Héraðsmót HSÞ í skák á sunnudag

0

Héraðsmót HSÞ í skák í flokki fullorðina verður haldið sunnudaginn 24. september kl 14:00  í Framsýnarsalnum að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Tefldar verða 7 umferðir eftir monradkerfi og verður umhugsunartíminn 10 mín á mann að viðbættum 5 sek á hvern leik.

Þátttökugjald er 500 kr á keppanda og er mótið opið fyrir alla áhugasama. Börnum og unglingum 16 ára og yngri er heimil ókeypis þátttaka í mótinu, en Héraðsmót HSÞ fyrir 16 ára og yngri verður haldið í nóvember.

 

 

Mótið verður reiknað til FIDE atskákstiga. Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin og veittur verður farandbikar að auki fyrir sigurvegarann. Sjá nánar hér

Smellið hér til að skrá ykkur í mótið. 

 

Fasteignir sveitarfélagsins 1 grein

0
Örn Byström Jóhannsson

Mig langar til að taka til umræðu nokkrar fasteignir sveitarfélagsins sem mætti huga að með breytt hlutverk. (fávís kjósandi ) Sveitarfélagið keypti iðnaðarhúsnæði og breytti því í slökkvistöð. Þar tel ég að hafi verið gerð alvarleg mistök, þar hafði verið til staðar viðgerðarverkstæði  sem er bráðnauðsynleg starfssemi í öllum sveitarfélögum og söknum við mörg þeirrar starfssemi sem þar fór fram. Nú þarf maður að aka til Húsavíkur eður Akureyrar eftir þeirri þjónustu sem þar var að ég tali nú ekki um bændur. Ég vil meina að sveitarstjórn hefði átt að auglýsa eftir viðgerðarmanni með búsetu í sveitarfélaginu og hjálpa honum í byrjun með niðurgreidda aðstöðu-skatttekjur hefðu komið á móti síðar meir og jafnvel vinna fyrir fleiri í heimasveit

Sveitarfélagið á stórt geymslurými í Lautarbrakkanum -nema þar séu geymd verðmæti sveitarfélagsins eins og t.d. gullforði og svikin loforð. Hefði ekki verð hægt að koma slökkviliðinu fyrir þar og spara sér fjárfestingu í iðnaðarhúsnæðinu. Mitt álit er það að iðngarðar séu verðmæti í hverju samfélagi og sýni drifkraft þess í uppbyggingu.

Fyrir nokkrum árum safnaði ég undirskriftum um eignarhald sveitarfélagsins á íbúðum fyrir aldraða hér í Þingeyjarsveit. Draumsýn mín var að aðstoða t.d. aldraða einstaklinga sem væru að hætta búskap svo þeir gætu fengið að dvelja áfram í sinni heimasveit-sem gæti kannski orðið til þess að ungt fólk sem hefði áhuga á búskap gæti fengið ábúð á jörðum. Þetta var hugsað hjá mér sem Búsetuform, þannig að fólk þyrfti að leggja fram ákveðna upphæð til búsetu og greiddi síðan leigu fyrir hvern mánuð en væri öruggt í sínu húsnæði. Ekkert heyrði ég frá sveitarstjórn um málið þó að ég skilaði til þeirra um 50 undirskriftum-sjálfsagt ekki einu sinni bókað.

Ég ætla ekki að gefast upp í þessu máli og velti því upp annarri tillögu, sem sagt þeirri að við breytum grunnskólanum á Laugum í 6 litlar íbúðir með td. utanályggjandi lyftu. Við gröfum frá húsinu að vestanverðu og nýtum núverandi kjallara undir tvær íbúðir á jarðhæð og hvora hæð undir tvær íbúðir. Úr verður 6 íbúða hús. Þarna gætu aldraðir jafnt sem ungt fólk sem er að byrja búskap búið í sátt og samlyndi. Hægt er að huga að því að bjóða verkið út til verktaka og létta sveitarfélaginu fjárfestinguna-lán eru frekar auðsótt í íbúðir byggðar á félagslegum forsendum.

Ég veit að að ég hugsa í þessu tilfelli sem Reykdælingur, en sveitarfélagið á fleiri eignir sem hægt er horfa til í sama tilgangi. Við þurfum að fjölga íbúum í sveitarfélaginu og þá einkum ungu fólki. Ungt fólk er kjölfesta hvers sveitarfélags.

Við eigum jú tvo aðra skóla sem þarf að fara taka ákvörðun um til framtíðar. Þar á ég við Stórutjarnir og Hafralækjarskóla. Ég legg til að ráða á vegum sveitarfélagsins ráðgjafafyrirtæki og koma með tillögur til framtíðar litið.

Ekki treysti ég á þor núverandi sveitarstjórnarmanna að hreyfa við jafn eldfimu máli, en ákvörðunar er þörf. ekki á morgun heldur strax. Það er ekki eftir neinu að bíða. Svartalogn heitir það fyrir vestan og svo brestur hann á.

Örn Byström skrifar frá Einarsstöðum.

 

Kynningarfundur um Svartárvirkjun nk. mánudag

0
Svartárvirkjun-yfirlitsmynd.

SSB Orka vinnur að undirbúningi allt að 9,8 MW vatnsaflsvirkjunar í Svartá í Bárðardal auk lagningar rafstrengs.

Haldinn verður opinn kynningarfundur í Kiðagili í Bárðardal, mánudaginn 25. september 2017 kl. 16:30, þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir og efni frummatsskýrslu verða kynnt.

Allir velkomnir.

