Fréttir af starfi Soroptimistaklúbbs Húsavíkur og nágrennis

0
Samstaða

Í fyrrahaust fórum við af stað með nýtt verkefni sem var sjálfstyrkingarnámskeið fyrir telpur á þrettánda ári sem er í anda stefnu soroptimista: Styrkur kvenna hvar sem er, heima og að heiman.

Þetta verkefni heppnaðist vel og dagana 9.-10. Nóvember sl. endurtókum við leikinn.  Öllum stúlkum fæddum 2006 í Þingeyjarsýslum var boðið að taka þátt í námskeiðinu þeim að kostnaðarlausu. Að þessu sinni voru það 18 stúlkur sem þáðu boðið og nutu leiðsagnar þeirra Ingibjargar Þórðardóttur félagsráðgjafa  og Sigríðar Ástu Hauksdóttur náms-, starfs- og fjölskylduráðgjafa sem einnig sáu um námskeiðið  í fyrra.

Námskeiðsgögnin voru þau sömu. Markmiðin fyrst og fremst að styrkja sjálfsímynd telpnanna, læra að  standa með sjálfri sér, virða aðra, átta sig á öllum þeim hættum sem steðja unglingum í dag og þora að leita aðstoðar fullorðinna ef eitthvað bjátar á.

Hrískökur

Eins og í fyrra fengum við aðsetur í Þingeyjarskóla okkur að kostnaðarlausu. Klúbbsystur sáu um gæslu og máltíðir.  Námskeiðið hófst á föstudagskvöldinu og lauk seinnipart laugardags. Telpurnar gistu á staðnum, nánast í einni stórri flatsæng í einni skólastofunni og var glatt á hjalla er kom að náttum.

Ánægja ríkti að loknu námskeiði og gengu allar nokkuð sáttar frá borði. Hugmynd kviknar og verkefni eins og þetta verður til með stuðningi samfélagsins, okkar systra er að finna leiðir. Allir voru tilbúnir að láta af hendi það sem vantaði: Þingeyjarsveit skólahúsnæðið, Norðlenska, Nettó, Heimabakarí og Hveravellir (Garðræktarfélag Reykhverfunga) gáfu þá matvöru sem þurfti og við systur bökuðum meðlæti.

Styrk fengum við frá Lýðheilsusjóði, hluti af afrakstri SÁÁ-álfasölu rann til verkefnisins og einnig nutum við stuðnings nokkurra Kvenfélaga í Þingeyjarsýslum. Við þökkum öllum þeim sem studdu okkur við þetta litla en vonandi árangursríka verkefni.

Fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Húsavíkur og nágrennis

Undirbúningsnefndin.

 

Styrktarsjóður Einarsstaðakirkju stofnaður

0
Einarsstaðakirkja

Sóknarnefnd Einarsstaðasóknar hefur stofnað styrktarsjóð kirkjunnar. Hugmyndin er að bjóða velunnurum kirkjunnar að taka þátt í kostnaði við ýmsar framkvæmdir og eða endurbætur á kirkjunni, bæði hvað varðar kirkjuhúsið sjálft og starfið sem þar fer fram.

Hyggjumst við á hverju ári birta upplýsingar um hvað hefur safnast og í hvað fjármunir sjóðsins hafa verið notaðir.

Fyrsta verkefni sjóðsins verður að taka þátt í kostnaði við kaup á nýjum útvarpssendi, en sendirinn sem notast hefur verið við er barn síns tíma. Eins og margir hafa tekið eftir hafa gæði útsendingarinnar verið æði misjöfn og oft óviðunandi.

Þeir sem kjósa að leggja sjóðnum lið mega gjarna leggja inn á banakreikning sjóðsins í Sparisjóði Suður-Þingeyinga 1110-15-201723 kt:510169-1589

Sóknarnefnd Einarsstaðakirkju.

