Gleðilegt sumar !

0
109

Vetur og sumar frusu fast og örugglega saman í nótt og á það, samkvæmt þjóðtrúnni, að boða gott sumar. Þó að í dag sé sumardagurinn fyrsti, er fátt sem bendir til þess að vorið sé í námd. Hvað þá sumarið. Sumstaðar í Þingeyjarsýslu sést varla á dökkan díl og snjór er yfir öllu. Veðurspáin gefur ekki tilefni til bjartsýni því spáð er norðan stórhríð á sunndaginn. Það eina sem gefur til kynna að vorið sé í námd eru gæsirnar sem sitja í vegköntunum í leit að einhverju ætilegu, því þeir eru fáir túnblettirnir sem eru auðir nú í lok apríl.

Þessar gæsir forðuðu sér þegar ekið var hjá.
Þessar gæsir forðuðu sér þegar ekið var hjá.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mikið hefur borið á því að keyrt sé á gæsir undanfarin vor og hafa þær valdið nokkrum skemmdum á bílum. Þetta eru kanski ekki alvarleg tjón, en brotnir speglar og grill, beyglur á stuðurum og  minni dældir hafa verið algengar afleiðingar þess þegar keyrt er á gæsir. Þær sitja gjarnan í vegköntum snemma á vorin, því kantarnir koma oft fyrstir upp undan snjó á vorin og oft er þar að finna eitthvað ætilegt. Svo fljúga gæsirnar upp og stundum í veg fyrir bíla, þegar keyrt er hjá.

Þessar gæsir fundu auðan túnblett.
Þessar gæsir fundu auðan túnblett.

 

Tíðindamaður 641.is átti leið um fjölfarinn veg í Þingeyjarsýslu í gær og gafst fljótlega upp á að telja allar þær gæsir sem höfðust við í vegkantinum sem hann sá á leiðinni.

Enginn þeirra flaug þó upp í veg fyrir tíðindamann og er bíllinn óskemmdur eftir þá ökuferð.

641.is óskar lesendum sínum gleðilegs sumar.