Glæsilegir vortónleikar í Stórutjarnaskóla

0
134

Vortónleikar tónlistardeildar Stórutjarnaskóla voru haldnir í gærkvöldi 30. apríl. Nemendur mættu að sjálfsögðu í hátíðaskapi og prúðbúnir eins og venja er. Leikin voru lög úr ýmsum áttum, frá ýmsum tímum, íslensk og erlend, einnig á hin ýmsu hljóðfæri eins og blokkflautu, altflautu, píanó, fiðlu, bassa, gítar og klukkuspil,  kór 1. til 5. bekkjar söng lagið Lóan er komin. Nemendur léku ýmist einir, tvö saman eða í stærri hópum. Sú skemmtilega nýbreyttni var að þegar nemendur í 1. og 2. bekk höfðu spilað sitt lag, þá mynduðu þau saman hljómsveit og spiluðu, síðan komu nemendur 3. og 4. bekk og svona koll af kolli. Allir nemendur höfðu greinilega æft sig vel heima, því spilað var af hjartans list og gleði.

hljómsveit 1. og 2. bekkjar.
hljómsveit 1. og 2. bekkjar. Daníel Orri, Tinna Dögg, Gunnar, Daníel Róbert og Tómas Karl.
kór 1. til 5. bekkjar.
kór 1. til 5. bekkjar.
hljómsveit 8. 9. og 10. bekkjar.
hljómsveit 8. 9. og 10. bekkjar ásamt Mariku Alavere.

Tónlistarskóli Langanesbyggðar (sem í eru nemendur á Þórshöfn og Bakkafirði) voru gestir á þessum tónleikum. Kennari þeirra Kadri G. Laube er frá Eistlandi, eins og svo margir aðrir góðir tónlistarkennarar. Ástæðan fyrir þessari góðu heimsókn er sú að vegna tónlistarkennaraverkfallsins í vetur, fóru þau ekki í neina ferð eða heimsókn, en í fyrra sigraði Njáll Halldórsson harmonikkuleikari sinn flokk á Nótunni, sem er uppskeruhátíð tónlistarskóla á Íslandi, sem haldin er í Hörpu. Njáll og þrjú systkini  hans, Guðrún Margrét, Himri og Þórey mynda hljómsveit sem heitir Skeggjastaðabandið. Kadri hafði samband við Mariku og sagðist langa til að koma í heimsókn og biðja sína nemendur að spila fyrir nemendur Stórutjarnaskóla og spurði hvernig stæði á fimmtudaginn 30. apríl. Marika sagði henni að þá væru vortónleikarnir. Þær ræddu málin, skiptust á skoðunum og spjölluðu svo við sína skólasjóra sem tóku vel í að láta verða af þessari heimsókn. Dagskrá vortónleikana að þessu sinni var því fléttuð saman af atriðum frá tónlistarfólki beggja skóla og kom mjög vel út. Þar bættust við fleiri hljóðfæri eins og þverflautur, klarinett, harmonikka og Ukulele.

Kadri með Eistneskt hljóðfæri
Kadri lék á Kannel, eistneskt langspil og sagði skemmtilega sögu af hljóðfærinu, sem er í stuttu máli þannig að þú eyðir fyrri hluta ævi þinnar í að stilla hljóðfærið og seinni hluta ævinnar spilar þú samt á það vanstillt.
allir hljóðfæraleikararnir saman í lokin.
allir hljóðfæraleikararnir saman í lokin.

Eftir að tónleikunum lauk voru foreldrar 9. og 10. bekkjar með kaffisölu til fjáröflunar ferðsjóði og nutu um 120 manns veitinganna. Þar á eftir var diskótek í salnum og dönsuðu allir við alla, mikið fjör var á dansgólfinu og fótafimi mikil.

Langnesingarnir gistu í skólanum en fengu að skella sér í sund áður en gengið var til náða. Að morgni 1. maí fór Marika með hópnum að skoða Þorgeirskirkju, þá kom á daginn að Njáll Halldórsson sem lék svo vel á harmonikku á tónleikunum, hefur verið organisti í kirkjunni sinni, hann fékk því að prófa orgelið í Þorgeirskirkju og að sögn Mariku lék hann yndislega fallega á hljóðfærið. Þegar Marika kvaddi hópinn heyrði hún að þau voru afskaplega ánægð með þessa heimsókn og vilja bara koma aftur, en hugsanlegt er að nemendur Stórutjarnaskóla heimsæki þau austur á Þórshöfn. Kadri hefur mikinn áhuga á frekara samstarfi og bar ýmsar hugmyndir undir Mariku m.a. að halda sameiginlegar tónlistabúðir og ýmislegt fleira, sem verður athugað síðar.

Myndirnar tók Jón Ingason.