 

Karlakórinn Hreimur í Glerárkirkju

0
Karlakórinn Hreimur

Laugardaginn 17. nóvember kl. 15:00 verður Karlakórinn Hreimur með tónleika í Glerárkirkju á Akureyri. Á efnisskránni eru hefðbundinn karlakórslög, íslensk ástarlög, baráttusöngvar, hrossapopp o.fl.

Einsöngvarar verða Sigurður Ágúst Þórarinsson og Ásgeir Böðvarsson sem eru báðir meðlimir í kórnum.

Miðasala verður við inngangin og aðgangseyrir aðeins 2.500 kr.

Karlakórinn Hreimur

 

Árbók Þingeyinga 2017 er komin út

0

Árbók Þingeyinga 2017 er komin út og eru þá komnir út sextíu árgangar af Árbók Þingeyinga.

Efnið í þessum 60. árgangi spannar allt frá lífinu í Kinn í byrjun síðustu aldar upp í kveðskap helsta rokkskálds samtímans sem reyndar minnir meira á rímnaskáld fortíðarinnar heldur en Úlf Úlf og MC Gauta og önnur söngvaskáld nútímans sem yrkja á Íslensku.

Fullkomin jólagjöf fyrir Þingeyinga og aðra áhugasama um sögu og menningu héraðsins.

Bókin kostar 4.500 kr. og það er hægt að kaupa í Safnahúsinu á Húsavík eða panta í síma 464-1860 og fá hana senda.

Hér má sjá efnisyfirlit bókarinnar.

 

styrkjum Arnar Frey

0
Arnar Freyr.

Sameinumst um að styrkja Arnar Frey.

Arnar Freyr Ólafsson er 18 ára, sonur Elínar Hólmfríðar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Haraldssonar frá Fljótsbakka. Þau búa núna við Hólaveg á Laugum.

Þegar einhver úr samfélaginu okkar lendir í erfiðleikum, þá snertir það okkur öll. Núna er það Arnar Freyr Ólafsson, öðlingur sem við höfum verið svo heppin að fá að vera samferða frá hans fyrstu dögum. En hann greindist núna í byrjun október með mein í eitli út frá eistnakrabbameini, og er byrjaður í lyfjameðferð sem mun standa fram undir jól.

Við getum ekki haft áhrif á verkina sem fylgja þessu ferli, en við getum létt undir með honum fjárhagslega og gert honum kleift að dreifa svolítið huganum frá þessu og höfum við þess vegna stofnað reikning til styrktar honum, í Sparisjóði Suður Þingeyinga

reikningurinn er: 1110 05 409090 kt. 290766 5249

þar sem þeir sem vilja leggja honum lið á þessum erfiðu tímum, geta lagt inn pening, því þarna er þeim vel varið og gætu veitt honum smá gleði og ánægjustundir sem veitir ekki af á þessum erfiðu dögum.
Þórir og Dagný.

Arnar Freyr.

Vel mætt á opnunarhátíð Mikleyjar

0
Frá Opnunarhátíðinni

Í gær var haldin opnunarhátíð Mikleyjar, þekkingarseturs í Mývatnssveit sem er til húsa að Hlíðarvegi 6 í Reykjahlíð þar sem hreppsskrifstofan er.  Boðið var uppá tónlistaratriði og veitingar úr héraði og var mjög vel mætt. Mývetningarnir Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir og Stefán Jakobsson, sem bæði gáfu út sólóplötur í haust, tóku lög af plötunum sínum. Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri var kynnir og Helgi Héðinsson oddviti flutti ávarp ásamt Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis.  Óli Halldórsson forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga flutti einnig ávarp sem og Arnþrúður Dagsdóttir starfsmaður þekkingarnetsins í Mývatnssveit. Hún tilkynnti hver hefði borið sigur úr bítum í hugmyndasamkeppni um nafn í þekkingarstetrið en það var Ásta Kristín Benediktsdóttir. Þá var klippt á borða í tilefni dagsins.