 

Norðlenska – Meðalþyngd 16,71 kíló

0
Úr sláturhúsi Norðlenska á Húsavík. Mynd: Norðlenska.is

Búið er að slátra 33.500 dilkum það sem af er sláturtíð hjá Norðlenska á Húsavík. Meðalþyngd dilka var 16,71 kíló í lok dagsins í dag, en var 16,92 kíló, á sama tíma í fyrra.

Að sögn Sigmundar Hreiðarssonar vinnslustjóra Norðlenska á Húsavík hefur slátrun gengið vel það sem af er og er slátrun heldur á undan áætlun. Veðurfarið hefur verið hagstætt, engin vandamál hafa komið upp og samstarf við bændur gengur vel.

Minna kemur inn af léttum dilkum en áður og aðeins 48 dilkar hafa flokkast í P-flokk hingað til.

Slátursala hófst sl. þriðjudag og henni lýkur í lok næstu viku eða föstudaginn 29. september.

 

 

Bréf frá framkvæmdastjóra Norðlenska

0
Úr sauðfjárrétt Norðlenska á Húsavík. Mynd: Nordlenska.is

Miklar umræður hafa spunnist um verðskrá sauðfjárinnleggs afurðastöðva þetta haustið og ástæður þess að verð til bænda fyrir sauðfé fellur jafn mikið milli ára og raun ber vitni.  Mig langar til að skýra málið út frá sjónarhóli Norðlenska.

Undanfarin ár hefur meðal söluverð sauðfjárafurða ekki verið í takt við innkaupsverð.  Afkoma af útflutningi hefur verið afleit, bæði af útflutningi kjöts og aukaafurða, og hefur þar hjálpast að sterk íslensk króna og erfiðar aðstæður á flestum erlendum mörkuðum sem selt hefur verið inná.  Ítrekað hafa aðstæður þróast til verri  vegar milli sláturtíða þannig að afurðastöðvar, sem staðgreiða innlegg frá bændum að hausti, hafa ekki náð þeim verðmætum útúr vörunni sem væntingar stóðu til þegar afurðaverð var ákveðið.  Þetta hefur valdið tapi hjá afurðastöðvunum og hefur Norðlenska tapað yfir 400 milljónum króna á slátrun og úrvinnslu sauðfjárafurða á árunum 2014-2016 og er þá ótalið hið augljósa að engin arðsemi var á eiginfé fyrirtækisins á sama tíma.

Hlutfall útflutnings hefur verið að hækka undanfarin ár þar sem innanlandssala er nokkuð stöðug en framleiðsla hefur verið að aukast.  Við þær aðstæður hefur afkoma útflutnings vaxandi áhrif á meðalverð og líkur á sveiflum í afkomu aukast.

Birgðir

Talsvert hefur einnig verið rætt um birgðastöðu afurðastöðva.  Átak í útflutningi, sem gerði afurðastöðvum kleift að minnka tap af útflutningi á kjöti frá síðustu sláturtíð, hjálpaði til við útflutning á um 850 tonnum af kjöti, þar af umtalsvert magn í nýliðnum ágústmánuði.  Hefði ekki komið til þessa verkefnis er líklegt að birgðir hefðu verið mun meiri nú við upphaf sláturtíðar en raunin var.  Ekkert í núverandi tillögum stjórnvalda bendir til þess að framhald verði á þessu verkefni.

Verðskrá

Við ákvörðun verðskrár Norðlenska fyrir sauðfé var m.a. horft til þess að fátt bendir til að ytri aðstæður verði betri á komandi 12 mánuðum heldur en þær hafa verið síðustu 12 mánuði hvað varðar afkomu af sölu sauðfjárafurða.

Milli áranna 2009 og 2016 hefur meðal kostnaðarverð þeirra sauðfjárafurða sem Norðlenska selur hækkað um rúm 29% en á sama tíma hefur meðal útsöluverð þessara vara hækkað um 21%.  Ef útflutningur er undanskilinn hefur kostnaðarverð hækkað um 25% en meðal útsöluverð um 23%.  Á sama tíma hefur undirvísitala vísitölu neysluverðs (m.v. júlí ár hvert) hækkað um tæp 26% fyrir kjöt almennt en 19% fyrir lambakjöt.  Þrátt fyrir að Norðlenska hafi náð þeim árangri, m.a. með umtalsverðri vöruþróun, að auka virði sauðfjárafurða umfram almenna þróun markaðarins þá dugar það ekki til þegar ytri aðstæður þróast með þeim hætti sem verið hefur í útflutningi sauðfjárafurða.  Raunar er það svo að meðal útsöluverð útflutnings hefur aðeins hækkað um 3% frá 2009 (miklar sveiflur en meðalverð árið 2016 var 3% hærra en meðalverð 2009) á meðan að kostnaðarverð úfluttra vara hefur hækkað um 44%.  Þær kostnaðarhækkanir eru að hluta til hærri kostnaður innanlands, s.s. hærra innkaupsverð frá bændum, launahækkanir, hækkandi eftirlitsgjöld og auknar álögur vegna förgunar úrgangs auk þess sem flutt hefur verið út meira unnin vara, með hærra kostnaðarverð, í þeirri viðleitni að auka virði útflutningsins

Þrátt fyrir að ráðist hafi verið í umtalsverðar hagræðingaraðgerðir hjá félaginu að undanförnu, sem m.a. hafa skilað sér í lægri kostnaði við stjórnun og sauðfjárslátrun, vantaði árið 2016 um 180mkr uppá afkomuna til að komast hallalaust frá slátrun, vinnslu og sölu sauðfjárafurða.  Á þetta leggst svo að fyrirsjáanlegar eru kostnaðarhækkanir bæði árið 2017 og 2018 meðal annars vegna kjarasamningsbundinna launahækkana og hefur það bæði áhrif á launakostnað fyrirtækisins og aðkeypta þjónustu.  Hjá Norðlenska stefnir til dæmis í að starfsmannakostnaður í sláturtíð hækki um rúmar 40mkr milli ára vegna launahækkana og aukins kostnaðar vegna húsnæðis fyrir sláturtíðarfólk.

