“Gengið til fjár” 40 milljónir króna hafa safnast – Fyrsta greiðsla á föstudag

0
147

Tæplega 40 milljónir króna hafa safnast í söfnunarátaki Landssambands sauðfjárbænda, “Gengið til fjár“, sem hrint var að stað vegna þess tjóns sem sauðfjárbændur á norðurlandi urðu fyrir í óveðrinu sem gekk yfir 10-11 september sl. “Þetta hefur gengið vonum framar” sagði Þórarinn Ingi Pétursson formaður landssambands sauðfjárbænda í samtali við 641.is í gær, þegar hann var spurður um söfnunina. “Við höfum orðið varir við mikinn velvilja hjá fólki og það er ljóst að sauðfjárbændur eiga marga vini um allt land” sagði Þórarinn.

Þórarinn Ingi Pétursson.

Söfnunarátakið fór mjög vel af stað þegar  Kaupfélaga Skagfirðinga gaf 5 milljónir krónar og Landsbankinn gaf 3 milljónir krónar í söfnunina. Síðan þá hafa hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir látið fé af hendi, af mikil myndarskap, í söfnunina. Einstaklingar hafa líka verið gjafmildir í söfnunina og dæmi er um einstakling sem gaf 200.000 krónur til hennar. Alls hafa á milli 40 og 50 einstaklingar gefið fé til söfnunarátaksins.

Vel til tekist. Að sögn Þórarins er það samdóma álit allra, sem hann hefur rætt við, að einstaklega vel hafi tekist til við skipulagningu á björgunaraðgerðum á sauðfé eftir óveðrið í Þingeyjarsýslu. Hann bar lof á sýslumann Þingeyinga, Svavar Pálsson, fyrir hans þátt og sagði ljóst að hefði hann ekki brugðist svona við eins og hann gerði, með því að lýsa yfir almannavarnarástandi, hefði farið mun verr. Eins tók hann sérstaklega fram þátt Maríu Svanþrúðar Jónsdóttur ráðanautar hjá Búgarði á Húsavík. María hefur unnið gríðarlega mikið starf fyrir bændur. Hún hefur aðstoða þá á allan mögulegan hátt og er enn að. Þingeyingar eru svo sannarlega heppnir að hafa aðgang að jafn hæfu fólki og þau María og Svavar eru.

Klakabrynjað lamb á Þeistareykjum.
Mynd Hallgrímur Óli Guðmundsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Bændur heimsóttir. Í fyrradag fóru þeir Þórarinn Ingi, Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra og Jón Aðalsteinn Baldvinsson, sem eru í verkefnisstjórn söfnunarátaksins, í heimsókn til bænda á norðurlandi og kynntu fyrir þeim niðurstöður söfnunarinnar og hvernig ætlunin væri að greiða úr söfnuninni. Þetta ár hefur reynst mörgum bóndanum mjög erfitt og gríðarlega kostnaðarsamt og var ekki laust við að bændum létti mikið við þær fréttir sem þeir félagar færðu þeim í gær.

10.000 krónur fyrir hverja fullorna kind. Að sögn Þórarins er búið að ákveða þá upphæð sem verður greitt fyrir hverja fullorna kind af því fé sem safnaðist í átakinu. 10.000 krónur verða greiddar fyrir hverja fullorna kind en ekki verður greitt fyrir lömb, girðingar né nautgripi af söfnunarátaksfénu. Þessi upphæð bætist við þær bætur sem Bjargráðasjóður mun greiða fyrir hverja fullorna kind. Sú upphæð er 11.000 krónur og fást því 21.000 krónur fyrir hverja fullorna kind í bætur samanlagt. Verkefnisstjórn söfnunarátaksins hefur samið við Bjargráðasjóð um að borga bæturnar út fyrir sig, þar sem Bjargráðasjóður hefur hvort sem er allar upplýsingar um heildartjónið.

Fyrsta greiðsla nk. föstudag.

Að sögn Þórarins er ætlunin að fyrsta greiðsla berist þeim bændum, sem skilað hafa inn afdrifaskýrslu til Bjargráðasjóðs og Bjargráðasjóður hefur samþykkt, nk. föstudag, ef allt gengur að óskum. Þórarinn hvetur þá bændur sem ekki eru búnir að skila inn skýrslu, að gera það sem allra allra fyrst.

Landsbjörg styrkt. Í gær afhenti Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Landssambands sauðfjárbænda Slysavarnafélaginu Landsbjörgu þriggja milljóna króna styrk, enda unnu björgunarsveitir Landsbjargar gríðarlega mikið og ómetnalegt björgunarstarf fyrir bændur á norðurlandi í haust. Sá peningur er reyndar ekki úr söfnuninni sjálfri heldur úr sjóðum Landsambands sauðfjárbænda. Þórarinn Ingi sagði að ef afgangur verður af söfnunarfénu mun Landsbjörg  fá það fé afhent.

Ekki hættir. Hugmyndir eru uppi meðal verkefnisstjórnar söfnunarinnar að efna til ritgerðasamkeppni meðal grunnskólabarna um vitsmuni Íslensku forystu kindarinnar. Einnig eru hugmyndir að hönnunarsamkeppni um lopapeysu sem fær líklega nafnið óveðurspeysan.