Fyrri úthlutun Aftur heim 2014

0
67

Snemma árs 2013 var farið af stað með þróunarverkefnið Aftur heim. Markmið verkefnisins er að efla tengsl við brottflutta unga listamenn úr Þingeyjarsýslu og gefa þeim tækifæri til að vinna að metnaðarfullum menningarverkefnum í heimabyggð.

Aftur heim

Þriðja úthlutun verkefnisins var í febrúar. Úthlutað var um 1.2 milljónum króna til fimm verkefna.
Eftirtalin verkefni hlutu vilyrði um verkefnastyrk:

 

Tíðir – Innsetning í Bragganum á tíu ára afmæli hans á sólstöðum 2014
Umsækjandi Ingibjörg Guðmundsdóttir
Verkefnið er samstarfsverkefni Ingibjargar og listakonunnar YST- Ingunnar St. Svavarsdóttur. Ingibjörg mun vinna sinn hluta verksins á Kópaskeri og uppskeran er samsýning Ingibjargar og YST. Um verkið segir Ingibjörg: „Verkið er marglaga innsetning, samofin verkum okkar, kvenna á sín hvoru æviskeiðinu – af sín hvorri kynslóðinni með mislangan og mislitan list- og æviferil að baki: Tíðir hefur margvíslega merkingu í íslensku máli og eins mun vera um verkið, í það má lesa ýmislegt og er lýsandi fyrir það inntak sem við viljum að endurspeglist í sýningunni. Það mun túlka andstæður; svart og hvítt – litróf blóðsins og litleysuna. Stórt og smátt – Yst með groddalegan hráan tjörupappa og ég með brothættan fínlegan leir“.

Langanes er ekki ljótur tangi
Umsækjandi Hildur Ása Henrýsdóttir
Með verkefninu vill Hildur Ása draga fram menningarleg einkenni Þórshafnar og nærumhverfis, ásamt því að gera náttúrunni í kring hátt undir höfði og efla staðarvitund fólks enn frekar. Þessum markmiðum hyggst hún ná með því að starfa á Þórshöfn í mánuð í sumar og mála myndir af svæðinu í anda rómantíkur og impressionisma. Markmið Hildar Ásu er að mála a.m.k. eina mynd daglega. Um mitt sumar verður sýning á afrakstri verkefnisins.

Þjóðsögur í Mývatnssveit
Umsækjandi Jenný Lára Arnórsdóttir
Verkefnið er unnið í samstarfi við Mývatnsstofu. Markmið verkefnisins er að setja upp leiksýningu í Mývatnssveit þar sem þjóðsögum verður miðlað til ferðamanna. Lögð verður áhersla á sögur af huldufólki í Mývatnssveit. Leiksýningin verður í formi einleiks sem sýndur verður utan dyra daglega í einn mánuð í sumar. Einnig er gert ráð fyrir að gera styttri útgáfur af verkinu sem hægt verður að bjóða upp á yfir vetrartímann.

Bernskuminningar úr Þingeyjarsýslu
Umsækjandi Halldóra Kristín Bjarnadóttir
Halldóra fær styrk til að setja upp ljósmyndasýningu sem hún byggir á bernskuminningum 15-20 Þingeyinga, myndunum fylgir texti um minningar viðkomandi. Sýningin verður í Safnahúsinu á Húsavík.

Auk ofangreindra aðila hlaut einn aðili vilyrði um ferðastyrk.
Tónleikar Kjass í Þingeyjarsýslu
Umsækjandi Fanney Kristjánsdóttir

Næsta úthlutun Aftur heim verður á haustdögum.
Aftur heim er samstarfsverkefni Menningarráðs Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Menningarmiðstöðvar Þingeyinga. Verkefnið er unnið með styrk úr sóknaráætlun landshluta. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir menningarfulltrúi Eyþings Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir á netfanginu menning@eything.is eða í síma 464 9935.  Fréttatilkynning.