Þegar þessi áhrif voru lögð saman var niðurstaðan sú að áður birt verðskrá væri það skref sem þyrfti að stíga til að draga verulega úr líkum á áframhaldandi taprekstri félagsins.  Þeir sem að þeirri ákvörðun komu gera sér grein fyrir að verðlækkunin hefur veruleg neikvæð áhrif á afkomu sauðfjárbænda en eru einnig upplýst um þá skyldu sína að starfa fyrir hönd allra hluthafa og með hagsmuni félagsins að leiðarljósi.

Með vinsemd og virðingu,

Ágúst Torfi Hauksson
Framkv.stj.Norðlenska

 

Skýrsla Byggðastofnunar um stöðu sauðfjárræktar haustið 2017

0
Sauðburður

Byggðastofnun hefur skilað samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra greiningu á stöðu sauðfjárræktar og sauðfjárbænda sem hann óskaði eftir í sumar. Óskaði ráðherra eftir mati á stöðunni á svæðum þar sem kinda- og lambakjötsframleiðsla er mikilvæg landsbyggðinni og mati á áhrifum mikillar lækkunar á afurðaverði sem fulltrúar bænda hafa spáð fyrir um. Frá þessu segir á vef Stjórnarráðsins í dag

Tillögum Byggðastofnunar er í skipt í þrjá flokka:

  • Aðgerðir vegna lausafjárvanda
  • Aðgerðir til að ná jafnvægi á markaði
  • Aðrar aðgerðir

Tillögur vegna lausafjárvanda eru þær að kannaðir verði möguleikar á því að ríkið leggi til fjármuni sem lán eða styrki til að mæta lækkun afurðaverðs haustið 2016 og nú í haust. Byggðastofnun skoði mál einstakra viðskiptavina og vinni með þeim að úrlausn. Einnig er lagt til að Byggðastofnun kanni þörf á endurfjármögnun lána sauðfjárbænda.

Tillögur til að ná jafnvægi á markaði snúast um að við fækkun sauðfjár verði horft til byggðasjónarmiða og í því sambandi til tillagna stofnunarinnar um svæðisbundinn stuðning við þau svæði sem eru háðust sauðfjárrækt sem atvinnugrein. Einnig að til að jafna framboð og eftirspurn á innanlandsmarkaði og minnka birgðir verði komið á tímabundinni útflutningsskyldu að ákveðnu hlutfalli og að aukinn verði byggðastuðningur við sauðfjárrækt í formi býlisstuðnings á skilgreindum svæðum.

Aðrar aðgerðir sem lagðar eru til varða stuðning við sauðfjárbændur á skilgreindum svæðum til að koma sér upp aukabúgreinum, svo sem ferðaþjónustu, heimavinnslu afurða og fleira og að ráðist verði í sérstakt kolefnisjöfnunarverkefni í samvinnu við sauðfjárbændur í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þannig verði sauðfjárframleiðslan kolefnisjöfnuð og meira til með því að draga úr losun og auka bindingu til dæmis með skógrækt, endurheimt votlendis og uppgræðslu.

 

Þingeyjarsveit verður ekki með í Útsvari í ár

0
Lið Þingeyjarsveitar í fyrra.(Skjáskot af vef Rúv)

Þingeyjarsveit verður ekki með í sjónvarpsþættinum Útsvari í ár. Það er ekki vegna lélegrar frammistöðu í fyrra heldur vegna þess að minni sveitarfélög fara í pott og eru svo dregin út. Í fyrra var Þingeyjarsveit dregin út og boðið að vera með en ekki í ár.

Sjónvarpsáhorfendur mun því ekki njóta visku þeirra Þorgríms, Hönnu og Sigurbjörns á skjánum í vetur.

Ef listinn yfir þau sveitarfélög sem eru með í Útsvari í ár er skoðaður má sjá að frekar fá sveitarfélög af Norðulandi eru með núna. Dalvík og Skagafjörður eru einu liðin af Norðurlandi sem eru með í þættinum í ár.

 

Verður fyrsta fljótandi vínbúðin á Íslandi á Mývatni ?

0
Mynd: Einar Ingi Hermannsson

Auglýsing sem birtist í Fréttablaðinu í gær, þar sem Ríkiskaup/ÁTVR auglýsir eftir húsnæði til leigu undir fyrirhugaða vínbúð sem stendur til að opna í Mývatnssveit á næstunni, hefur vakið nokkra athygli vegna orðalags hennar. Ekki er hægt að skilja orðalag hennar öðruvísi en svo að opna eigi vínbúð á sjálfu Mývatni. Einar Ingi Hermannsson vakti athygli á undarlegu orðavali í auglýsingunni á facebook í gærkvöldi þar sem segir m.a.:

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins óskar eftir að taka á leigu um 60-100m2 húsnæði fyrir Vínbúð á Mývatni

Neðar í auglýsingunni er tekið fram að húsnæðið skuli vera á jarðhæð, vera á verslunarsvæði, góð aðkoma skuli vera að húsnæðinu fyrir viðskiptavini og næg bílastæði.