Mikley mun hýsa ólíka aðila, t.d. námsmenn, sjálfstætt starfandi einyrkja og stofnanir. Nú þegar eru þar starfandi Mývatnsstofa,  Vatnajökulsþjóðgarður, Geotravel, námsver og starfsstöð Þekkingnets Þingeyinga og Geochemý. Mývatnsstofa er samstarfsverkefni ferðaþjónustunnar á svæðinu, Geochemý eru sjálfstætt starfandi jarðfræðingar. Þekkingarnet Þingeyinga opnaði nú á ágúst starfstöð í Mývatnssveit með starfsmanni sem sinnir námsveri og þjónustu við námsmenn, símenntunarnámskeiðum á svæðinu og verkefnum á rannsóknarsviði stofnunarinnar. Geotravel er ferðaþjónustuaðili.

Markmiðið með stofnun þekkingarseturins er margþætt, slík setur hafa ólík en jákvæð samfélagsleg áhrif þar sem þeim hefur verið komið á fót. Þá er m.a. horft til þess að bæta möguleika fólks með háskólamenntun til búsetu í sveitinni, viðhalda þeim störfum í þekkingarstarfsemi sem eru hér nú þegar, hvetja til þverfaglegrar samvinnu, hvetja til náms og rannsóknavinnu og laða hingað störf í þekkingarstarfsemi.

Undirbúningur verkefnisins hófst með því að á árinu 2015 var skipaður starfshópur sem kannaði möguleika á uppbyggingu fræða- eða þekkingarseturs í Mývatnssveit.  Þekkingarnet Þingeyinga sá um verkefnastjórn og Uppbyggingarsjóður Eyþings styrkti verkefnið. Hópurinn skilaði skýrslu í maí 2016 og þar kom fram sú niðurstöða að það væri bæði fýsilegt og gerlegt að reka þekkingarsetur í Mývatnssveit. Þá var ákveðið að hentugt húsnæði til að byrja með fyrir starfsemina væri í húsnæði Skútustaðahrepps sem er samliggjandi skrifstofu hreppsins í Reykjahlíðarþorpi en jafnframt yrði unnið áfram að framtíðarstaðsetningu setursins.

Mikley er stærsta eyjan í Mývatni en í mars 1858 var haldinn fundur í eyjunni þar sem ákveðið var að stofna lestrarfélag í sveitinni og stofna sparisjóð búlausra í sveitinni. Lestrarfélagið varð síðar að bókasafni Mývatnssveitar.

Fleiri myndir á facebooksíðu Skútustaðahrepps

 

Yfirlýsing frá fjórum formönnum stéttarfélaga vegna vinnubragða Sjómannafélags Íslands

0

Undirritaðir formenn VR, Eflingar stéttarfélags, Framsýnar stéttarfélags og Verkalýðsfélags Akraness fordæma ólýðræðisleg vinnubrögð trúnaðarmannaráðs Sjómannafélags Íslands og brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu.

Stéttarfélög eru og eiga að vera skv. lögum nr. 80/1938, opin öllum sem starfa á því starfssvæði sem kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags ná yfir. Félagsaðildinni fylgja mikilvæg réttindi sem eru hluti af velferð launafólks á vinnumarkaði og hún tryggir vernd félagsmanna í samskiptum sínum við atvinnurekendur. Þetta kemur skýrt fram á heimasíðu Sjómannafélags Íslands þar sem sérstaklega er fjallað dagpeninga og styrki til félagsmanna, orlofskosti þeirra og aðgang að lögfræðiþjónustu svo fáein dæmi séu tekin. Stéttarfélagi er undir engum kringumstæðum heimilt að reka félagsmann úr félaginu og svipta hann þar með þessum réttindum.

Aðild að stéttarfélagi felur jafnframt í sér rétt til lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa i félaginu með málfrelsi, tillögurétti, atkvæðisrétti og kjörgengi. Krafa um greiðslu félagsgjalda í þrjú ár til þess að öðlast kjörgengi innan félagsins felur augljóslega í sér ólögmætar hömlur á frelsi og réttindi félagsmanna og slíkt þekkist ekki innan íslenskrar verkalýðshreyfingar.

