Þingeyskir vegir fá flestir aðeins 1 eða 2 stjörnur í úttekt EuroRAP

0
Einkunnagjöf vega í Þingeyjarsýslu, Mynd 1.

Sam­kvæmt Eur­oRAP ör­ygg­is­mat­i á 4.200 kílómetrum af þjóðvegakerfinu á Íslandi er mörgu ábóta­vant í ís­lenska vega­kerf­inu, en hægt er að sjá stjörnu­gjöf þessara veg­kafla á vef EuroRAP. Vegirnir voru kortlagðir á ár­un­um 2012-2017 með bíl sem út­bú­inn er mynd­bands­upp­töku­vél­um. frá þessu segir á mbl.is

641.is kannaði sérstaklega vegi í Þingeyjarsýslu og kanski kemur það engum á óvart að enginn vegur eða vegkafli í Þingeyjarsýslu fær 5 störnur í einkunn. Örstuttur kafli á Laugum og enn styttri kafli á Raufarhöfn fá 4 stjörnur í einkunn á meðan að allir aðrir vegir sem skoðaðir voru fá þrjár stjörnur eða minna. Raunar er það svo að næstum því allt vegakerfið sem tekið var út í Þingeyjarsýslu fær aðeins 1 eða 2 stjörnur í einkunn. (sjá mynd 1 og 2)

Ef vegkaflinn milli Húsavíkur og Akureyrar er skoðaður sérstaklega sést að vegurinn fær 1 til 2 stjörnur í einkunn að lang mestu leiti. Aðeins stuttur kafli í Aðaldalshrauni fær 3 stjörnur í einkunn og stuttur kafli í og við Húsavík

Ef vegurinn frá Húsavík austur til Raufarhafnar og Þórshafnar er skoðaður fær hann aðeins betri einkunn heldur en vegurinn milli Húsavíkur og Akureyrar, því nokkrir kaflar á veginum austur frá Húsavík fá 3 stjörnur í einkunn. (Sjá mynd hér að neðan)

Vegir í Norður-Þingeyjarsýslu fá skárri einkunn. smella á mynd til að skoða stærri útgáfu

Ef þjóðvegur 1. frá Akureyri til Egilsstaða er skoðaður sérstaklega, sést að hann fær ekki góða einkunn. Vegurinn er metinn 1 til 2 stjörnu vegur næstum því alla leið. Ef undan er skilinn stuttur kafli upp á 4. stjörnur á Laugum, er kaflinn rétt við brúna yfir Jöklusá á Fjöllum og síðan vegurinn í gegnum Fellabæ rétt við Egilsstaði, einu staðirnir sem ná 3 stjörnum í einkunn á allri þessari leið.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum úr gagangrunninum voru margir vegir ekki teknir út af EuroRAP, eins og td. Bárðardalsvegir báðir, vegurinn í Út-kinn, Fnjóskadalur og Kísilvegur. Hefðu þessir vegir verið með í úttektinni hefðu þeir sennilega fengið nokkrar mínus stjörnur.

Athygli skal vakinn á því að til þess að skoða betur hvaða vegir fá stjörnugjöf, þarf að skrá sig inn á vef EuroRAP

Einkunnagjöf vega í Þingeyjarsýslu, Mynd 1.

Stjörnugjöf.

1 stjarna svartur
2 stjörnur rauður
3 stjörnur ljósbrúnn
4 stjörnur gulur
5 stjörnur grænn

 

Kristjana Freydís sigurvegari Tónkvíslarinnar 2018

0
Kristjana Freydís singur sigurlagið

Kristjana Freydís vann Tónkvíslina 2018, söngkeppni Framhaldsskólans á Laugum sem fram fór nú fyrr í kvöld í íþróttahúsinu á Laugum. Hún söng lagið „Before he cheats“. Þórdís Petra varð í öðru sæti með lagið „Love on the brain“ og Eyþór Kári hreppti þriðja sætið með lagið „This love“. Kristjana Freydís verður þar með fulltrúi Framhaldsskólans á Laugum í söngkeppni Framhaldsskólana.

Hafdís Inga söng sigurlag grunnskólakeppninar

Hafdís Inga úr Borgarhólsskóla vann grunnskólahlutann með laginu „All of me“. Elísa, einnig úr Borgarhólsskóla, varð í öðru sæti með lagið „My kind of woman“ og Marge Alavere Stórutjarnaskóla, varð í þriðja sæti með lagið „Hallelujah“.

Flutningur Þórdísar Petru á laginu „Love on the brain“ var síðan valið vinsælast atriðið í símakosningu meðal áhorfenda.

Helgi Björns skemmti áhorefndum í dómarahléinu

Helgi Björnsson skemmti gestum í dómarahléinu þar sem hann söng nokkur af sínum þekktustu lögum, við góðar undirtektir áhorfenda.

Myndbönd af sigurlögunum má skoða hér fyrir neðan.

Myndir frá Tónkvísl 2018 má skoða á facebooksíðu 641.is hér og hér

 

Stórtónleikar Hreims í Eldborgarsal Hörpu 24. mars

0

Karlakórinn Hreimur verður með stórtónleika í Eldbogarsal Hörpu í Reykjavík laugardaginn 24. mars nk. kl 16:00. Síðastliðið vor sungu með kórnum Gissur Páll Gissurarson og Margrét Eir og koma þau nú aftur fram með kórnum á fyrstu stórtónleikum Karlakórsins Hreims í Eldborgarsal Hörpu.