Eðli málsins samkvæmt vekur svona orðalag athygli og þar sem allir sem komnir eru til vits og ára tala um „í Mývatnssveit“ en aldrei „á Mývatni“, nema þá að þeir séu á dorg eða einhver keppni standi yfir á ísnum á Mývatni.

Nokkrir Facebook-notendur telja þó að þetta geti verið til hagræðis fyrir Mývetninga að hafa vínbúðina fljótandi á pramma á Mývatni.

Einn facebook-vinur Einars skrifar svo:

„Svona eftir á að hyggja er þetta kannski góð hugmynd. Vínbúð á pramma sem gæti verið í förum – lagt upp í víkina við Skútustaðaskóla fyrir fólk sem er á hótelunum þar í grennd, svo upp að Vogatorfunni og líka við Reykjahlíðarþorpið og jafnvel upp undir Grímsstaði til að þjóna þeim á Flatskallanum“

Og annar skrifar:

„Rosa sniðug hugmynd, ætli sé þá bara hægt að hringja og fá prammann „heim á voginn“ef mann langar í gammeldansk með hafragrautnum“

Áhugasamir þurfa að skila inn upplýsingum um húsnæði til Ríkiskaupa í síðasta lagi 6. október nk.

Alla auglýsinguna má skoða hér fyrir neðan.

Mynd: Einar Ingi Hermannsson

 

 

 

 

 

Magni tryggði sér sæti í Inkasso-deildinni í dag

0
Lið Magna á Grenivík

Magni frá Grenivík tryggði sér sæti í Inkasso-deildinni (næst efstu deild) á næstu leiktíð í dag, þrátt fyrir 1-3 tap á heimavelli gegn Vestra. Á sama tíma tapaði Víðir stórt fyrir Aftureldingu, en Víðir var eina liðið sem gat náð Magna að stigum fyrir leikina í dag.

Magni er í öðru sæti deildarinnar með 39 stig en Víðir og Huginn eru í 3-4. sæti með 34 stig og geta ekki náð Magna að stigum í lokaumferðinni sem fer fram nk. laugardag. Staðan í 2. deild

Völsungur tapaði fyrir 3-4 Tindastóli í dag og er sem stendur í 7. sæti með 30 stig.

641.is óskar Magna til hamingju með sætið í Inkasso-deildinni.

 

 

Námsgögn verða gjaldfrjáls fyrir öll grunnskólabörn í Þingeyjarsveit

Á 222. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var í gær, gerði sveitarstjóri grein fyrir fundi sem hún átti með skólastjórum beggja grunnskólanna um útfærslu á hugmynd sem oddviti vakti máls á á síðasta fundi, um að námsgögn fyrir grunnskólanemendur í Þingeyjarsveit yrðu gjaldfrjáls. Í framhaldinu var leitað tilboða í námsgögn fyrir skólaárið 2017-2018.

Sveitarstjórn samþykkir að námsgögn verði gjaldfrjáls fyrir öll grunnskólabörn í sveitarfélaginu og samþykkir viðauka að fjárhæð kr. 540.000 við fjárhagsáætlun 2017, málaflokk 04 fræðslumál, sem mætt verður með handbæru fé. Sveitarstjórn vísar ákvörðun um gjaldfrjáls námsgögn til gerðrar fjárhagsáætlunar 2018-2021.

Fundargerð 222. fundar.

 

Já-já góðan daginn sveitungar !

0
Örn Byström Jóhannsson

Ég er einn af þeim sem sit á eldhúskollnum heima í eldhúsi og hef skoðanir á öllu og engu. Að ég tali nú ekki um þegar Siggi vinur minn á Stóru-Laugum kemur í heimsókn eða þá að ég læðist til hans.

Elín segir að við höfum vit á öllu að eigin mati og getum leyst flókin mál og hlær þá gjarnan góðlátlega við. Það má ekki særa spekingana. Við höfum til dæmis ákveðnar skoðanir á kjarkleysi eða áhugaleysi sveitarstjórnar til framtíðar litið. Hver var t.d. tilgangur sameiningar gömlu hreppana. Var hann ekki sá að sameinaðir stöndum við betri að vígi -værum sterkari og gætum unnið betur saman að sameiginlegum málum okkar ?

Skólamálin eru eitt af þeim málum sem má ekki tala um. Í hvaða farvegi eru þau.? Er endanleg ákvörðun tekin þar ? Eða eru þau mál í einhverju friðmælandi stöðu -vegna þess að sveitarstjórn hefur ekki kjark til að taka ákvörðun. Sem kjósandi hlít ég að krefja sveitarstjórn um svar. Eða þorir hún ekki að hafa skoðun í málinu. Já til hvers var sameiningin.

Í dag rekum við skólastarfið á þremur stöðum í ekki stærra sveitarfélagi. Við rekum þrjú bókasöfn. Þegar ég var unglingur í henni Reykjavík var eitt bókasafn. Íbúar voru þá um 100.000. Sveitarstjóri er að vísu einn allavegana svona að nafninu til. Ég spyr  -hvar á kjarni sveitarfélagsins að vera ? Þá kemur hreppapólitíkin inn. Auðvitað á hann að vera í heimabyggð minni segir Ási. -Nei.nei segir Aðaldælingurinn í heimabyggð minni. Rís þá upp Reykdælingur og segir, nei-nei í heimabyggð minni.

Ég er búsettur í Reykjadal og mér finnst að augljósum ástæðum að höfuðborg Þingeyjarsveitar á að vera staðsett á Laugum í Reykjadal. Af hverju spyr Ási og Aðaldælingurinn. Jú vegna þess að þar eru til staðar nánast öll mannvirki. Þar er framhaldsskóli-þar er fullkomin íþróttaaðstaða til keppni í sundi-frjálsum íþróttum -knattspyrnu-golfvöllur-verslun og veitingarstaður-banki. Það eina sem vantar, (nú kasta ég sprengju) að byggja fullkomin grunnskóla.

