Gengið frá samningum vegna Landsmóts 50+

0
296

Í gær var skrifað undir samstarfssamninga HSÞ vegna Landsmóts 50+ við Norðurþing og Þingeyjarsveit vegna Landsmóts 50+ sem haldið verður á Húsavík daganna 20-22 júní nk. Undirritun samninganna fór fram í íþróttahúsinu á Húsavík við hátíðlega athöfn að viðstöddum formanni UMFÍ Helgu Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ Sæmundar Runólfssonar og Sigurðar Guðmundssonar Landsmótsfulltrúa UMFÍ.

Frá undirritun samninganna í gær. Dagbjört Jónsdóttir Þingeyjarsveit, Helga Guðrún formaður UMFÍ, Sæmundur framkvæmdastjóri UMFÍ og Bergur Elías Ágústsson Norðurþingi.
Frá undirritun samninganna í gær. Dagbjört Jónsdóttir Þingeyjarsveit, Jóhanna S Kristjánsdóttir formaður HSÞ, Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ, og Bergur Elías Ágústsson Norðurþingi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í tilefni af undirritun samninganna var efnt til íþróttahátíðar í íþróttahúsinu þar sem fram fór kynning á nokkrum íþróttagreinum sem keppt verður í á Landsmóti UMFÍ 50+ í sumar. Hægt var að prófa þær greinar sem kynntar voru í gær og þar á meðal var ringó og boccia. Unnsteinn Júlíusson læknir flutti stutt erindi um heilsufar og í boði var frí heilsufarsmæling. Heilsubandið spilað svo nokkur lög af þessu tilefni.

Heilsubandið spilaði á hátíðinni.
Heilsubandið spilaði á hátíðinni.

Þó nokkuð er síðan að Landsmót hefur verið haldið á Húsavík, en það var árið 1987 og tókst með eindæmum vel og var það ekki síst veðurguðunum að þakka. Fyrir það mót var ráðist í miklar framkvæmdir í sveitarfélaginu og m.a. byggð bráðabirgða 25 metra  sundlaug.

 

Unglingalandsmót var haldið að Laugum í Reykjadal sumarið 2006 og var þar einnig ráðist í miklar framkvæmdir á vegum Þingeyjarsveitar og unnu sjálfboðaliðar gríðarlega mikið verk við að koma á nýjum frjálsíþróttavelli. Fyrir Landsmót UMFÍ 50+ á Húsavík verður flíkkað uppá þá aðstöðu sem er til staðar og vonandi verður það íþróttamannlífi til góða að Landsmóti UMFÍ 50+ loknu.

Vonir standa til að þátttaka Þingeyinga sem eru komnir um og yfir miðjan aldur verði góð á mótinu og Þingeyingar noti þetta mót sem hvatningu til að auka hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl í framhaldinu. Landsmót UMFÍ 50+ er ekki einungis íþróttamót heldur einnig heilsuhátíð og verður boðið upp á fyrirlestra um heilbrigðan lífsstíl og ýmsar heilsufarsmælingar. Fjölmargar keppnisgreinar verða í boði á Landsmóti UMFÍ 50+ á Húsavík, en það eru: almenningshlaup, boccia, bridds, bogfimi, blak, frjálsar, hestaíþróttir, línudans, golf, pútt, ringó, skák, starfsíþróttir, skotfimi, sund, sýningar, stígvélakast og þríþraut. Markmið mótsins er að skapa fólki 50 ára og eldri vettvang til að koma saman og keppa í hinum ýmsu íþróttagreinum og kynna um leið þá möguleika sem eru í boði til þess.