Alvarleg brot félagsmanna gegn félaginu eins og t.d. ef hann vinnur með atvinnurekendum gegn hagsmunum þess geta í alvarlegustu undantekningar tilvikum leitt til þess að hömlur verði settar á atkvæðisrétt og kjörgengi. Skoðanaágreiningur og gagnrýni á störf félagsins eru ekki slík brot heldur skýrt merki um lýðræðislega þátttöku í starfsemi félagsins.

Leiða má af því líkur að skoðanir Heiðveigar á starfsemi Sjómannafélags Íslands og ákvörðun hennar um gefa kost á sér til formanns í félaginu sé ástæðan fyrir þessum hörðu viðbrögðum af hálfu trúnaðarmannaráðs félagsins. Í því efni hefur hún einungis nýtt sér félagsbundin réttindi sín og stjórnarskrárvarið málfrelsi sem augljóslega hefur komið við kaunin á forystu félagsins. Þess vegna er mikilvægt að félagsmenn Sjómannafélags Íslands bregðist við samþykkt félagsins og mótmæli henni harðlega.

Verði þessi gjörningur ekki afturkallaður er Sjómannafélag Íslands að skrifa nýjan kafla í sögu verkalýðshreyfingarinnar sem ekki er sómi af. Formenn VR, Eflingar stéttarfélags, Framsýnar stéttarfélags og Verkalýðsfélags Akraness skora því á forystu Sjómannafélags Íslands að virða lög og reglur sem gilda almennt um starfsemi stéttarfélaga og kjörgengi félagsmanna á vegum verkalýðshreyfingarinnar og afturkalla ákvörðun sína um brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur þegar í stað.

Aðalsteinn Árni Baldursson, Framsýn stéttarfélag
Sólveig Anna Jónsdóttir, Efling stéttarfélag
Vilhjálmur Birgisson, Verkalýðsfélag Akraness
Ragnar Þór Ingólfsson, VR

 

Sláturtíð Norðlenska á Húsavík lokið

0
Sigurður Þórarinsson bóndi í Skarðaborg í sauðfjárrétt Norðlenska

Sláturtíð Norðlenska á Húsavík lauk í gær, 30. október. Þetta er lengsta sláturtíð síðustu ára en slátrun hófst 30. ágúst. Alls komu 120 starfsmenn til starfa við sláturtíðina þetta haustið og af 14 þjóðernum. Alls störfuðu 175 manns í sláturtíðinni í haust. Frá þessu segir á Framsýn.is sem leit við hjá Norðlenska í vikunni.

Aldrei hefur fleiri gripum verið slátrað á Húsavík en um 95.436 gripum voru slátrað í haust sem er 78 gripum færri en í fyrra sem var metár í slátrun á Húsavík.

Meðalvigt dilka var með hærra móti þetta haustið en hún var 16,69 kíló.

Miðað við fjölda af slátruðu fullorðnu fé má reikna með því að sauðfé hafi heldur fækkað á upptökusvæði Norðlenska á Húsavík. Það er þó ekki um verulega fækkun að ræða.

Fleiri myndir má skoða hér.

 

Haustgleði Þingeyjarskóla

0

Haustgleði grunnskóla- og tónlistardeildar Þingeyjarskóla verður haldin að Ýdölum föstudaginn 2. nóvember og hefst klukkan 20:00. Sett verður upp leikritið Fólkið í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson.

Miðaverð 1500 krónur fyrir fullorðna og 500 krónur fyrir börn á skólaldri.
Frítt fyrir börn á leikskólaaldri og grunnskólanemendur Þingeyjarsveitar.
ATH.! Ekki er hægt að greiða með korti.

Sjoppa á staðnum.

Allir hjartanlega velkomnir.

Nemendur og starfsfólk Þingeyjarskóla

 

Sam Neill með aðalhlutverkið í endurgerð Hrúta

0
Michael Caton og Sam Neill munu leika bræðurnar í endurgerð Hrúta

Nýsjálenski leikarinn Sam Neill mun leika aðalhlutverkið í endurgerð Íslensku kvikmyndarinnar „Hrúta“ en tökur hófust í Westur Ástralíu „Great Southern region“ í október. Frá þessu segir á vefnum Variety.com.

Sam Neill er heimsþekktur kvikmyndaleikari, en hans þekktustu hlutverk voru í Jurassic ParkThe Piano og The Horse Whisperer svo að eitthvað sér nefnt.

Leikstjóri „Rams“ heitir Jeremy Sims og er hann Ástralskur. Frumsýna á myndina árið 2019.

Kvikmyndin Hrútar, sem tekin var upp í Bárðardal 2014-15, fjallar um tvo bræður sem búa hlið við hlið en hafa ekki talast við í 40 ár. Þegar riðuveiki greinist hjá öðrum þeirra neyðast þeir til þess að vinna saman.

Sam Neill í sinni þekktustu kvikmynd Jurassic Park

 

Skútustaðahreppur – Birkir Fanndal fékk Umhverfisverðlaunin 2018

0
Dagbjört Bjarnadóttir, Birkir Fanndal og Elísabet Sigurðardóttir

Á slægjufundi síðasta laugardag voru afhent Umhverfisverðlaunin 2018.  Birkir hefur með endurhleðslu varða á Mývatnsöræfum sýnt umhverfinu áhuga og umhyggju í verki. Jafnframt hefur Birkir komið fyrir gestabókum á fjallstoppum og áningarstöðum í sveitinni. Frá þessu segir á vef Skútustaðahrepps.

Þetta hefur aukið áhuga fólks á umhverfinu og vörðurnar dregið athygli vegfarenda að sögu svæðisins. Sveitarstjórnarfulltrúarnir Dagbjört Bjarnadóttir og Elísabet Sigurðardóttir afhendi Birki verðlaunin fyrir hönd umhverfisnefndar og sveitarstjórnar Skútustaðahrepps. Þetta er í þriðja skiptið sem þessi verðlaun eru afhent.

Auglýst var eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna og bárust þó nokkrar tilnefningar. Umhverfisnefnd þakkar innsendar tillögur, sem allar stóðu undir væntingum og bera vitni um snyrtimennsku og prýði. Þeir sem hlutu tilnefningar voru:

  • Lára og Bessi fyrir Lynghraun 7
  • Ásdís og Siggi fyrir Helluhraun 13
  • Birkir Fanndal fyrir vörður á Mývatnsöræfum og að koma fyrir gestabókum ásamt kössum fyrir þær
  • Lovísa og Hólmgeir fyrir Álftagerði 1
  • Sólveig og Eddi fyrir Skútahraun 12

 

Hjörleifur sigurvegari Framsýnarmótsins í skák

0
Verðlaunahafar Framsýnarmótsins

Hjörleifur Halldórsson SA vann sigur á hinu árlega Framsýnarmóti í skák sem fram fór á Húsavík um helgina. Hjörleifur fékk 5,5 vinninga af 7 mögulegum. Jan Olav Fivelstad TR. varð annar með 5 vinninga og Karl Egill Steingrímsson SA varð þriðji með 4,5 vinninga.

Sigurður Daníelsson var efstur heimamanna með 4,5 vinninga, Rúnar Ísleifsson var annar með 4 og Smári Sigurðsson og Hermann Aðalsteinsson fengu 3,5 vinninga. Kristján Ingi Smárason vann sigur í unglingaflokki með 1,5 vinninga.

Lesa má nánar um mótið hér.

 

Mikley – Þekkingarsetur í Mývatnssveit – Opnunarhátíð

0
Mývatn - Mikley

Þann 1. nóvember, verður Mikley, þekkingarsetur i Mývatnssveit opnað formlega. Hátíðin hefst kl 16:30 að Hlíðarvegi 6 í Reykjahlíð.  Boðið verður uppá  tónlistaratriði og veitingar úr héraði.

Þekkingarsetrið hefur núna aðsetur sitt við Hlíðarveg 6 í Reykjahlíðarþorpi, í björtu og opnu skrifstofurými. Það mun hýsa ólíka aðila, t.d. námsmenn, sjálfstætt starfandi einyrkja og stofnanir. Nú þegar eru þar starfandi Mývatnsstofa,  Vatnajökulsþjóðgarður, námsver og starfsstöð Þekkingnets Þingeyinga og Geochemý. Mývatnsstofa er samstarfsverkefni ferðaþjónustunnar á svæðinu, Geochemý eru sjálfstætt starfandi jarðfræðingar. Þekkingarnet Þingeyinga opnaði nú á ágúst starfstöð í Mývatnssveit með starfsmanni sem sinnir námsveri og þjónustu við námsmenn, símenntunarnámskeiðum á svæðinu og verkefnum á rannsóknarsviði stofnunarinnar.

Markmiðið með stofnun þekkingarseturins er margþætt, slík setur hafa ólík en jákvæð samfélagsleg áhrif þar sem þeim hefur verið komið á fót. Þá er m.a. horft til þess að bæta möguleika fólks með háskólamenntun til búsetu í sveitinni, viðhalda þeim störfum í þekkingarstarfsemi sem eru hér nú þegar, hvetja til þverfaglegrar samvinnu, hvetja til náms og rannsóknavinnu og laða hingað störf í þekkingarstarfsemi.

Undirbúningur verkefnisins hófst með því að á árinu 2015 var skipaður starfshópur sem kannaði möguleika á uppbyggingu fræða- eða þekkingarseturs í Mývatnssveit.  Þekkingarnet Þingeyinga sá um verkefnastjórn og Uppbyggingarsjóður Eyþings styrkti verkefnið. Hópurinn skilaði skýrslu í maí 2016 og þar kom fram sú niðurstöða að það væri bæði fýsilegt og gerlegt að reka þekkingarsetur í Mývatnssveit. Þá var ákveðið að hentugt húsnæði til að byrja með fyrir starfsemina væri í húsnæði Skútustaðahrepps sem er samliggjandi skrifstofu hreppsins í Reykjahlíðarþorpi en jafnframt yrði unnið áfram að framtíðarstaðsetningu setursins.

Mikley er stærsta eyjan í Mývatni en í mars 1858 var haldinn fundur í eyjunni þar sem ákveðið var að stofna lestrarfélag í sveitinni og stofna sparisjóð búlausra í sveitinni. Lestrarfélagið varð síðar að bókasafni Mývatnssveitar.

 

Miðstöð norðurslóðarannsókna opnuð að Kárhóli í Reykjadal

0
Kárhóll í Reykjadal

Rannsóknastöðin á Kárhóli í Reykjadal er samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana og var hún formlega tekin í notkun sl. mánudag að viðstöddum Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi.

Frá opnunardeginum. Mynd: Dagbjört Jónsdóttir

Á vef Stjórnarráðs Íslands segir að rannsóknastöðin, China-Iceland Arctic Observatory (CIAO) verði miðstöð fyrir vísindamenn sem rannsaka norðurslóðir í alþjóðlegu samstarfi, s.s. í háloftarannsóknum, rannsóknum á gufuhvolfi og veðurfræði, líf- og vistfræði, haffræði, jöklafræði, jarðfræði, rannsóknum á loftslagsbreytingum og umhverfisrannsóknum, fjarkönnun og sjávarútvegsfræði.

„Þessi rannsóknarstöð skapar vettvang og tækifæri fyrir rannsakendur og vísindafólk hvaðanæva úr heiminum til þess að nýta íslenska náttúru og staðhætti til enn frekari rannsókna. Við vitum að þær áskoranir sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér kalla á aukið samstarf, ekki síst á vísindasviðinu. Viðbrögð okkar við þeim áskorunum munu skipta miklu fyrir lífsgæði framtíðarinnar og því brýnt að stefnumótun ríkja á svæðinu byggi á rannsóknum og gagnreyndri þekkingu, yfirsýn og góðri samvinnu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar,, Lilja Alfreðsdóttir Mennta og menningarmálaráðherra og Dr. Xiangbin Cui, jöklafræðingur sem starfar hjá PRIC Mynd: Dagbjört Jónsdóttir

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar segir að tilkoma rannsóknarstöðvarinnar sé ákveðin lyftistöng fyrir nærsamfélagið og kærkomin viðbót í flóru atvinnulífsins á svæðinu: „Það er mikilvægt að fá starfsemi af þessu tagi hingað í Þingeyjarsveit, við höfum unnið að því að fá fleiri störf tengd rannsóknum og þekkingarsköpun svo þetta er jákvætt fyrir samfélagið. Það geta líka skapast ýmis tækifæri með tilkomu rannsóknastöðvarinnar, til að mynda samstarf við þær stofnanir sem fyrir eru eins og Framhaldsskólann á Laugum sem og sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu.“

Sérstök áhersla verður lögð á kynningu á vísindastarfi miðstöðvarinnar, meðal annars fyrir börn og ungmenni. Þar verður vísindastofa opin almenningi þar sem fyrst í stað verður lagt upp með kynningu á norðurljósum og eðli þeirra. Ísland er einn ákjósanlegasti staðurinn á norðurhveli jarðar til að rannsaka norðurljós en Frakkar, Bretar og Japanir eru meðal þjóða sem stundað hafa rannsóknir hér á landi um árabil. Í rannsóknastöðinni verður góð aðstaða fyrir vísindamenn til mælinga og athugana á norðurljósum og er stöðin búin fullkomnum norðurljósamyndvélum, litrófsmælum, segulsviðsmælum og öðrum þeim búnaði sem nútíma rannsóknir á norðurljósum krefjast.

Að þessu verkefni koma Rannís, sem leiðir samstarfið fyrir hönd Íslands og PRIC, heimskautarannsóknastofnun Kína, sem leiðir samstarf við kínversku aðilana.

 

Bingó, Forvarnar og skemmtikvöld í VMA.

0

Nemendur í Viðburðarstjórnun í VMA standa fyrir forvarnarviku í skólanum sem hefst núna á mánudaginn og nefnist EITT LÍF. Þar er tveir viðburðir opnir öllum, vonast er eftir góðri þátttöku ungs fólks, allt frá efstu bekkjum grunnskóla, foreldra og öllum sem áhuga hafa.

Þriðjudagskvöldið 23. okt. er BINGÓ kl. 19:00 í Gryfjunni, margir góðir vinningar, ágóði fer í Minningarsjóð Einars Darra. Spjaldið kostar 500kr.

Fimmtudagskvöldið 25. okt. kl.19:00 er Forvarnar-og skemmtikvöld.  

Eins og nafnið ber með sér verður bæði fræðsla og gaman. Minningarsjóðurinn stendur fyrir og styrkir þjóðarátak gegn misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja og annarra fíkniefna og hefur slagorðið „Ég á bara eitt líf“ Þau sem koma fram eru:  Frá minningarsjóði Einars Darra koma, móðir hans, Bára Tómasdóttir og systur hans Andrea Ýr og Aníta Rún. Saga Nazari upprennandi R&B listakona, óvirkur fíkill í bata, fyrir rúmu ári þótti henni lífið vonlaust, hún segir sögu sína og flytur lögin sín. Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúa á Akureyri, áður sjónvarpskona á N4. Stefán Waage trúbador frá Akureyri hefur verið að koma víða fram að undanförnu.       

Aðgangseyrir er 1000 kr. en 500 kr. fyrir grunnskólanema.