Ég veit að það eru ekki allir sammála mér í þessu en þetta er ákvörðun sem verður að taka og því fyr sem hún er tekin því betra. En þessi sveitarstjórn hefir engan kjark til slíkrar ákvörðunartöku. Þess vegna þurfum við að kjósa fólk sem þorir í næstu kosningum.

Ég skora á ungt fólk að gefa kost á sér til starfa og byggja með því upp samfélag með nýjum áherzlum.

Ég tek það fram allveg sérstaklega að þessi skrif mín eru ekki framboðsskrif -heldur einungis skoðanir aldraðs öryrkja á sínu nærumhverfi.

Örn Byström Einarsstöðum

Nýr vefur Skútustaðahrepps tekin í notkun

Nýr vefur Skútustaðahrepps

Ný og uppfærð snjallsímavæn heimasíða Skútustaðahrepps hefur verið tekin í notkun. Þar sem hún er snjallsímavæn aðlagar hún sig að því tæki sem hún er skoðuð í. Jafnframt hefur nýtt lén hefur verið tekið í notkun sem er www.skutustadahreppur.is.  Gamla lénið (myv.is) verður áfram í notkun í einhvern tíma en verður svo lagt niður.

Gamla heimasíðan var barn síns tíma. Ný heimasíða er liður í aukinni og bættri þjónustu sveitarfélagsins. Við viljum hafa síðuna lifandi og því viljum við miðla því sem er um að vera í sveitarfélaginu.

Allar ábendingar um heimasíðuna eru vel þegnar og mikilvægt að upplýsingar sem þar eru séu réttar.

Vinsamlegast sendið línu á heimasida@myv.is (breytist svo í heimasida@skutustadahreppur.is)

Þeir sem vilja senda inn fréttir eða viðburði á heimasíðuna eru hvattir til að gera það og senda á netfang heimasíðunnar.

Rétt er að taka fram að heimasíðan er með frekar einföldu sniði til að byrja með en síðan verður byggt ofan á það efni sem nú er komið inn. Því má segja að heimasíðan verði í mótun fram eftir vetri. Meðal annars koma eldri fundargerðir inn á síðuna á næstu vikum.

Þetta er fyrsti áfangi heimasíðunnar af þremur. Í öðrum áfanga verður gerð ný heimasíða fyrir Reykjahlíðarskóla sem jafnframt verður hluti af þeirri nýju. Í þriðja áfanga verður gerð ný heimasíða fyrir leikskólann Yl.

Skútustaðahreppur.is

Hver er óvinur þinn? – Séra Bolli predikaði við setningu Alþingis í dag

0
Bolli Pétur predikar yfir þingmönnum í Dómkirkjunni í dag. Mynd: sunna Dóra Möller

Sr. Bolli Pétur Bollason sóknarprestur í Laufási var fengin til þess að predika yfir Alþingimönnum við setningu Alþingis í Dómkirkjunni í Reykjavík í dag. Predikunarræðu sr. Bolla Péturs má lesa hér fyrir neðan.

Hver er óvinur þinn ?

„Elskið óvini yðar“

Hver er óvinur þinn? Veistu það?

Er það náunginn sem sagði þér til syndanna á Facebook? Eru það fjölmiðlarnir? Er það ástvinur sem brást, ást-brást, oft þunnur þráður á milli? Er það maðurinn sem fékk uppreist æru sinnar? Er það sá sem keyrði niður saklausa borgara á fjölförnum stað?

Er það kannski þú sjálfur eða sjálf, draugar fortíðar þinnar, gömul og ný áföll sem ekki hefur verið unnið úr, er það kvíðahnúturinn fyrir morgundeginum og verkefnum framundan? Er það Guð eða er það djöfullinn sjálfur? Hvað með tómið, eyðimörk hugans? Kann að vera að það sé síðan bara eitthvað allt annað? Ekki þó segja mér að þú eigir engan óvin, það hljómar eins og hugljúf og meinlaus Hollywood kvikmynd, verum raunsæ.

Ég er ekki frá því að það þurfi að ígrunda þetta boð Jesú úr fjallræðu hans afar vel áður en ráðist er í framkvæmd. Það er skrambanum þyngra að elska óvin sinn, má greina þó örlitla von sé tilfinning vanmáttar til staðar, að ég tali nú ekki um blessað æðruleysið.

„Elskið óvini yðar.”

Það var nokkuð skýrt hverjir voru óvinirnir í þeim aðstæðum sem Jesús talaði inn í á sínum tíma í hinni merku fjallræðu. Gyðingar voru sem sagt Guðs útvalda þjóð og ögrunin fólst þá einkum í því að elska þau sem stóðu þar fyrir utan sem voru heiðingjarnir, þetta var svona við og hinir. Þess vegna hefur það komið sem þruma úr heiðskíru lofti þegar Jesús bað fólk um að elska óvini sína. Það rímaði reyndar vel við það markmið hans að leita hins týnda og frelsa það, góði hirðirinn.

Enn verðum við þó vitni að rótgrónum deilum fyrir botni Miðjarðarhafs, enn er verið að kljást við óvininn, og enn eru boð Jesú úr fjallræðunni því sannarlega í gildi, og enn á manneskjan eftir margt ólært. Hugsum okkur land eins og Norður-Kóreu sem einkennist vægast sagt af einkennilegri og einangraðri heimssýn þar sem allir útlendingar eru óvinir.
Yeonmi Park frá Norður-Kóreu flúði heimaland sitt 13 ára gömul. Hún flutti stórmerkilega sögu sína um daginn fyrir fullum hátíðarsal Háskóla Íslands.

