Frystirinn fimmtugur

0
127

Í gær föstudaginn 16. nóvember komu Hvömmungar, sem eiga og reka “frystinn” saman í verkstæðishúsinu í Lækjarhvammi og héldum upp á 50 ára afmæli hans. Skelltum á hlaðborði með afmælistertu, kökum og brauði sem Hvammakonur töfruðu fram. Svo var kaffi, gos og léttar veigar til þess að skála í fyrir afmælisbarninu. Frystirinn var mikill efnahagslegur happafengur fyrir Hvömmunga á sínum tíma og ekki er vitað til að nokkurn tíma hafi risið ágreiningur um tilurð og rekstur hans. Hann er enn í notkun og saga hans er einstakur þáttur í búnaðar- og menningarsögu Þingeyinga og þó víðar væri leitað.

Hópmynd af eigendunum en nokkra af þeim vantar.
Mynd: Bergljót Hallgrímsdóttir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Upphafsmenn þess að ráðist var í að byggja og reka frysti í Lækjarhvammi voru þeir Forni þá bóndi í Fornhaga og Gísli enn bóndi í Lækjarhvammi. Líklega var skortur á skápaplássi sem bændur gátu leigt í frystigeymslu hjá KÞ á Húsavík ástæðan sem rak menn af staða að gera eitthvað í málinu sjálfa.

Nú var komið að því að skera tertuna á hlaðborðinu.
Mynd: Bergljót Hallgrímsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Árið 1959 byggði Gísli verkstæði í Lækjarhvammi og gerði þá þegar ráð fyrir að frystiskápur yrði í hluta af rýminu innst með því að setja þar dyr sem urðu síðan inngangur í frystinn. Einhver dráttur varð þó á að hafist yrði handa við framkvæmdir en m.a. þurfti að hafa tryggt hverjir vildu vera með og áætla kostnað við verkið. Niðurstaðan var sú að 10 heimili í Hvömmum sameinuðust um verkið, teljast þau því stofnaðilar frystisins og eru þessir bæir: Hagi 1 og 2, Fornhagi, Lækjarhvammur, Ystihvammur (þá tvö heimili), Miðhvammur, Hraun, Brekka og Klömbur.Þessi heimili að undanskilinni Brekku eiga og nýta enn frystirinn auk þess sem talsvert er leigt af einstökum hólfum til annarra heimila í dalnum.

Veturinn og sumarið 1962 var frystiklefinn hlaðinn og einangraður og ekki þarf að taka það fram að þetta var allt gert í sjálfboðavinnu. 14. og 15. nóvember um haustið unnu menn frá Reykjavík við  að setja niður vél í frystinn. Hann var svo gangsettur á 55 ára afmælisdegi Forna þann 16. nóvember 1962 en ekki er nákvæmlega vitað hverjir voru viðstaddir né hve margir fóru í afmæliskaffi í Fornhaga eftir gangsetninguna.

Afmælistertan.
Mynd: Bergljót Hallgrímsdóttir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frystirinn hefur reynst vel og með tilkomu hans höfðu Hvömmungar aðgang að öruggri geymslu fyrir kjöt og fisk yfir lengri tíma, svo að segja í seilingsfjarlægð frá öllum heimilunum. Það hefur verið mikil búbót á meðan að fólk bjó meira að sínu með matvæli og byrgði sig upp með mat til ársins eftir sláturtíð á haustin. Umsjónarmaður frystisins frá upphafi var og er Gísli bóndi í Lækjarhvammi.

Texti og myndir: Bergljót Hallgrímsdóttir