Fyrsti fundur hreppsnefndar Tjörneshrepps – Þar sem smæðin er styrkur

Hitaveita stærsta málið á kjörtímabilinu

0
538

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson bóndi á Ketilsstöðum á Tjörnesi var kjörinn oddviti Tjörneshrepps á fyrsta fundi nýkjörinnar hreppsnefndar Tjörneshrepps sem haldinn var sl. laugardag. Katy Bjarnadóttir lögfræðingur Héðinshöfða, var kjörin varaoddviti á fundinum en einnig var skipað var í fastanefndir Tjörneshrepps á fundinum. Að sögn Aðalsteins er stefnt á að hreppsnefnd fundi einu sinni í mánuði.

Sjálfkjörið var í Tjörneshreppi þar sem aðeins einn listi kom fram fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí sl. Í hreppsnefnd Tjörneshrepps eru Aðalsteinn J Halldórsson, Smári Kárason, Jón Gunnarsson, Sveinn Egilsson og Katy Bjarnadóttir.

Aðalsteinn sagði í spjalli við 641.is að áframhaldandi undirbúningur vegna vinna við lagningu hitaveitu í hreppnum yrði lang stærsta einstaka málið hjá hreppnum á kjörtímabilinu. Boraðar voru sex tilraunaholur sl. haust í og við Hallbjarnastaðagil og lofa þær góðu. Nú þegar væri búið velja eina þeirra sem vinnsluholu fyrir væntanlega hitaveitu á Tjörnesi.

Fundargerðir hreppsnefndar munu verða aðgengilegar á nýjum vef Tjörneshrepps um leið og sá vefur kemst í gagnið, en eldri vefur hreppsins hefur ekki verði virkur um nokkurt skeið.

58 íbúar búa í Tjörneshreppi, sem gerir hreppinn að einu fámennasta sveitarfélagi landsins. Árneshreppur á Ströndum er fámennasta sveitarfélag landsins, en í Helgafellssveit og Skorradalshreppi búa 52 og 58 íbúa samkvæmt tölum Hagstofunnar.