Þar greindi hún frá ógnarstjórninni hryllilegu, síendurteknum mannréttindabrotum, frá líkunum sem hrönnuðust upp fyrir utan sjúkrastofnanir, frá rottunum sem átu líkin og fólkinu sem át rotturnar.

Þegar óvinurinn er þess eðlis að hann býður ekki upp á neitt elskutal vegna þess að hann er í viðjum hroka og þeirrar valdsmennsku er elur á ótta þá er það eina í stöðunni að stíga fram í hógværð og æðruleysi eins og Yeonmi Park, sem rétt náði upp fyrir púltið í hátíðarsalnum, og gera heiminum grein fyrir afleiðingum fyrrnefndrar valdsmennsku og biðja þess að fólk gefi fórnarlömbum smá pláss í hugsunum sínum og gjörðum.

„Ef þið hafið pláss fyrir velferð dýra, jafnrétti kynjanna og loftslagsbreytingar, þá vona ég þið hafið líka pláss fyrir fólkið í Norður-Kóreu.“ Sagði hún.

Í þessu samhengi er ágætt að minna á þau sannindi sem sumum kann að þykja klisjukennd að viljir þú gera breytingar og hafa jákvæð áhrif á umheiminn er hvað best að byrja á sjálfum sér. Það er kannski engin tilviljun að Jesús í samskiptum sínum við fólk fékk það til að kannast við sjálft sig áður en lengra var haldið. Það gerði hann bæði með atferli sínu, orðum, og dæmisögunum snjöllu.

Sem dæmi þegar lögvitringur nokkur vildi réttlæta sjálfan sig og spurði Jesú hver væri náungi hans sagði Jesús honum söguna um Miskunnsama samverjann sem við vonandi öll könnumst við og er sígild er kemur að umræðunni um náungaábyrgð. Megi sú saga lifa meðal komandi kynslóða.

Ábyrgð okkar er raunverulega mikil gagnvart náunganum. En til þess að við gerum okkur betur grein fyrir henni þurfum við að gramsa í okkur sjálfum og vita hvar við höfum okkur sjálf. Ég er t.a.m. alveg á því þó ég eigi jafn erfitt með það og aðrir að við eigum ávallt og iðulega að vera í sannleikanum, hversu sár og erfiður sem hann kann að vera, og á það bæði við um störf okkar sem einkalíf, í því sambandi öðlumst við ávallt á endanum traust og virðingu og lendum síður í þversögnum.

Þá er mikill styrkleiki fólginn í því að þekkja vanmátt sinn, það að vera kosinn á þing þýðir t.d. ekki að þú þekkir öll svörin. Ég segi fyrir mig að í mínu starfi spyr ég miklu fleiri spurninga heldur en ég á svör við og þið heyrið það líka á þessari prédikun minni.

Það er reyndar með spurningarnar að þær vekja alltaf visst innsæi, leiða okkur inn í veröld sem við höfum ekki endilega kannað áður eins og góðvinur minn Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur komst svo vel að orði í einu samtala okkar um daginn, hann starfar með fólki í sárustu sorgaraðstæðum þess á degi hverjum, aðstæður sem í eðli sínu krefjast þess að fólk læri að þekkja betur sjálft sig.

Þetta eru aðstæður sem við kirkjunnar þjónar göngum reglulega inn í og á 15 ára prestsskapartíð minni hef ég oftar en ekki orðið var við einstaka fegurð brjótast fram í mannssálinni við slíkar aðstæður, fegurð sem er yfir allan óvinskap hafin.

Þar er vald kærleikans og heiðarleikans allsráðandi. Það er merkilegasta valdið. Það er eftirminnilegasta valdið, fólkið sem er ekki uppfullt af valdi en hefur samt svo mikil völd eins og Yeonmi Park fyrir framan yfirfullan hátíðarsal Háskólans og öll eyru galopin og hvert einasta orð meðtekið. Gætir þú gert það sama og hún, tekið hagsmuni annarra fram fyrir þína eigin? Það er sterkasta valdið.

Veikast er valdið er veldur ótta. Ógnarvald er í grunninn svo máttlaust og það verður það alltaf, það ber enginn virðingu fyrir því og vart sá sem hefur það sjálfur því hann þekkir ekki sjálfan sig jafnvel þótt hann hafi öllum stundum sjálfan sig að markmiði.

Það að menn á borð við Donald Trump, Pútín og Kim Jong-un skulu sitja að kjötkötlum snýr ekki aðeins að ábyrgð þeirra sjálfra heldur umfram allt alls heimsins og þess vegna eru þeir ekki einvörðungu undir niðri aðhlátursefni heldur heimurinn allur fyrir það það eitt að láta það viðgangast að þessir menn haldi í stjórnartauma. Með því að segja sögu sína afhjúpar Yeonmi Park það t.d. á svo skýran hátt og hún kallar um leið heiminn til ábyrgðar gagnvart þeim mannréttindabrotum og þeim hryllingi sem stjórnvöld vinna í heimalandi hennar og svo víða í veröldinni. Saga hennar er þörf dæmisaga fyrir okkur öll, alltaf.

