Gamlir og virðulegir bílar.

0
981

Það er oft líf og fjör á Samgönguminjasafninu í Ystafelli. Stundum koma þangað heilu hóparnir s.s. bifhjólafólk, bílaklúbbsfólk, vinahópar og erlendir bílaáhugamenn. Á laugardaginn kom t.d. stór hópur af bifhjólahjólafólki frá Vestmannaeyjum, en einnig voru eigendur fornbíla frá Akureyri og Húsavík með sýningu á Húsavík í tengslum við Mærudaga. Fornbílaeigendur renndu svo í Ystafell til Sverris. Þar var búið að undirbúa grillveislu mikla, frændur Sverris stóðu vígalegir við grillið, sem er framendi af Bronco, þar grilluðu þeir kynstrin öll af kjöti og grillpylsum frá Kjarnafæði, með kjötinu var boðið uppá kartöflusalat og hrásalat frá Mat og Mörk. Þetta rann allt ljúflega niður, fólk skoðaði bílana og átti gott spjall í góðu veðri.

Nýjasta “afurð” safnsins er svonefndur Hælisbíll. Sverrir segir svo frá:
Bifreiðasmiðurinn Grímur Valdimarsson byggði yfir marga bíla á Akureyri. Veturinn 1947-48 smíðaði hann yfirbyggingu fyrir Kristneshæli í Eyjafirði. Yfirbyggingin fór á Ford árg. 1947 sem fékk viðurnefnið Kristnesbíllinn. Bíllinn var notaður í ferðir á milli Kristness og Akureyrar í alla aðdrætti fyrir Hælið og starfsfólkið fékk að sitja í ef þess þurfti. Þessi yfirbygging hefur verið mjög vönduð smíði, útfærslan og frágangur með miklum ágætum og hvergi til sparað. Bíllinn var tekinn í notkun í maí 1948 og var svo auglýstur til sölu í september 1964. Verkefnið felur því m.a. í sér að varðveita og sýna þennan þátt í sögu svæðisins. Safnið er opið frá kl. 10:00 til 22:00.