Glæsileg Fikkahátíð í Ýdölum

0
164

Hún var glæsileg Fikkahátíðin sem haldin var í Ýdölum um helgina. Þar minntust kórar úr héraði og Harmónikkufélag Þingeyinga tónskáldsins, söngkennarans og organistans Friðriks Jónssonar frá Halldórsstöðum í Reykjadal með veglegum hætti, en í september sl. voru 100 ár frá fæðingu hans. Frá þessu segir á 640.is. Á meðfylgjandi mynd sem Anna Kristrún Sigmarsdóttir tók má sjá hápunkt tónleikanna, alllr kórarnir samankomnir á sviðinu, um 170 manns.

Allir kórarnir á sviðinu.
Allir kórarnir á sviðinu.

Um fimm hundruð gestir troðfylltu húsið þar sem flutt voru valin lög tónskáldsins, sannkölluð tónlistarveisla. Og ekki var veislan síðri í hléinu en þá var boðið upp á kaffi, hnallþórur og fleira góðgæti. Um veislustjórn sá Arnór Benónýsson og eftir að kórarnir höfðu lokið dagskrá var stiginn dans þar sem Harmónikkufélag Þingeyinga sá um undirspilið.

Kórarnir sem fram komu voru kirkjukórarnir í Mývatnssveit, Þingeyjarsveit og á Húsavík. Karlakórinn Hreimur, sönghópurinn Sálubót og Sólseturskórinn, kór eldri borgara á Húsavík ásamt stjórnendum og undirleikurum.

Lesa nánar um Friðrik Jónsson.