Frekari uppl. á Facebook síðunni eitt líf forvarnarvika vma.  Instagram undir @eittlifvma

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar lýsir áhyggjum sínum vegna einbreiðrar brúar yfir Skjálfandafljót

0
Brúin yfir Skjálfandafljót við Fosshól

Á 243. fundi Sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var í dag, var m.a. rætt um umferðarþunga við Goðafoss og um þá hættu sem skapast vegna einbreiðrar brúar yfir fljótið. Eftirfarandi var samþykkt á fundinum.

Sveitarstjórn lýsir áhyggjum sínum vegna þeirrar hættu sem skapast við einbreiða brú yfir Skjálfandafljót við Goðafoss þegar umferð er sem mest á svæðinu. Sveitarstjórn óskar eftir því við Vegagerðina að hún kanni kosti þess að setja upp umferðarstýrð ljós við brúna þar sem ný tvíbreið brú er ekki væntanleg á næstu árum samkvæmt samgönguáætlun. Sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir.

Alla fundargerðina má lesa hér.

 

Landsþing KÍ á Húsavík

0

38. landsþing Kvenfélaga-sambands Íslands var haldið á Fosshótel Húsavík dagana 12. – 14. október sl. Kvenfélagasamband Suður- Þingeyinga var gestgjafi landsþingsins sem bar yfirskriftina „fylgdu hjartanu”.

Á þinginu komu hátt í 200 kvenfélagskonur saman til skrafs og ráðagerða um störf sín í kvenfélögunum. Einnig voru framsöguerindi og pallborðsumræður um málefni hjartans og hjartaheilsu kvenna samkvæmt yfirskrift þingsins. Frá þessu segir á 640.is

Fv. Guðrún Þórðardóttir formaður KÍ, Mjöll Matthíasdóttir formaður Kvenfélagsambands Suður-Þingeyinga og Una María Óskarsdóttir sem gerð var að heiðursfélaga KÍ á þinginu.

Þá var fyrirlestur og fræðsla um verkefni Kvenfélagasambandsins „Vitundarvakning um fatasóun“ sem og fyrirlestur sinn um „jákvæð samskipti“ sem mun án efa efla kvenfélagskonur í sínum góðu verkum eins og segir í fréttatilkynningu.

Forseti Íslands tekur við gjöfinni

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands heimsótti og ávarpaði landsþingið. Í ávarpi sínu minnti forseti á mikilvægt framlag kvenfélaga til félagslífs í landinu og þakkaði fyrir það starf. Guðni var leystur út með góðum gjöfum frá  KÍ og Kv.SÞ. Hér er Guðrún Þórðardóttir formaður KÍ að afhenda forsetanum svuntu sem ætti að koma að góðum notum við eldhússtörfin á Bessastöðum.

Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) var stofnað árið 1930 sem sameiningar og samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu.  Innan KÍ starfa 152 kvenfélög í 17 héraðs- og svæðasamböndum með um 4500 félaga.

Á undaförnum árum hefur afrakstur vinnu kvenfélaganna, numið tugi milljóna á ári hverju, sem runnið hefur til hinna ýmsu menningar- líknarstofnana og til annarra samfélagsverkefna.

Þar sem þingsetning fó fram þann 12. október á bleika daginn höfðu aðstandendur þingsins; Kvenfélagasamband Íslands og Kvenfélagasamband Suður- Þingeyinga ákveðið að styrkja sérstaklega við Bleiku slaufuna með kaupum á varningi bleiku slaufunnar sérstaklega fyrir hvern þingfulltrúa, sölu happdrættismiða og hvetja konur til að mæta í bleiku á þingsetninguna sem fór fram í Húsavíkurkirkju.

Fleiri myndir sem ljósmyndari 640.is tók í Húsavíkurkirkju þegar þingið var sett, í móttöku í Safnahúsinu og frá hádegisverði á Fosshótel Húsavík má skoða hér

Myndir Hafþór Hreiðarsson.

 

 

 
 

VINSÆLAST Á 641.IS

VEGASJÁ

FÆRÐ