Gríðarlega erfitt ár að baki

0
176

“Árið er búið að vera gríðarlega eril og kostnaðarsamt” sagði Hallgrímur Óli Guðmundsson formaður Hjálparsveitar Skáta í Aðaldal í spjalli við 641.is í dag. “Álagið á okkar menn var gríðarlegt í september og margir keyrðu sig hreinlega út í haust”. Rúmlega 10 menn eru virkir í hjálparsvetinni en eitthvað á þriðja tug meðlima eru á skrá hjá HSA. Í venjulegu árferði fáum við 15-20 útköll eða aðstoðarbeiðnir, en nýliðið ár er það annasamasta til þessa, hjá Hjálparsveit Skáta í Aðaldal, enda voru útköllin margfalt fleiri en venjulega.

Árni Pétur Hilmarsson og Hallgrímur Óli Guðmundsson. Mynd: Þorsteinn Ragnarsson
Árni Pétur Hilmarsson og Hallgrímur Óli Guðmundsson. Mynd: Þorsteinn Ragnarsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

1000 vinnustundir.

Liðsmenn Hjálparsveitar Skáta í Aðaldal, skiluðu samtals um 1000 vinnustundum og það bara við leit og björgun á sauðfé í kjölfar septemberóveðursins og við að aðstoða Landsnet við viðgerðir á raflínum. Engin önnur Björgunarsveit skilaði svona miklu vinnuframlagi í kjölfar septemberóveðursins eins og Hjálparsveit Skáta í Aðaldal gerði. Liðsmenn HSA voru hér um bil alla daga frá 11. september til 30. september að leita að sauðfé á Þeistareykjasvæðinu og nálægum heiðum. Einnig var leitað flesta daga í fyrrihluta októbermánaðar. Hjálparsveitin Skáta í Aðaldal gengdi lykilhlutverki við björgun sauðfjár af Þeistareykjasvæðinu enda er það afrétt Reykhverfunga og Aðaldæla og liðsmenn því staðkunnugir aðstæðum og margir þeirra eru líka sauðfjárbændur sem áttu fé á svæðinu.

Lamb grafið upp á ÞeistareykjumMynd: Hallgrímur Óli Guðmundsson
Lamb grafið upp á Þeistareykjum
Mynd: Hallgrímur Óli Guðmundsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skemmdir á tækjum og tólum.

“Tæki sveitarinnar fengu svo sannarlega að finna fyrir því og var ýmislegt úr lagi gengið þegar þessum aðgerðum lauk. Nokkur kostnaður verður af þessu fyrir sveitina að koma tækjabúnaði í samt lag. En Hjálparsveitin hefur jafnframt notið góðvildar í samfélaginu og hefur hún verið styrkt myndarlega af íbúum á svæðinu. Kvenfélögin í Aðaldal og Reykjahverfi hafa veitt styrki og einnig styrkti Kiwanisfélagið Skjálfandi HSA. Þá er þess sérstaklega að geta að börn í Hafralækjarskóla héldu aukasýningu á leikritinu Hafið bláa og gaf Hjálparsveitinni alla innkomu af þeirri sýningu.” Hallgrímur sagði að hjón á einu sauðfjárbúi í Aðaldal hefði styrkt hjálparsveitina um 50.000 krónur og margir hefðu keypt óvenju mikið af  flugeldum í ár.  Hallgrímur sagði að þeir félagar í HSA finndu fyrir velvild í þeirra garð frá sveitungum sínum og það væri gríðarlega mikilvægt.

Árni Pétur Hilmarsson að brjóta ísingu af línu.Mynd: Hallgrímur Óli Guðmundsson.
Árni Pétur Hilmarsson að brjóta ísingu af línu.
Mynd: Hallgrímur Óli Guðmundsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stóla á flugeldasölu.

Vont veður var síðustu daganna fyrir áramót og dró það mjög mikið úr flugeldasölu hjá HSA. Það var mjög bagalegt fyrir Hjálparsveitina þar sem flugeldasalan fyrir áramótin er þeirra aðal tekjulind og þurfti sérstaklega á henni að halda eftir mjög dýrt ár hjá hjálparsveitinni. Að sögn Hallgríms binda þeir samt vonir við að sveitungar þeirra og íbúar í nágrenninu verði rausnarlegir við kaup á flugeldum 6. janúar nk, en þá verður flugeldasalan opin í þeirra aðstöðuhúsi að Iðjugerði 1. í Aðaldal frá kl 12:00 til 16:00.

HSA logo