Göngur gengu vel á Þeistareykjum

0
203

Síðdegis í dag ráku gangnamenn úr Aðaldal fé ofan af Þeistareykjum niður í Aðaldal. Komið var með safnið niður skammt sunnan Presthvamms og ofan við Laxárvirkjun. Safnið var síðan rekið á Hraunsrétt þar sem réttað verður í fyrramálið kl 10:00.

Safnið kemur niður í Aðaldal rétt sunnan við Presthvamm.
Safnið, rúmlega 5000 kindur, komið niður í Aðaldal rétt sunnan við Presthvamm.

Í spjalli við 641.is sagði Böðvar Baldursson fjallskilastjóri í Aðaldal að vel hefði gegnið í göngunum og gangnamenn fengu gott veður. Féð var ekki með teljandi óþægð, þar til í dag þegar þær nálguðust byggð.

Böðvar sagðist aldrei áður hafa séð afréttina í svona góðu ástandi eins og nú. Mjög mikill snjór var langt fram eftir sumri í afréttinni og því nýgræðingur víða.  Fé var ekki sleppt í afréttina fyrr en 25 júní. Böðvar taldi líklegt að aldrei áður hefði fé verið svona stutt í afréttinni, eða aðeins rúmlega 60 daga. Böðvar taldi að gangnamenn hefðu rekið rúmlega 5000 kindur heim í dag og taldi hann féð líta þokkalega út.

Alls tóku 25 gangnamenn þátt í göngunum og voru þeir allir á hestum. Vel gekk að manna í göngurnar þrátt fyrir stuttan fyrirvara á þeim. Vélknúin ökutæki, eins og td. fjórhjól eru bönnuð í göngunum og gangnamenn gista í gangnamannakofum því menn vilja halda í gamlar hefðir í Aðaldal.

Hluti safnsins komin niður við Presthvamm.
Hluti safnsins komin niður við Presthvamm.