Góður árangur krakka úr HSÞ á íþróttamótum

0
379

Helgina 30-31. janúar var Meistaramót Íslands 11-14 ára haldið í Kaplakrika í Hafnarfirði. 3 keppendur fóru frá HSÞ og varð Jón Alexander H. Artúrsson íslandsmeistari í kúlu 14 ára pilta. Hann bætti sinn persónulega árangur í kúlunni og einnig bætti hann tíma sinn í 60 m hlaupi. Ari Ingólfsson 13 ára bætti sinn persónulega árangur í kúlu og Katla María Kristjánsdóttir 14 ára bætti sinn persónulega árangur í 60 m hlaupi.

Frjálsar 2016 1
Keppendur frá HSÞ

Síðastliðna helgi fór fram í Laugardalshöll Stórmót ÍR. Alls fór 31 keppandi frá HSÞ, 30 tóku þátt í frjálsíþróttarkeppni og 1 keppandi tók þátt í þrautabraut. Af þessum 30 keppendum voru 16 þeirra að fara á sitt fyrsta Stórmót. Keppendur okkar náðu mjög góðum árangri og virtist ekki koma að sök löng bílferð daginn áður en brottför okkar tafðist talsvert vegna veðurs og moksturs. Mikil fjölgun er í frjálsum íþróttum og er gaman að segja frá því að keppendur sem komu á Stórmótið komu nánast af öllu starfssvæði HSÞ. Keppendur okkar kepptu í 103 skipti og þar af bættu þau sinn persónulega árangur í 48 skipti sem er fyrsta markmið hjá öllu keppendum. Keppendur okkar fengu 11 sinnum viðurkenningarskjal fyrir mestu persónulegu bætingu í grein. 2 gull, 4 silfur og 3 brons komu í hlut keppanda okkar. Fjórða sætið kom í hlut okkar 6 sinnum og fimmta sætið 5 sinnum.

Tania Sól með gull
Tania Sól með gull

Tanía Sól Hjartardóttir 11 ára fékk gull í kúlu og brons í hástökki. Sindri Þór Tryggvason 14 ára fékk gull fyrir kúluvarp. Jón Alexander Artúrsson 14 ára, Natalía Sól Jóhannsdóttir 13 ára, Guðni Páll Jóhannesson 13 ára og Hafdís Inga Kristjánsdóttir 12 ára fengu öll silfur í kúluvarpi. Hafþór Höskuldsson 11 ára fékk brons fyrir hástökk, og bræðurnir Snæþór 20 ára og Hlynur 17 ára Aðalsteinssynir fengu báðir brons fyrir 3000 m hlaup.

Á Stórmóti ÍR er veitt viðurkenning fyrir mestu persónulegu bætingu í hverjum flokki og í hverri grein. Keppendur okkar hlutu þá viðurkenningu 11 sinnum en það voru; Heimir Ari Heimisson 14 ára fyrir 200 m. hlaup, Erla Rós Ólafsdóttir 13 ára fyrir kúluvarp, Svanhildur Björt Siggeirsdóttir 15 ára fyrir langstökk, Íshildur Rún Haraldsdóttir 11 ára fékk bæði fyrir hástökk og langstökk, Bergþór Snær Birkisson 13 ára fékk viðurkenningu fyrir mestu bætingu í 60 m grindahlaupi, Guðni Páll Jóhannesson 13 ára fyrir 600 m hlaup, Unnur Jónasdóttir fyrir 60 m hlaup. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir 15 ára fékk fyrir mestu bætingu í 60 m. grindahlaupi. Bræðurnir Hlynur og Snæþór fengu báðir fyrir mestu bætingu í 3000 m hlaupi.

Frjálsíþróttaráð HSÞ þakkar Heimabakaríi, Norðlenska, heimamönnum og MS fyrir stuðninginn. (HES)

 

Jón Alexander H Artússon með gull og Jón Þorri Hermannsson frá Grenivík með brons
Jón Alexander H Artússon með gull og Jón Þorri Hermannsson frá Grenivík með brons