Fyrsta úthlutun úr nýjum vaxtarsamningi

0
86

Á fund i verkefnisstjórnar Vaxtarsamnings Norðausturlands 19. nóv. sl. var samþykkt að veita sex verkefnum vilyrði um styrk. Alls lágu fyrir átta umsóknir við þessa fyrstu úthlutun úr samningum sem gildir fyrir árin 2012-2013 og tekur við af eldri samningi. Heildaupphæð umsókna nam 33,5 mkr. og var heildarverkefniskostnaður áætlaður um 79,7 mkr. Heildarupphæð veittra styrkvilyrða var 17 mkr. og er áætlaður heildarverkefniskostnaður þeirra verkefna sem vilyrði hlutu tæpar 66 mkr.

Mynd af vef atthing.is

 

 

 

 

 

 

 

Þau verkefni sem hlutu vilyrði um styrk eru:

Fræðasetur um forystufé; kr. 2.000.000,- Forsvarsaðili Daníel Hansen, f.h. áhugahóps. Samstarfsaðilar; Bændasamtök Íslands, Svalbarðshreppur og Búnaðarsamband Norður Þingeyinga. Verkefnisstjóri Daníel Hansen. Markmið verkefnisins er að koma upp fræðasetri um forystufé á Svalbarði við Þistilfjörð þar sem sögu og einkenni þessa fjárkyns verða gerð skil.

Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslu; kr. 2.500.000,- Forsvarsaðili Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands á Húsavík. Samstarfsaðilar; Þekkingarnet Þingeyinga, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Nýsköpunarmiðstöð Íslands Húsavík, Húsavíkurstofa, Norðursigling ehf., Gentle Giants-Hvalaferðir ehf., Fjallasýn ehf., Jarðböðin ehf. og Reynihlíð ehf. Verkefnisstjóri Lilja B. Rögnvaldsdóttir. Markmið verkefnisins er að leggja mat á efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslu og styrkja þannig forsendur ákvarðanatöku um fjárfestingar í greininni ásamt því að sannreyna í héraði tölfræðivinnslu þjóðhagsstærða.

Aur í áburð; kr. 5.000.000,- Forsvarsaðili Silfurstjarnan hf. Samstarfsaðilar; Háskólinn á Akureyri og Matís ohf. Verkefnisstjóri Benedikt Kristjánsson. Markmið verkefnisins er að greina innihald seyru í settjörn við fiskeldisstöð Silfurstjörnunnar með það í huga að nýta hana sem áburð við ræktun á svæðinu og nýta þannig verðmæt næringarefni sem hingað til hefur verið fargað með tilheyrandi kostnaði.

Samstarf um vöruþróun og markaðssetningu til uppbyggingar náttúrutengdrar ferðaþjónustu á sviði sjávarspendýra; kr. 500.000,- Forsvarsaðili Hvalasafnið á Húsavík. Samstarfsaðilar Selasetur Íslands, Norðursigling ehf. og Selasigling ehf. Verkefnisstjóri Einar Gíslason. Markmið verkefnisins er að styrkja samstarf á milli Húnaþings vestra og Húsavíkur á sviði náttúrutengdrar ferðaþjónustu með það að markmiði að bæta upplýsingagjöf og þjónustu, koma á sameiginlegri kynningu og stuðla að fjölgun ferðamanna á hvorum stað fyrir sig og auka þar með verðmætasköpun samstarfsaðilanna.

Tilraunarækt á ostrum í Skjálfandaflóa; kr. 5.000.000,- Forsvarsaðili Víkurskel ehf. Samstarfsaðilar Hafrannsóknarstofnun, Sölkuveitingar ehf. og Acuinuga (Spánn). Verkefnisstjóri Kristján Phillips. Markmið verkefnisins er að framleiða hágæða ferskvöru og nýta til þess hreinleika sjávarins hér og skapa þannig vörunni mikla sérstöðu og þar með verulegt samkeppnisforskot á innlendum sem erlendum markaði.

Yule Lads – erlendir ferðamenn að vetri; kr. 2.000.000,- Forsvarsaðili Mývatnsstofa ehf. Samstarfsaðilar Markaðsstofa Norðurlands, Fjallasýn ehf. og Arctic Edge Consulting ehf. Verkefnisstjóri Guðrún Brynleifsdóttir. Markmið verkefnisins er að þróa og markaðssetja jólasveinana í Dimmuborgum þannig að þeir skapi eftirspurn meðal erlendra ferðamanna og auki þannig heimsóknir á Norðurland yfir vetrartímann.  atthing.is