Gjaldtaka á ferðamannastöðum nauðsynleg

0
93

Eigendur Reykjahlíðar í Mývatnssveit hyggjast hefja gjaldtöku á helstu ferðamannastöðum á landareigninni. Þeir segja þetta einu leiðina til að bregðast við miklu álagi á fjölsótta staði og tryggja um leið öryggi ferðamanna. Frá þessun er sagt á ruv.is.

Skjáskot úr frétt rúv.
Skjáskot úr frétt rúv.

 

Stórt landsvæði tilheyrir jörðinni Reykjahlíð í Mývatnssveit og innan þess eru sumir af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins. Meðal annars Dettifoss að vestanverðu, svæðið við Leirhnjúk og hverasvæðið austan Námafjalls. Eigendur Reykjahlíðar undirbúa nú innheimtu náttúruverndargjalds á þessum svæðum. Áætlað er að gjaldtakan hefjist um næstu áramót.

„Í raun og veru ætti þetta svæði hér, núna í dag, að vera lokað. Nákvæmlega eins og gert var í síðustu viku í Dimmuborgum,” segir Ólafur H. Jónsson, formaður landeigandafélags Reykjahlíðar, og vísar þar til hverasvæðisins við Námafjall. „Útgangurinn er þannig að það ætti ekki að hleypa neinum manni inn á þetta. Svo sáum við fólk hérna áðan með börn og það var að taka mynd af þeim alveg úti á ystu brún. Það er svo margt svona sem þarf að passa.”

Á næstu þremur til fimm árum segir Ólafur áætlað að fjárfesta fyrir nokkur hundruð milljónir króna. Byggja þurfi upp salernisaðstöðu, bílastæði og aðstöðu fyrir rútur, göngu- og útsýnispalla og þjónustuhús. Opinber stuðningur dugi ekki til að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir og því sé gjaldtaka eina leiðin. Og hann telur landeigendur í fullum rétti að setja á gjald sem þetta.

„Við teljum okkur geta staðið á því að vernda okkar eigið land. Við verðum að bera þá ábyrgð að hleypa fólki inn á svæði þar sem við sjáum að öryggi er ekki fyrir hendi. Við teljum okkur vera í fullum rétti til þess,” sagði Ólafur.

Skoða fréttina hér