Sigurjónsson og Grímar Jónsson
Jón Friðrik Benónýsson, Guðrún Sveinbjörnsdóttir, Teodór Júlíusson, Grímur Hákonarson, Sigurður Sigurjónsson og Grímar Jónsson

Hvernig hefur myndin gengið erlendis ?

Myndin hefur gengið mjög vel í Bretlandi. Hún hefur skilað 200.000 punda tekjum og er vinsælust kvikmynda í Bretlandi á þessu ári sem er á erlendu tungumáli og hún er enn í sýningum þar. Mesta aðsóknin hefur hinsvegar verið í Frakklandi en þar hafa um 130.000 miðar verið seldir á hana. Einnig gekk hún vel í Noregi, Póllandi og Hollandi, en það eru einmitt löndin sem venjulega gefa Íslandi flest stig í Júróvísion. Svo hjálpar það óneitanlega til að Ísland er “heitt” land þessa dagana.

Myndinni hefur ekki gegnið jafn vel í Bandaríkjunum eins og við höfðum vonast til, en hún er enn í sýningum þar.

Við erum þó mjög ánægðir með að myndin hafi yfirleitt komst í kvikmyndahús þar því Bandaríkjamenn nenna yfirleitt ekki að lesa texta við erlendar myndir. Myndin hefði líklega gengið betur ef hún hefði fengið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Ég fékk þó skilaboð um daginn frá Woody Allen um að hann hefði séð myndina og að hann hefði “elskað” hana. Það var ekki leiðinlegt að heyra það frá þessu mikla átrúnaðargoði. Við höfum svo fengið skilaboð frá Ástarlíu um að þar sé áhugi fyrir því að gera endurgerð af Hrútum. Það er þó óljóst hvernig það fer.

Bárðdælingar fjölmenntu á frumsýninguna
Bárðdælingar fjölmenntu á frumsýninguna

Er hagnaður af Hrútum ?

Það er amk. nokkuð öruggt að hún stendur ágætlega undir sér en ég hef ekki nákvæmar tölur um það. Svo eru enn sýningar í gangi á myndinni. Það er erfitt að segja til um það á þessari stundu.

Vonbrigði með Óskarinn ?

Já, eiginlega, því myndin var talin líkleg til að fá amk. tilnefningu. En okkur vantaði sterkari markaðsherferð til að kynna myndina. Myndin átti raunhæfa möguleika á tilnefningu og voru margir blaðamenn undrandi á því að Hrútar var ekki tilnefnd til Óskarsverðlaunanna.

Ég er þó mjög ánægður með að hún var talin líkleg, það er sigur út af fyrir sig.

 

Hvað er svo framundan?

Við Grímar framleiðandi erum að þróa handrit sem heitir “Héraðið” og fjallar um miðaldra húsmóður sem kemur út úr skápnum í litlu samfélagi úti á landi. Við erum að hugsa um að taka hana upp í Skagafirði, það er þó ekki ákveðið. Við áætlum að fara í tökur 2017.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar Hrútar var frumsýnd í Laugabíói í maí sl. Kvikmyndin Hrútar var svo sýnd á Rúv í gærkvöld.