Fyrirmyndir á starfssvæði Þekkingarnets Þingeyinga

0
89

Í dag voru afhentar viðurkenningar Þekkingarnets Þingeyinga fyrir að vera fyrirmynd í framhaldsfræðslu á starfssvæði Þekkingarnetsins.

Gunnþórunn fékk skjal, blóm og konfekt.
Mynd: hac.is

 

Þekkingarnet Þingeyinga tilnefnir á hverju ári einn til tvo einstaklinga sem Fyrirmynd í framhaldsfræðslu til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Á síðasta ári var tekin upp sú nýbreytni að veita þessum einstaklingum viðurkenningar heima í héraði.

 

 

Að þessu sinni voru þær Gunnþórunn Þorgrímsdóttir og Jóhanna Sigríður Jónsdóttir tilnefndar af Þekkingarnetinu og eins og áður hefur komið fram hlaut Jóhanna viðurkenningu Fræðslumiðstöðvarinnar ásamt tveimur öðrum fyrirmyndum.

Í dag kom stjórn Þekkingarnetsins saman til fundar og hófst fundurinn á tveimur stöðum, annars vegar á Þekkingarsetrinu á Húsavík og hins vegar á Menntasetrinu á Þórshöfn þar sem fyrirmyndirnar tvær voru mættar til að taka á móti viðurkenningum.

Jóhanna Sigríður ásamt Heiðrúnu sem afhenti henni viðurkeinningarskjal, blóm og konfekt. Mynd: hac.is

 

Á Húsavík afhenti Helena Gunnþórunni viðurkenningarskjal með umsögn Þekkingarnetsins um hana, blóm og konfektkassa og á Þórshöfn afhenti Heiðrún Jóhönnu samskonar viðurkenningu.

 

 

 

Að lokinni afhendingunni tók stjórnarformaður Þekkingarnetsins, Aðalsteinn Árni Baldursson til máls og óskaði þeim stöllum til hamingju með árangurinn. Jafnframt hafði hann orð á því að ánægjulegt væri að sjá að barátta stéttarfélaganna fyrir aukinni starfsmenntun sem og fræðslustyrkir stéttarfélaganna væru að skila árangri eins og þessum.

Starfsmenn og stjórn eru afskaplega ánægð með fyrirmyndir ársins 2012.   hac.is