Stofnfundur Miðflokksdeildar Þingeyinga á laugardag

0

Stofnfundur Miðflokksdeildar Þingeyinga verður haldinn laugardaginn 16. febrúar kl 14:00 í Framsýnarsalnum á Húsavík.

Í tilkynningu segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður gestur fundarins og að allir séu velkomnir.

 

Kommúnistar og kröfuhundar

0
Ósk Helgadóttir. Mynd: Framsýn

Þeir sem vinna þau störf sem í daglegu tali kallast láglaunastörf þekkja hversu mikið þarf að leggja að mörkum til að brauðfæða fjölskylduna. Það er ástæðan fyrir því að fólk í þeirri stöðu vinnur margt hvert langan vinnudag og er þess utan tilbúið að hlaða á sig aukavinnu sé hún boði, því með því móti getum það mögulega tryggt sér og sínum lágmarksþátttöku í því samfélagi sem við búum í. