Geisli skoðar erlenda leikmenn

0
87

Eftir helgina lokast svokallaður félagaskiptagluggi en fram að þeim tíma geta knattspyrnulið á Íslandi fengið til sín leikmenn til að styrkja liðin fyrir átökin sem framundan eru í síðari hluta Íslandsmótsins þar sem keppt er um eftirsótta titla og um að komast upp um deildir. Eitt af þessum liðum er stórliðið Geisli úr Aðaldal sem spilar í fyrsta skiptið í 4. deildinni. Frá þessu segir á vef Framsýn-stéttarfélags í dag.

Tom, Goeff og Adam. Mynd: Framsýn
Tom, Goeff og Adam. Mynd: Framsýn

Geisli hefur spilað afar vel í sumar en því miður hafa stigin látið á sér standa sem er mikið rannsóknarefni enda spilar liðið undir stjórn Guðmundar Jónssonar frá Fagraneskoti sem án efa er einn af okkar færustu þjálfurum auk þess að hafa mikla leikreynslu úr neðri deildunum þar sem Guðmundur spilaði um árabil við góðan orðstír. Meistarinn Jón Þormóðs frá Ökrum hefur verið honum til aðstoðar svona við og við.

“Geisli er með öflugt lið og því þyrftu nýir leikmenn að vera verulega góðir til að komast í liðið umfram þá leikmenn sem fyrir væru. Vissulega vantaði liðinu markmann og einn af þeim leikmönnum sem væri til skoðunar væri reyndur markmaður frá Írlandi sem hefði staðið sig vel á æfingunni og varið nánast alla bolta sem rötuðu á markið”, sagði Guðmundur við fréttavef Framsýnar, en vildi svo ekki tjá sig meira, enda undirbúningur félagsins fyrir næstu leiki hafinn og því vildi hann fá frið frá utanaðkomandi aðilum. Sjá nánar hér

Geisli er sem stendur í neðsta sæti C-riðils eftir sex leiki, með ekkert stig og með 25 mörk í mínus. Næsti leikur Geisla er gegn Ísbirninum á Ýdalavelli 6 ágúst. Næstu leikir Geisla