Grábotni. Besti hrútur allra tíma.

0
440

Við lok aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda í dag voru tveir kostahrútar sæmdir nafnbótinni „mesti alhliða kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2013“ og „besti lambafaðir sæðingastöðvanna á starfsárinu 2011-2012“. Sá hrútur sem hlýtur þann heiður að vera valinn mesti alhliða kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2013 er Grábotni 06-833 frá Vogum 2 í Mývatnssveit og er ræktandi hans Gunnar Rúnar Pétursson. Frá þessu er sagt á vef Bændablaðsins.

Grábotni. Jafnvígasti kynbótahrútur allra tíma ? Mynd af vef bbl.is
Grábotni. Jafnvígasti kynbótahrútur allra tíma ?
Mynd af vef bbl.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í umsögn ráðunauta segir um Grátbona: „Faðir Grábotna er Grímur 01-928 frá Staðarbakka en móðir hans heitir Grábotna og er hún í langfeðratali komin út af Hestshrútunum Áli 00-868 og Krák 87-920. Grábotni var seldur lambshaustið frá Vogum að Geiteyjarströnd í Mývatssveit. Þar vakti hann strax athygli sem magnaður lambafaðir. Eftir tveggja ára notkun höfðu afkvæmi Grábotna skilað honum einu besta BLUP kynbótamati allra hrúta í landinu fyrir kjötgæðaeiginleika. Í framhaldi af þessum lofandi árangri var Grábotni falaður inn á sæðingastöðvarnar árið 2009.

Á stöðvunum hefur hann átt glæstan feril og var næst vinsælasti hrútur stöðvanna haustið 2009. Hann stóðst væntingar sem lambafaðir og jafnframt steig kynbótamatið fyrir dæturnar. Var hann síðan mest notaði hrútur stöðvanna haustin 2010 og 2011. Í heildina hafa ríflega 6.000 ær verið sæddar við Grábotna.

Mikill þroski og góð bollengd einkennir lömbin undan Grábotna og er enginn sæðingastöðvahrútur um þessar mundir sem sýnir jafn mikið útslag í einkunn fyrir fallþunga. Samkvæmt hrútaskýrslu fjárræktarfélaganna er einkunn hans 151 fyrir fallþunga byggð á upplýsingum um tæplega 2.600 lömb. Gerð lambanna er úrvalsgóð og bakvöðvinn þykkur. Læraholdin bregðast sjaldan hjá afkvæmunum og eru ásamt malaholdum oft allra sterkasti eiginleiki þessara lamba. Hann skartar geysi háu kynbótamati fyrir kjötgæðaeiginleika eða 127 fyrir gerð og 125 fyrir fitu.

Til eru upplýsingar um ríflega 1.400 dætur í skýrslum fjárræktarfélaganna og eru þær að jafnaði feyki frjósamar og mjólkurlagnar. Það kemur m.a. fram í hárri kynbótamatseinkunn fyrir þessa eiginleika en fyrir mjólkurlagni er hún 111 og frjósemi 113. Sökum hinnar víðtæku notkunar þá eru þessar tölur ekki spá, heldur fjalltraust mat. Fáir hrútar standa jafn hátt í heildareinkunn fyrir kynbótamat og er hann þar í hópi 10 efstu stöðvahrúta, bæði lifandi og dauðra. Hinsvegar ef skoðað er hve margir hrútar ná einkunninni 120 fyrir gerð og fitu og 110 fyrir mjólkurlagni og frjósemi, þá er aðeins einn hrútur sem er svo jafnvígur og það er Grábotni.

Jafnvígasti kynbótahrútur allra tíma? 
Grábotni var felldur í janúar 2013, talinn fullnotaður. Synir Grábotna finnast víða um land og hafa margir staðið sig með prýði sem lambafeður og er líklegt að sterkir alhliða kynbótahrútar í þeirra hópi eigi eftir að koma fram á næstu árum. Nú þegar er einn sonur Grábotna kominn í hóp sæðingastöðvahrúta, Grámann 10-884 frá Bergsstöðum á Vatnsnesi.“

Í umsögn ráðunauta kom fram að Grábotni sé einn jafnvígasti kynbótahrútur landsins nú á seinni árum, ef ekki allra tíma og ber með sóma heiðursnafnbótina „mesti kynbótahrúturinn 2013“.

Máni 09-849 var valinn besti lambafaðirinn – afkvæmi með þykkan bakvöðva og mikil lærahold og lesa má nánar um hann hér