Frjálsíþróttaskóli frjálsíþróttaráðs HSÞ

0
110

Dagana 13.-16. júní stóð frjálsíþróttaráð HSÞ fyrir frjálsíþróttaskóla á Laugum. Metþátttaka var í ár en alls voru 26 krakkar í skólanum frá aldrinum 10 – 16 ára. Skólinn hófst um hádegi á mánudeginum og var fyrsta æfingin kl. 13. Brói þjálfari var aðalþjálfarinn okkar en við fengum þó nokkra mjög góða með honum en það voru Eyþór og Bjargey frá Úlfsbæ, Hjörvar og svo var Selmdís með á þriðjudags- og fimmtudagskvöldæfingunum. Frá þessu segir í pistli frá Frjálsíþróttaráði HSÞ.

Krakkarnir í frjálsíþróttaskólanum
Krakkarnir í frjálsíþróttaskólanum

Ákveðið var að hafa 2 æfingar á mánudeginum þar sem skólinn náði aðeins yfir 4 daga en ekki 5. Milli æfinga komu krakkarnir sér fyrir, slöppuðu af eða fundu sér eitthvað annað til dundurs. Eftir seinni æfinguna var matur og sund. Á þriðjudeginum var æfing frá kl. 10-12 og eftir það var sund og svo fengu krakkarnir bogfimikennslu og stóðu þau sig öll mjög vel og höfðu gaman af. Seinni æfingin var svo kl. 19-21 en það er venjulegur æfingatími hja okkur þessa daga. 2 æfingar voru á miðvikudeginum og var seinni æfingin með fyrra fallinu þar sem við vorum með kósýkvöld um kvöldið. Pöntuð var pizza frá Dalakofanum og svo var farið upp í Þróttó og horft á mynd.

Síðasti dagurinn rann upp og reyndum við að hafa hann aðeins öðruvísi en hina dagana. Eftir æfingu og sund ákváðu Malla og Hulda að vera með óvænta stöðvavinnu fyrir krakkana þar sem þau þurftu að leysa 6 þrautir. Það voru tiltekt, pílukast, jurtagreining, listaverkagerð, textasmíði og pönnukökubakstur. Ekki er hægt að segja annað en að þau hafi komið okkur verulega á óvart í pönnukökubakstrinum en allir hóparnir rúlluðu þessu verkefni upp, eins og reyndar flestum af þeim. Eftir þetta voru grillaðir hamborgarar og Brói sleit svo skólanum með því að afhenda þeim viðurkenningarskjöl og svo fengu allir gefins HSÞ sokka frá frjálsíþróttaráði. Skólinn endaði svo á sameiginlegri æfingu.

Við vorum einstaklega heppin með veður þessa daga en því miður var mývargurinn aðeins of ágengur og fengu krakkarnir lítinn frið fyrir honum á æfingum. Við í frjálsíþróttaráði viljum þakka öllu því frábæra fólki sem aðstoðaði okkur við að gera þennan skóla að veruleika. Sérstakar þakkir fá íbúar á Laugum fyrir aðstoð og liðlegheit við okkur. Við þökkum foreldrum fyrir bakstur og aðstoð í skólanum. Fjallalamb, Samkaup/Úrval, MS, Dalakofinn, Narfastaðir, Heimamenn og Heimabakarí fá miklar þakkir fyrir veittan stuðning.

Myndir og fréttir af starfinu okkar er hægt að finna inn á facebook.com/frjálsíþróttaráð HSÞ