Valdamesta táknmynd heimsins er nakinn og blóðugur líkami Jesú á krossinum á Golgatahæð, þar er ógnarvaldið ávarpað í eitt skipti fyrir öll og sömuleiðis afhjúpað í sinni skýrustu mynd, æstur múgurinn stendur hjá og horfir á. Og hver ber ábyrgð, er það þessi, eða þessi? Við erum alltaf að benda á einhverja aðra en okkur sjálf, við erum enn í dag að krossfesta fólk.

Krossmyndin af Jesú minnir á það að hann umbylti ríkjandi þankagangi, þar boðaði hann einlæga fórn og elsku öllum heiminum til handa en minnti sömuleiðis á ábyrgð heimsins og nýja sýn á valdið, hvernig við höfum áhrif til góðs, nýja heimssýn nýja lífssýn.

Og þessi nýja sýn segir ykkur m.a. að glata aldrei því sjónarmiði að við erum í þjónustu við fólkið og valdið felst í heiðarleika og í sannleika. Ef þú ert með einhverja hugsjón yfir höfuð þá skaltu ekki liggja á henni heldur minnast þess að í krafti persónu þinnar og í krafti embættis þíns hefur þú tækifæri til að koma henni á framfæri og þú hefur verið kosinn af fólkinu til þess.

Og veltu fyrir þér hvað það er sem mögulega gæti hindrað það að hugsjón þín fái brautargengi, ert þú þinn eigin óvinur í því samhengi, er sérhyggja að flækjast fyrir, ótti, ertu að þóknast ákveðnum hagsmunum? Eitt er víst að það er ekki hægt að þóknast öllu, þá verðum við á endanum engu neitt.

Í Gamla testamenti Biblíunnar er máttugt stef þessi þrenning, ekkjan, útlendingurinn og munaðarleysinginn. Það eru hinir undirokuðu, þau sem fara hallloka í samfélaginu. Þau eru fulltrúar ákveðinna málaflokka og við sem fæðumst inn í þessa veröld höfum skyldur við þau. Þetta er mörgum framandi þrenning og rödd hennar fær takmarkaðan hljómgrunn.

Í nútímasamhengi getum við séð fyrir okkur stöðu eldri borgara, flóttafólks og barna sem líða skort. Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, búum flóttafólki öruggt skjól án þess að óttast að þar séum við að hýsa hryðjuverkamenn og búum börnunum það öryggi að þau þurfi ekki að spyrja sig hvort þau fái skólatösku við upphaf skóla eða hvort til sé matur þegar þau koma heim að skóla loknum. Þá hljótum við að senda skýr skilaboð þess efnis að við líðum aldrei svívirðingar gagnvart börnum og viðurkennum ekki í neinum tilfellum slíkar misgjörðir.

Þetta eru viss grundvallaratriði og það þarf ekki að leita lengra til að finna þannig hugsjónum sínum mikilvægan farveg og hljómgrunn. Það er ábyrgð okkar að bregðast við þessum málaflokkum sem ég tek hér sem dæmi.

Og í því ljósi er forvitnilegt að velta enska orðinu „Responsibility” fyrir sér sem merkir ábyrgð en það er líka hægt að snúa því við og tala um „my ability to respond” eða hæfni mín til að bregðast við.

Það er á ábyrgð okkar að bregðast við knýjandi málum samfélagsins og heimsins og þau viðbrögð kalla á hæfni, ígrundun og þurfa ávallt og ætíð að einkennast af heiðarleika og sannleika, þannig komum við í raun og sanni vel fram bæði við vini sem óvini hvort sem þeir búa í okkur sjálfum eða einhverjum öðrum. Slík framkoma hindrar fremur fylkingamyndun en laðar fram samstöðu.

Bókin „Með lífið að veði. Leið norðurkóreskrar stúlku til frelsis” eftir títtnefnda Yeonmi Park sem nú stundar nám við Columbia háskólann í New York, endar á eftirfarandi orðum sem eru í senn hugvekjandi og hvetjandi að taka með sér inn á nýtt þing og í lífsins ólgusjó:

Hún segir: „Allir stuðningsmenn mínir um allan heim sem hvetjið mig og sendið mér góð skilaboð á samfélagsmiðlum: Ég get ekki nefnt ykkur öll á þessum fáu síðum en þið vitið hver þið eruð. Sérhvert bros, sérhver vináttuvottur, sérhvert tár sem þið fellduð með mér veitti mér kjark til að deila sögu sem ég hélt að ég gæti aldrei deilt með neinum. Þakka ykkur fyrir að trúa á mig. Ég hef upplifað tímabil þegar ég missti trúna á mannkynið en þið hafið hlustað, þið hafið látið ykkur þetta varða. Þannig, með því að standa saman, byrjum við að breyta heiminum.”

Jesús sagði: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim er ofsækja yður.

Guð blessi og varðveiti þing og þjóð og veröld alla í blíðu jafnt sem stríðu í Jesú nafni. Amen.

Tryggvi Snær mættur til Valencia

0
Tryggvi Snær í búningi Valencia

Tryggvi Snær Hlinason er mættur til Spánar og farinn að hefja æfingar með Valencia körfuboltaliðinu í efstu deild á Spáni. Frá þessu segir á karfan.is í morgun.

Valencia birtir mynd af Tryggva á Twitter að því tilefni í dag og má með sanni segja að Tryggvi líti fantavel út í appelsínugulu.

Með myndinni segir að Tryggvi sé fyrstur til að mæta eftir Eurobasket. Vefur Valencia

 

Hugleiðing – Örn Byström

0
Örn Byström Jóhannsson

Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar og spurt er -„Um hvað er kosið ?“ Mér finnst að í sveitarfélagi okkar ríkji stöðnun og algjört áhugaleysi. Framtíðarsýnin er engin-Stefna ráðamanna virðist vera sú að gera sem minnst. Engin umræða virðist fara fram um að reyna að spyrna við fótum og reyna að fjölga íbúum Ekkert er gert til að auglýsa sveitarfélagið út á við, sem góðan kost til búsetu -lóðaframboð er ekkert -allavegana þá veit engin um þær lóðir ,hvað þá að reynt sé að hvetja ungt fólk til fjárfestingar í sveitarfélaginuog byggja hér.

Byggja hér kann einhver að spyrja -afhverju halda menn að einhverjir vilji byggja hérna. -og það er von að spurt sé . Hvað hefur sveitarstjórn gert í uppbyggingu í atvinnumálum-jú það sem þeir gerðu var að festa kaup á atvinnuhúsnæði undir slökkviliðið. Hér vantar sárlega þjónustu við íbúa sem þar var til staðar. Ég hélt að með auknum fjölda íbúa skiluðu sér auknar skatttekjur í sveitasjóð. Sagt er að Húsvíkingar ætli stóriðju sinni að greið engin fasteignagjöld fyrstu 10 árin sem verksmiðjan starfar -Gætum við ekki boðið ódýrar lóðir til húsbygginga og lánað lóðakostnað og gatnagerðargjöld til t.d. 10-15 ára.

Sveitarstjórn veit kannski ekki að að haustið 2018 verða opnuð Vaðlaheiðagöng sem koma til með að stækka atvinnusvæðið verulega. Hvers vegna á að útiloka þann möguleika að fólk vilji byggja í okkar sveitarfélagi. Það verður t.d. ekki langt úr Fnjóskadalnum að sækja vinnu til Akureyrar.

Það þurfti ekki hér áður fyrr að sparka í Þingeyinga til athafna en asskoti er þetta nú aum sveitarstjórn sem við höfum. Ég held að þeir skari fyrst og fremst eld að sinni köku.

Allavegana ætla ég 75 ára gamall kjósandi ekki að kjósa þá til að leggja grunnin að uppbyggilegu sveitarfélagi. Þá treysti ég betur félögum mínum í bocciadeild Eldri Borgara.

 

Framhaldskólinn á Húsavík 30 ára 15. september

0
Framhaldsskólinn á Húsavík

Framhaldsskólinn á Húsavík var stofnaður 1.apríl 1987 og settur í fyrsta sinn 15.september sama ár. Nú eru því liðin 30 ár frá upphafi framhaldskólans. Að því tilefni verður efnt til hátíðarfagnaðar föstudaginn 15.september í húsnæði skólans að Stóragarði 10. Skólinn verður opinn almenningi þennan dag og eru allir hjartanlega velkomnir.

Dagskráin verður eftirfarandi.

Kl.13 verður opið hús með verkefnasýningu nemenda

kl.14. Hefst formleg afmælisathöfn í sal skólans

kl.15 Verður öllum boðið veitingar.

Við hvetjum alla til að mæta og samgleðjast með okkur í tilefni þessara tímamóta.

Sjáumst í FSH föstudaginn 15.september kl.13

Afmælisnefnd FSH

Magni hársbreidd frá sæti í Inkasso-deildinni – Völsungur er í 5. sæti

0
Lið Magna á Grenivík

Knattspyrnulið Magna frá Grenivík er hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í Inkasso-deildinni næsta sumar og þarf aðeins tvö stig til viðbótar úr tveimur lokaumferðunum í 2. deildinni til að trygga sætið i Inkassó-deildinni (næst efstu deild) á næstu leiktíð. Njarðvík er í 1. sæti með 44 stig og er þegar búið að trygga sér sæti í Inkassó-deildin á næstu leiktíð, en Magnamenn eru í 2. sæti með 39 stig og hafa fræðilega möguleika á því að fara upp fyrir Njarðvík, tapi Njarðvík báðum sínum leikjum og Magni vinni báða sína leiki.

Magnamenn gerðu 3-3 jafntefli við Hött á útivelli í gær og þeir eiga eftir heimaleik gegn Vestra laugardaginn 16. september kl 14:00 og geta með sigri tryggt sætið í Inkasso-deildinni. Lokaleikur Magna er síðan útileikur gegn Víði í Garði laugardaginn 23. september. Magni hefur 5 stiga forstkot á Víði og er með betri markatölu, en Víðir er eina liðið sem getur hirt Inkasso-deildarsætið af Magna og því ljóst að mikið er undir fyrir Magnamenn næstu tvo laugardaga. Staðan í 2. deild

Völsungar unnu Sindra 5-3 á heimavelli í gær og eru sem stendur í 5 sæti 2. deildar. Ljóst er að lið Völsungs mun spila áfram í 2. deild á næstu leiktíð enda orðið öruggt að liðið fellur ekki um deild. Völsungar eiga eftir útileik gegn Tindastóli og heimaleik gegn Njarðvík. Völsungar geta best náð 3. sætinu í deildinni, verði úrslit í öðrum leikjum þeim hagstæð. Gengi Völsungs í sumar.

Gengi Geisla úr Aðaldal í D-riðli 4 deildarinnar í sumar var mun skárra en í fyrra, en þá töpuðust allir leikirnir. Keppni í D-riðli er lokið og varð Geisli í 6. sæti af 8 liðum með 11 stig. Geilsamönnum tókst að vinna þrjá leiki í sumar og gerðu tvö jafntefli, en aðrir leikir töpuðust. D-riðill 4 .deildar 

Geisli úr Aðaldal

 

 
 

VINSÆLAST Á 641.IS

VEGASJÁ

FÆRÐ