Fundafélagið eins árs

0
65

8. fundur Fundafélagsins var haldinn í Dalakofanum í gærkvöld. Ekkert formlegt erindi var á dagskrá heldur var ræddur tilgangur Fundafélagsins og hvernig til hefði tekist á þessu fyrsta heila starfsári. Tilgangur félagsins er samkvæmt stofnsamþykktum þess, að leiða saman ólík viðhorf fólks sem er búsett sem víðast í Þingeyjarsveit. Í félaginu eru fulltrúar hinna ýmsu starfsstétta, hagsmuna og áhugamála. Því er ætlað að mynda tengslanet meðal fólks í sveitarfélaginu og örva samstarf og samvinnu á svæðinu. Félagar voru almennt á þeirri skoðun að vel hefði tekist til með stofnun félagsins og það mun því starfa áfram.

Frá einum af fundum Fundafélagsins á liðnu ári
Frá einum af fundum Fundafélagsins á liðnu ári

Félagið hélt sjö fundi á árinu 2012.

4. febrúar var undirbúningsfundur að stofnun félagsins og Unnsteinn Ingason flutti erindi um ferðaþjónustu í dreifbýli.

13. mars var stofnfundur haldinn, Þórunn Sigtryggsdóttir kynnti starfsemi Hafralækjarskóla og Freydis Anna Arngrímsdóttir kynnti starfsemi Litlulaugaskóla.

17. apríl flutti Ari Teitsson fyrirlestur í tilefni af 110 ára afmæli Samvinnuhreyfingarinnar.
8. maí var Hermann Aðalsteinsson með erindi um starfsemi Skákfélagsins Goðans.

2. október kom Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, á vegum Urðarbrunns og fjallaði erindi hans um sérkenni veðurfars í Suður Þingeyjarsýslu. Það erindi var vel sótt.

6. nóvember flutti Guðmundur Smári Gunnarsson erindi um bogfimi sem íþrótt og fyrsta starfsár bogfimideildar Ungmennafélags Eflingar í Reykjadal.

4. desember kom Hólmfríður Sólveig Haraldsóttir frá Jaðri í Reykjadal og nýútskrifaður ferðamálafræðingur. Hennar erindi fjallaði um áhuga á fjölskylduvænni ferðaþjónustu í Reykjadal.

Næsti fundur hjá Fundafélaginu verður í febrúar.

Þeir íbúar í Þingeyjarsveit sem áhuga hafa á því að ganga í félagið, geta haft samband við einhvern af stjórnarfólki Fundafélagsins og óskað eftir félagsaðild. Í stjórn Fundafélagsins eru, Bryndís Pétursdóttir formaður, Þórir Aðalsteinsson ritari og Sigfús Haraldur Bóasson gjaldkeri.