Auk þeirra Gissur og Margrétar syngja einsöngvarar úr röðum kórmanna þeir Ásgeir Böðvarsson og Sigurður Ágúst Þórarinsson.

Með kórnum á sviðinu verður hljómsveit skipuð þeim Borgari Þórarinssyni, Pétri Ingólfssyni og Gunnari Illuga Sigurðssyni.

Efnisskrá kórsins er ákaflega fjölbreytt allt frá hefðbundnum karlakórssöng yfir í dægurlagatónlist. Á söngskrá hjá kórnum þetta kvöld eru meðal annars lög frá Vestmannaeyjum. Hress lög sem allir þekkja, skemmtilega útsett fyrir karlakór.

Karlakórinn Hreimur var stofnaður árið 1975 í Þingeyjarsýslu, hann hefur frá stofnun verið einn stærsti kór sýslunnar. Í dag er hann skipaður um 60 mönnum sem flestir koma úr Þingeyjarsýslum. Stjórnandi kórsins er Steinþór Þráinsson og undirleikari Steinunn Halldórsdóttir.

Hreimur hefur á rúmlega 40 ára ferli gefið út fjölda hljómplatna og geisladiska, farið í níu utanlandsferðir og víða haldið tónleika í kirkjum, samkomuhúsum og á götum úti. Auk þess hefur kórinn sungið vítt og breytt um landið bæði einn og sér og ásamt fleiri kórum.

Hreimur hefur frá upphafi haft Ýdali í Þingeyjarsveit sem sýna bækistöð og heldur þar árlegan Vorfagnað með góðum gestum og hafa mörg þekkt nöfn sungið með kórnum í gegnum tíðina.

Einn meðlimur Hreims, Jónas Þór Viðarsson, ætlar að halda upp á afmælið sitt í Hörpu og í meðfylgjandi myndbandi býður hann öllum í afmælið sitt í Hörpu, svona í leiðinni.

Opið bréf til næstu sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar

0
Jónas á Lundarbrekku

Samgönguráðherra boðar meira fé til vegamála og er það fagnaðarefni. Ég tel nauðsynlegustu framkvæmd í vegamálum sveitarfélagsins vera nýja brú á Skjálfandafljót við Fosshól. Ég skora á og ætlast til að sveitarstjórnarfólk berjist fyrir nýrri brú með öllum ráðum.

Svo eru þrjár aðrar einbreiðar brýr hér í nágreni, sem breikka þarf, Jökulsá á Fjöllum við Grímstaði, Skjálfandafljót við Ófeigsstaði og Kaldakvísl á Tjörnesi.

Tímaspursmál er hvenærstórslys verður á eða við brúna við Fosshól, og þá farast einhverjir tugir. þetta er einn hættulegasti staður á hringveginum.

Jónas á Lundarbrekku

 

Tónkvíslin er á morgun – 20 söngatriði á dagskrá

0
Daginn fyrir Tónkvísl 2018

Annað kvöld kl 19:30  verður Tónkvíslin, söngkeppni Framhaldsskólans á Laugum haldin í íþróttahúsi Framhaldsskólans að Laugum. Þar munu söngvarar etja kappi um Tónkvíslina, verðlaunagrip keppninnar. Sigurvegari fær rétt til þess að taka þátt í Söngkeppni Framhaldsskólanna nú í vor.

Viðburðurinn er gríðarlega metnaðarfullt verkefni framhaldsskólanema á Laugum, er sjá alfarið um framkvæmd og undirbúning. Allt er unnið í sjálfboðavinnu, en þeir sem óska eftir því geta fengið verkefni sín metin til eininga. Þeir nemendur sem kjósa að taka þátt skapa sér því mikilvægan sess innan viðburðarins og öðlast þar ómetanlega reynslu.

Tónkvíslin hóf göngu sína sem framhaldskólasöngkeppni árið 2006, en hefur nú stækkað umgjörðina og eiga nemendur í efstu bekkjum grunnskóla auk framhaldsskólanema, tækifæri til að taka þátt. Grunnskólanemendur frá Þingeyjarskóla, Borgarhólsskóla,  Stórutjarnaskóla og Öxarfjarðarskóla taka þátt í Tónkvíslinni og veitt eru verðlaun bæði í grunnskólaflokki og framhaldsskólaflokk. Að þessu sinni munu 20 atriði taka þátt og var í fyrsta sinn í ár haldin undankeppni þar sem aðsóknin var gríðarleg.

Dómarar Tónkvíslarinnar verða þau Camilla Rut, Borgar Þórarins og Lára Sóley, en þau þekkja öll vel til tónlistar. Dómarar velja efstu þrjú sætin á báðum hlutum en áhorfendur greiða sínu uppáhaldssöngatriði atkvæði sitt í símakosningu og velja þannig vinsælasta atriðið. Öll lögin hafa númer 900-91xx.

Hljómsveit Tónkvíslarinnar sem heitir Skilnaðarþjónustan, er að meirihluta skipuð nemendum við skólann og hafa þeir æft mikið að undanförnu.

Helgi Björns verður sérstakur gestur Tónkvíslarinnar í ár og mun hann skemmta gestum á meðan dómarar gera upp hug sinn og niðurstaðan úr símakosningunni liggur fyrir.

Tónkvíslin verður í beinni sjónvarpsútsendingu á N4, fyrir þá sem ekki komast á staðinn. Exton sér um hljóðbúnað og ljósabúnað og Kukl um tökubúnað.

Tónkvíslin hefst stundvíslega kl 19:30 annað kvöld. Hægt er að kaupa miða rafrænt á miðasöluvefnum tix.is. Þar er hægt að borga með greiðslukorti eða í gengum smáforritin Aur og Kass. Einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn.

Almennt miðaverð: Kr. 3000
Börn 6 – 15 ára Kr. 2000
Frítt fyrir börn undir 6 ára

Meðfylgjandi myndir voru teknar á æfingu í kvöld.

Mikill tækjabúnaður er notaður á Tónkvísl
Meira dót
Enn meira dót
Sviðið

Framsýn – Mótmæla ofurhækkunum hjá Landsvirkjun

0

Framsýn, stéttarfélag hefur ritað stjórn Landsvirkjunar bréf með áherslu á hækkun launa til starfsmanna á gólfinu.  Það er því von Framsýnar, stéttarfélags að sá velvilji stjórnar Landsvirkjunar til að hækka eigin laun og laun lykilstjórnenda fyrirtækisins verði til þess hún bregðist vel við beiðni stéttarfélagsins um að almennir starfsmenn innan Landsvirkjunar fái einnig notið hluta þess mikla hagnaðar sem fyrirtækið skilaði á síðasta ári, ekki bara stjórnendur. Sjá bréfið:

Beiðni um endurskoðun á kjörum starfsmanna

Fram hefur komið í fjölmiðlum að staða Landsvirkunnar sé með miklum ágætum og fyrirtækið hafi hagnast um  11,2 millj­arða króna á síðasta ári, en það er tölu­vert meiri hagnaður en árið áður þegar hann nam 6,7 millj­örðum króna. Selt magn nam 14,3 tera­vatt­stund­um, sem er yfir 5% aukn­ing frá fyrra ári.

Í til­kynn­ingu um árs­upp­gjörið er haft eft­ir Herði Arn­ar­syni for­stjóra að rekst­ur­  hafi gengið vel á ár­inu 2017. Tekj­ur hafi verið meiri en nokkru sinni fyrr og sleg­in hafi verið öll met í orku­sölu- og vinnslu. Þá hafi ytri aðstæður verið hag­stæðar þar sem ál­verð hafi hækkað um 23% á milli ára. 

Að sjálfsögðu ber að fagna þessu að mati Framsýnar, stéttarfélags. Það verður hins vegar ekki gert með því að færa lykilstjórnendum fyrirtækisins fáheyrðar launahækkanir meðan aðrir starfsmenn fyrirtækisins, það er starfsmennirnir á gólfinu, sitja eftir á strípuðum töxtum samkvæmt kaupskrá Starfsgreinasambands Íslands og Landsvirkjunar.

Svo vitnað sé áfram í fjölmiðla þá hækkuðu laun for­stjóra Lands­virkj­unar um 700 þús­und krónur á mán­uði á árs­grund­velli og eru nú 2,7 millj­ónir króna. Laun stjórn­ar­manna í Landsvirkjun hækk­uðu um tæp 50 pró­sent. Sam­an­lagt deildu fimm stjórn­ar­menn með sér 525 þús­und krónum til við­bótar á mán­uði. Þetta var ákveðið af starfs­kjara­nefnd Landsvirkjun­ar, sem í sitja þrí­r ­stjórn­ar­mann­anna.

Með bréfi þessu óskar Framsýn, stéttarfélag eftir viðræðum við Landsvirkjun um leiðréttingu á kjörum félagsmanna sem starfa við virkjanir fyrirtækisins á félagssvæði Framsýnar, það er við Þeistareykjavirkjun, Kröfluvirkjun og Laxárvirkjun.

Í viðræðum við Landsvirkjun hefur Framsýn komið að því innan Starfsgreinasambands Íslands að jafna kjör kynjanna innan fyrirtækisins. Að mati félagsins ætti næsta skref í jöfnun kjara innan Landsvirkjunar að vera að  ofurhækkanir til lykilstjórnenda flæði jafnframt til annarra starfsmanna. Höfum í huga að hagnaður fyrirtækja verður ekki til í excel skjali, mann-auðurinn er lykillinn að góðum rekstri, sem ber að virða.

Framsýn er fullkunnugt um að stjórnarformaður Landsvirkjunar er jafnframt formaður Kjararáðs, sem hefur hækkað laun æðstu embættismanna langt umfram það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði undanfarin misseri. Embættismanna, sem fullir af gleði rúnta þessa dagana um borg og bæ á kostnað ríkisins, þ.e. skattgreiðenda. Hækkanir á kjörum sem sagðar eru taka mið af almennum launabreytingum á íslenskum vinnumarkaði.

Það er því von Framsýnar, stéttarfélags að sá velvilji stjórnar Landsvirkjunar til að hækka eigin laun og laun lykilstjórnenda fyrirtækisins verði til þess hún bregðist vel við beiðni stéttarfélagsins um að almennir starfsmenn innan Landsvirkjunar fái einnig notið hluta þess mikla hagnaðar sem fyrirtækið skilaði á síðasta ári.

 

Húsöndin með hreiðurstað á vef Gjallanda

0

Húsöndin, sem hefur tekið við hlutverki Mýflugunnar í Mývatnssveit, hefur gert sér hreiðurstað á vefsíðu menningarfélagsins Gjallanda í Mývatnssveit.

Eldri tölublöð Mýflugunnar, verða þó áfram aðgegnileg á sínum stað hér á 641.is.

Hér má skoða öll tölublöð Húsandarinnar sem komin eru út.

 

Og enn er svarað

0

Sæl félagi Örn, leitt að heyra að þú sért ekki ánægður með öll svörin sem þú hefur fengið frá meirihlutanum að undanförnu. En verð að játa að ég átti svo sem ekki von á því.

Verra þykir mér þegar þú segir mig ljúga.

Svar okkar um kostnað við húsnæði Þingeyjarskóla við sameiningu tveggja starfsstöðva í eina stendur. Á árunum 2015 og 2016 var eignfært vegna breytinga 49.139.206 krónur og á sömu árum voru gjaldfærðar á rekstur, vegna almenns viðhalds, krónur 30.364.704.   Hægt er að fá staðfestingu á þessum tölum á skrifstofu og hjá endurskoðanda sveitarfélagsins.

Hins vegar þykir mér ábyrgðarhluti að kasta fram tölu eins og tvöhundruð milljónum í þessa umræðu og skora á þig að upplýsa hvaðan sú tala er kominn. Í því samhengi er rétt að komi hér fram að starfsfólk á skrifstofu sveitarfélagsins kannast ekki við að þú hafir leitað þangað eftir upplýsingum og verið bent á að skoða ársreikninginn.

Heildarlaun sveitarstjóra eru í samræmi við kjör þeirra almennt í sveitarfélögum á landinu enda erum við í samkeppni við þau um gott fólk. Og ef ég skoða launin í samhengi við vinnuframlag og hæfni sveitarstjóra finnst mér ekki of mikið í lagt.

Já, starfsmenn sveitarfélagsins eru margir en hefur farið fækkandi og taka þeir laun samkvæmt kjarasamningum. Á bls. 12 í ársreikningi 2016 kemur fram að stöðugildin séu að meðaltali 66 og laun og launatengd gjöld 534 milljónir. Samkvæmt ársreikningi 2015 voru stöðugildin að meðaltali 72 og laun og launatengd gjöld 581 milljón (bls. 11).

Hvað Iðjugerði varðar þá er það einu sinni svo að ákveðinn rekstrarkostnaður er til staðar þó engin starfsemi fari þar fram.

Kostnaður vegna Iðjugerðis sem gjaldfærður var á Aðalsjóð á árinu 2017 var eftirfarandi:

Húsaleiga gjaldfærð á skrifstofu 2.856.420
Húsaleiga – gjaldfærður styrkur til björgunarsveitar 1.746.168
Rafmagn 62.142
Hiti 446.202
Öryggiskerfi Securitas 129.919
Sími 464 3510 52.235
   
Samtals 2017 5.293.086

 

Eins og sést er leigan langstærsti hluti kostnaðarins. Leigan er tekjufærð á Eignasjóð sem á og rekur húsið. Sum ár rekur Eignasjóður húsið með hagnaði en önnur með tapi, fer mest eftir því hvort eitthvað er unnið í viðhaldi því viðhaldskostnaður er fljótur að hlaupa á milljónum ef eitthvað þarf að gera. Og öllum húsum þarf að halda við fyrr eða síðar. Þessi leiga er útreiknuð af endurskoðendum og er það sem Eignasjóður þarf að hafa í leigu til lengri tíma til að viðhalda eigninni þannig að verðmæti hennar haldist. Eflaust má deila um hvað er hæfileg leiga og einhverjir geta haft tilfinningu fyrir því að leigan ætti að vera einhver önnur en þetta. En við teljum réttara að nota tölur sem byggja á áratuga reynslu af rekstri húsnæðis frekar en tilfinningu.

Nú er svo komið að mér finnst þessi umræða komin á það tilfinningalega plan að hún eigi í raun betur heima í eldhúsi en á opinberum vettvangi. Kemur því hér amen eftir efninu eins og Séra Sigvaldi sagði um árið.

En senn vorar og þá verður gengið til sveitarstjórnaskosninga og þar mun A-listinn listi Samstöðu bjóða fram.

Hvet ég þig til að koma á kosningafundi og leggja þar fram spurningar sem á þér brenna. Eins hvet ég þig til að kynna þér kosningastefnu A-listans þegar hún kemur fram og leggja okkur síðan lið við að halda áfram að byggja betra og bjartara samfélag í Þingeyjarsveit.

Með vinsemd

Arnór Benónýsson

 

Vorgleði Þingeyjarskóla fer fram 15. mars kl 20:00

0

Vorgleði grunn- og tónlistardeildar Þingeyjarskóla verður haldin að Ýdölum fimmtudaginn 15. mars og hefst klukkan 20:00.  Sýnt verður leikritið Fólk og ræningjar í Kardemommubæ eftir Thorbjörn Egner í  umsjón miðstigs og  1. og 2. bekkja.

Að lokinni sýningu verða kaffiveitingar og skólahljómsveitir Þingeyjarskóla munu leika nokkur lög.

Miðaverð 2000 krónur fyrir fullorðna og 1000 krónur fyrir börn á skólaldri.

Frítt fyrir börn á leikskólaaldri og grunnskólanemendur Þingeyjarsveitar.

ATH.! Ekki er hægt að greiða með korti.

Allir hjartanlega velkomnir.

Nemendur og starfsfólk Þingeyjarskóla

 

Enn er spurt

0
Örn Byström Jóhannsson

Sæll félagi Arnór. Mikið er nú ánægjulegt að þú hafir gaman að bréfaskirftum okkar á þessum vettfangi og sé ég því enga ástæðu til þess að við félagarnir hættum þeim og að ég sé enga ástæðu til þess að breyta því fyrirkomulagi. Við verðum jú að hafa gaman af tjáskiptum. Mun ég því gleðja þig með óbreyttu fyrirkomulagi enda geta þá fleiri en ég fengið svör við spurningum sem vakna við eldhúskollaspjall okkar sveitarvarga.

Það er bara einu sinni þannig að ég sem gamall sveitarstjórnarmaður hef en áhuga á rekstri þess sveitarfélags sem ég bý í ,merkilegur assskoti. Ég verð nú samt að hryggja þig með því að ég er ekki ánægður með öll svörin frá þér og hallast að því að þú betrumbætir sumt og þá að þú gerir það að ráðnum hug. Það finnst mér ekki gott né sannfærandi framsetning. Einkum þegar tölur hafa komið fram áður sem standast ekki við það sem þú framsetur. Þar á ég við t.d. kostnað við Hafralækjaskóla,þar ferð þú beinlínis með rangt mál.

Óska ég því eftir réttum tölum þar um, og reyndar skil ekki hvað þarf að fela þar. Mín tilfynning er sú að kostnaðurinn þar sé um kr. -200 milljónir en ekki 49 milljónir. Leiðréttu mig fari ég með rangt mál.

Mér persónulega finnst vel í lagt að sveitarstjóri hafi hátt í ráðherralaun á mánuði, allavegana er hún hærri launuð en alm. þingmaður. Maður spyr sig ,er þetta launastefna ykkar hjá sveitarfélaginu ?

Sitja þá allir starfsmenn við það borð ?-og hvað eru starfsmenn sveitarfélagssins margir ? Ég veit að spurt er erfiðra spurninga ,spurninga sem ég undirritaður finn ekki augljóslega í reikningum sveitarfélagssins, þótt mér sé vísað þangað af starfsmönnum sveitarfélagssins til að afla mér svara. Ég sé þar að 60% af tekjum sveitarfélagssins fara í laun starfsmanna, sem segir að af -Einum milljarði í tekjur á ári fara 600 milljónir í launakostnað og þar af hefur sveitarstjóri kr. -Fjórtan milljónir og tvöhundruð þúsund- auk hlunninda.

Og eitt að lokum , hvrenig má það vera að kostnaður sveitarfélagssins á eign sinn í Iðjugerði sé kr.- Fimm milljónir-5.000  á ári ? – þar sem engin starfssemi á vegum sveitarfélagssins fer þar fram ?

Fasteignir sveitarfélagssins er sér kapitali útaf fyrir sig og vakna þar margar spurningar sem kastað verður kannski fram við frekari tækifæri.

Með vinsemd,og kannski atkvæði.Kannski-kannski ekki.

Örn Byström Einarsstöðum.

 

Jónas Egilsson kjörinn formaður HSÞ

0
Jónas Egilsson var kjörinn formaður HSÞ í dag

Jónas Egilsson Ungmennafélagi Langnesinga var í dag kjörinn formaður HSÞ á ársþingi sambandsins sem fram fór í Ýdölum í Aðaldal. Jónas tekur við formennsku í HSÞ af Anítu Karin Guttesen sem gengt hefur formannsembættinu sl. þrjú ár. 58 þingfulltrúar frá 20 aðildarfélögum HSÞ sátu ársþingið sem er afar góð mæting. Aðeins vantaði þingfulltrúa frá tveimur aðildarfélögum HSÞ

Þingfulltrúar samþykktu m.a. tillögu um mótun íþrótta og æskulýðsstefnu HSÞ – „Æfum alla ævi“ og einnig var samþykkt tillaga þar sem nýkjörin stjórn HSÞ er hvatt til þess að vinna að því að gera HSÞ að fyrirmyndarhéraði innan UMFÍ.

fulltrúar frá ÍSÍ og UMFÍ voru gestir ársþingsins og afhentu þeir þremur einstaklingum af starfssvæði HSÞ starfsmekri UMFÍ og silfurmerki ÍSÍ.

Guðrún Kristinsdóttir Völsungi var sæmd starfsmekri UMFÍ fyrir störf sín fyrir Völsung.

Í umsögn um Guðrúnu segir:

Guðrún kom fyrst til íþróttafélagsins Völsungs árið 1980 og sá þá um leikjanámskeið fyrir Völsung. Hún flutti svo til Húsavíkur árið 1986 og stofnaði þá strax fimleikadeild innan Völsungs og var formaður deildarinnar í um 20 ár. Hún hefur starfað sem þjálfari, stjórnarmaður og formaður deildarinnar í um 32 ár. Hún tók við sem formaður Íþróttafélagsins Völsungs árið 2010 og verið það síðan. Þar hefur hún unnið mikið og gott starf og meðal annars leitt félagið í gegnum þá vinnu að verða eitt af fyrirmyndarfélögum ÍSÍ, sem félagið varð árið 2015.

Guðrún hefur verið viðriðin starfið hjá Völsungi sem nefndarmaður, foreldri, og svo sem formaður félagsins frá árinu 2010 og komið að flestum íþróttagreinum sem sjálfboðaliði. Einnig hefur hún stundum leyst framkvæmdastjóra félagsins af.

Gunnar Gunnarsson frá UMFÍ afhenti Guðrúnu Kristinsdóttur Völsungi starfsmekri UMFÍ

Kolbrún Ívarsdóttir Mývetningi var sæmd silfurmerki ÍSÍ

Í umsögn um Kolbrúnu segir:

Kolbrún eða Kolla eins og hún er jafnan þekkt hefur unnið ötult sjálfboðastarf í þágu íþróttahreyfingarinnar í Mývatnssveit í mörg ár. Hún sat í stjórn Mývetnings íþrótta- og ungmennafélags í nokkur ár, bæði sem gjaldkeri og ritari. Hún hefur ávallt staðið við bakið á sínum börnum sem og öðrum börnum í sveitinni, fylgt þeim á æfingar og keppnir um land allt. Hún var einn af drifkröftunum þegar skíðastarf Mývetnings var keyrt af stað og var potturinn og pannan í allri vinnu tengdu starfinu. Eftir að starfið lagðist að mestu niður hefur Kolla keyrt allt að tvisvar til þrisvar í viku til Akureyrar yfir vetrartímann með drengi sína tvo á skíðaæfingar. Og þar hefur hún svo staðið vaktina á mótum og keppnisferðum Skíðafélags Akureyrar. Frá því að Mývatnsmaraþonið var fyrst haldið sumarið 1995 hefur Kolla ávallt verið við vinnu við það, ýmist á drykkjarstöð, skráningu eða í tímatöku. Kolla sat einnig í stjórn HSÞ árin 2014-2016 sem gjaldkeri. Sjálfboðastarfið er gríðalega mikilvægt í öllu íþróttastarfi og það er litlu íþróttafélagi eins og Mývetningi mjög mikilvægt að eiga svona frábæran sjálfboðaliða sem alltaf er klár í slaginn eins og hún Kolla er og hún er vel að þessari viðurkenningu komin.

Baldvin Kristinn Baldvinsson Hestamannafélaginu Þjálfa var sæmdur silfurmerki ÍSÍ.

Í umsögn um Baldvin segir:

Baldvin Kristinn Baldvinsson félagsmaður í Hestamannafélaginu Þjálfa hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins í áratugi.

Hann gekk til liðs við hestamannafélagið á unglingsárum og hefur starfað með og fyrir félagið allar götur síðan, hefur hann setið í stjórn félagsins þó nokkrum sinnum og gengt þar öllum stöðum.

Hefur hann setið í nefndum og ráðum LH fyrir hönd félagsins, komið að uppbyggingu  keppnisvæðisfélagsins sem og annari uppbyggingu vegna hestamennsku á svæðinu, á samt því að hafa byggt upp góða aðstöðu hjá sjálfum sér sem hann hefur aðstoðað félagið við að halda utan um starfsemi æskulýðsdeildar hestamannafélagsins Þjálfa, hefur hann þá lagt til aðstöðu og hross svo börn og unglingar sem ekki eiga hross geti einnig komist í kynni við hesta.

Baldvin byrjaði ungur í hestamennsku, hann er fæddur árið 1950 og þegar hann var tíu ára að aldri hafði hann safnað sér nægum aur til að fara vestur á Silfrastaðarétt þar sem hann keypti sitt fyrsta folald, ekki hefur Baldvin fengist til að tala mikið um gæði þessa hross en ári síðar eignaðist faðir hann meri og undan hann kom hryssan Toppa sem Baldvin tamdi og sýndi á landsmóti á Hólum 1966 og síðan þá hefur hrossarækt átt hug hans allan.

Baldvin hefur verið ötull við að halda merkjum hestamennskunar á lofti og alltaf stutt vel við bakið á þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor á þeirri braut , hann er höfðingi heim að sækja og er alltaf reiðubúinn að miðla fróðleik og aðstoða í hverju sem upp kann að koma.

Ræktunarbú Baldvins í Torfnesi hefur marg oft verið tilnefnt sem rætunarbú árins og einnig hlotið slíka nafnbót, hefur hann ræktað mörg heiðursverðlauna hross og hafa hross frá honum getið sér góð orðs á keppnisbrautum bæði hér heima sem og erlendis.

Baldvin Kr Baldvinsson er vel að þessari viðurkenningu komin vegan brennandi áhuga síns og þrautseigju bæði í ræktunar sem og félagsstarfi í þágu hestamennskunar.

Meðfylgjandi myndir frá ársþingi HSÞ tók Sigurbjörn Ásmundsson og Hermann Aðalsteinsson.

Jónas Egilsson var kjörinn formaður HSÞ í dag
Íþróttafólk HSÞ 2017. (ekki gátu allir verið viðstaddir og sendur staðgengla í sinn stað)
Nýr formaður HSÞ Jónas Egilsson og fráfarandi formaður Aníta Karin Guttesen
Frá ársþingi HSÞ í Ýdölum

 

Eyþór Kári Ingólfsson er íþróttamaður HSÞ 2017

0
Eyþór Kári Ingólfsson er íþróttamaður HSÞ 2017

Eyþór Kári Ingólfsson var í dag valinn íþróttamaður HSÞ 2017 á ársþingi HSÞ sem var haldið í Ýdölum. Eyþór, sem einnig var valinn frjálsíþróttamaður HSÞ, var valinn úr hópi átta íþróttamanna sem valdir voru íþróttamaenn ársins í hverri íþróttagrein fyrir sig á ársþinginu.

Í umsögn um Eyþór segir:

Eyþór Kári Ingólfsson hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri. Hann hefur prófað margar greinar og náð góðum árangri í þeim flestum. Síðasta tímabil hefur hann lagt áherslu á hástökk og stangarstökk og verið að gera það mjög gott. Eyþór stóð sig mjög vel í frjálsum á árinu 2017.  Á stórmóti ÍR sem fram fór í febrúar varð hann í 3.sæti bæði í hástökki og stangarstökki. Á MÍ 15-22 ára innanhúss varð hann í 6.sæti í stangarstökki en með persónulega bætingu. Hann varð í 1. sæti í hástökki og stangarstökki á sumarleikum HSÞ og með persónulega bætingu í stangarstökkinu. Á unglingalandsmótinu varð hann í 3. sæti í hástökki en samtals bætingar í 5 greinum en Eyþór hefur metnað fyrir að keppa í sem flestum greinum og gerir vel.  Á UFA móti seinnipartinn í sumar varð hann í 1.sæti í stangarstökki og hástökki og 2.sæti í 100m hlaupi. Á MÍ 15-22 ára utanhúss í ágúst náði hann einnig 3. sæti í stangarstökki.

Fyrir utan góðan árangur í frjálsum þá hefur Eyþór verið samviskusamur að mæta á æfingar og sýnt mikinn metnað í því sem hann er að gera. Hann hefur alltaf verið tilbúinn að aðstoða þjálfara, hvort sem það er á æfingum eða taka að sér æfingar í afleysingu þjálfara

Eftirtaldir voru valdir íþróttamenn ársins í hinum ýmsu greinum:

Dagbjört Ingvarsdóttir Knattspyrnumaður HSÞ
Pétur Þórir Gunnarsson Glímumaður HSÞ
Tómas Veigar Sigurðarson Skákmaður HSÞ
Anna Halldóra Ágústdóttir Langhlaupari HSÞ
Sladjana Smiljanic Blakmaður HSÞ
Sverrir Sigurðsson Bocciamaður HSÞ
Gylfi Sigurðsson Skotmaður HSÞ
Eyþór Kári Ingólfsson Frjálsíþróttamaður HSÞ
Hvatningarverðlaun: Elmar Örn Guðmundsson

 

Páll Viðar framlengdi samning sinn við Magna

0
Páll Viðar Gíslason

Páll Viðar Gíslason, þjálfari karlaliðs Magna í knattspyrnu, framlengdi samning sinn við félagið á herrakvöldi félagsins um síðustu helgi. Páll skrifaði undir samning sem gildir til 31. október árið 2020.

Samningur Páls átti að renna út næsta haust. Undir stjórn Páls tryggðu Magnamenn sér sæti í Inkasso deildinni í fyrsta skipti í sögu félagsins. Páll tók við liðinu fyrir síðasta tímabil en hann hefur áður þjálfað lið Völsungs á Húsavík og Þór á Akureyri.

„Við Magna­menn erum mjög svo ánægðir með að hafa náð sam­komu­lagi við Palla og tryggt okk­ur hans starfs­krafta næstu þrjú tíma­bil. Palli Gísla hef­ur unnið frá­bært starf fyr­ir fé­lagið og komið okk­ur á þann stað sem við vilj­um vera á, það er að spila fót­bolta á sem hæsta klassa,“ seg­ir í frétta­til­kynn­ingu frá Magna.

 

Gerum okkur mat úr jarðhitanum

0

Eimur, í samstarfi við Matarauð Íslands, Íslensk verðbréf og Nýsköpunarmiðstöð Íslands stendur um þessar mundir fyrir hugmyndasamkeppni um nýtingu jarðhita til matvælaframleiðslu.

Snæbjörn Sigurðarson framkvæmdarstjóri Eims sagði að með keppninni, sem nefnist: „Gerum okkur mat úr jarðhitanum“, væri leitast við að finna nýjar leiðir til að efla nýtingu náttúruauðlinda á Norðausturlandi með sjálfbærni í fyrirrúmi.

Eimur stóð á síðasta ári fyrir sambærilegri keppni um nýtingu lághitavatns í samstarfi við Vaðlaheiðargöng. Þá bárust 14 tillögur og var hugmynd sem snýst um uppbyggingu á náttúruböðum í fjörunni neðan við göngin valin hlutskörpust.

Öllum er frjálst er að senda inn tillögur og getur hugmyndin falist í frumvinnslu, fullvinnslu, hliðarafurðum, hráefnum, nýjungum bara hverju sem er sagði Snæbjörn. Hann sagði einnig að það væri hugmyndinni til tekna ef hún byggði á samvinnu ólíkra aðila.

Fimm manna dómnefnd mun velja tvær bestu hugmyndir sem hljóta peningaverðlaun, 2 milljónir fyrir fyrsta sætið og 500 þúsund fyrir annað sætið. Einnig kemur til greina að velja fleiri hugmyndir til frekari skoðunar í samvinnu við bakhjarla Eims. Skilafrestur er til 15. maí og frekari upplýsingar um samkeppnina má finna á eimur.is og mataraudur.is.

Að Eim standa Landsvirkjun, Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur og Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.

 

Hvalasafnið á Húsavík og Sparisjóður Suður-Þingeyinga í samstarf

0
Gerður Sigtryggsdóttir sparisjóðsstjóri, Valdimar Halldórsson frá Hvalasafninu og Ari Teitsson stjórnarformaður Sparisjóðsins

Í dag endurfjármagnaði Hvalasafnið á Húsavík lán sín hjá Sparisjóði S-Þingeyinga. Í tilkynningu kemur fram að Hvalasafnið hafi ekki verið áður í viðskiptum við Sparisjóðinn sem býður Hvalasafnið velkomið í ört stækkandi hóp viðskiptavina sinna.

Hvalasafnið og Sparisjóðurinn eiga það sameiginlegt að vera ekki með hagnaðarmarkmið sem lokamarkmið í rekstri.

Þannig er Hvalasafnið sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri og allur hagnaður rennur óskiptur í að efla starfsemi og húsakynni safnsins sjálfs. Safnið er dýrmætur stuðningur við hvalaskoðunarferðir frá Húsavík og styður þannig við vaxandi ferðamannaiðnað á svæðinu.

Sparisjóðurinn er einnig sjálfseignarstofnun og starfar skv. lögum um fjármálafyrirtæki. Hlutverk sparisjóðsins er að stunda sjálfbæra svæðisbundna fjármálastarfsemi á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar, starfsemi sem stendur vörð um og þróar atvinnulif, mannlíf og velferð svæðisins. Sem dæmi um þau verkefni sem sparisjóðurinn styrkti á síðasta ári má nefna:

Ristilskoðun Lionsklúbbs Húsavíkur, Nemendafélög framhaldsskólanna á Laugum og á Húsavík, Kvenfélagasamband Suður-Þingeyinga, Félag eldri borgara á Húsavík, Karlakórinn Hreimur, Tónkvísl FL, Marimba í Þingeyjarskóla, Leikfélag Húsavíkur, Orkugangan, Mývatn Open, Músík í Mývatnssveit, Íþróttafélagið Völsungur, Velferðarsjóður Þingeyinga, UMF Geisli, UMF Efling, UMF Mývetningur, Sumartónleikar við Mývatn, Sjómannadagurinn á Húsavík, Firmakeppni Grana, Golfklúbbur Mývatnssveitar, Mærudagar Húsavík, Hrútadagar Raufarhöfn, Hestamannafélagið Þjálfi, Skákfélagið Goðinn, Árbók Þingeyinga, Björgunarsveitin Garðar, Kiwanisklúbburinn Herðubreið, útskriftargjafir til framhaldsskólanna á Laugum og Húsavík, Forvarnir og fræðsla svo eitthvað sé nefnt. Auk þessa er sparisjóðurinn einn af hornsteinum HSÞ ásamt Framsýn og Jarðböðunum í Mývatnssveit.

Guðrún Tryggvadóttir ný inn í stjórn Bændasamtaka Íslands

0
Ný stjórn Bændasamtaka Íslands; Gunnar Eiríksson, Eiríkur Blöndal, Einar Ófeigur Björnsson, Guðrún Tryggvadóttir og Sindri Sigurgeirsson. Mynd: Bbl.is

Guðrún Tryggvadóttir í Svartárkoti kemur ný inn í stjórn Bændasamtaka Íslands, en kosningu er nýlokið á Búnaðarþingi sem nú stendur yfir. Þeir Eiríkur Blöndal Jaðri, Gunnar Eiríksson Túnsbergi og Einar Ófeigur Björnsson Lóni II gáfu allir kost á sér til áframhaldandi setu og voru endurkjörnir ásamt formanninum Sindra Sigurgeirssyni Bakkakoti.

Guðný Helga Björnsdóttir Bessastöðum gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Eiríkur hlaut 40 atkvæði, Einar Ófeigur 39, Guðrún 38 og Gunnar 32. Þingeyingar eiga því tvo fulltrúa í stjórn BÍ, Einar Ófeig Björnsson og Guðrúnu.

Jóna Björg Hlöðversdóttir Björgum, nýkjörinn formaður Samtaka ungra bænda, lýsti yfir framboði en fékk 25 atkvæði og því ekki brautargengi til setu í Bændasamtökum Íslands.

 

Hellisbúinn í Skjólbrekku 10. mars

Hellisbúinn heimsækir Mývatnssveit og verður í Skjólbrekku þann 10.mars. Forsala miða er hafin á Miði.is

,,Salurinn hreinlega emjaði úr hlátri” – Fjarðarpósturinn

Hellisbúinn er einn vinsælasti einleikur heims!

Hellisbúinn snýr nú aftur til Íslands í þriðja sinn en sýningin er líklega mest selda leiksýning landsins. Yfir 105 þúsund Íslendingar hafa hlegið, grátið, og fengið ódýra hjónabandsráðgjöf hjá Hellisbúanum.

Jóel Sæmundsson túlkar hinn gifta meðalmann að þessu sinni en sýningin er í uppfærðri útgáfu sem tekur á nútímanum og öllum þeim flækjum sem honum tengjast.

Hellisbúinn er frábær sýning fyrir pör á öllum aldri!

Fyrir hópabókanir, 10 eða fleiri vinsamlegast sendið póst á hopar@theatermogul.com

 

 
 

VINSÆLAST Á 641.IS

VEGASJÁ

FÆRÐ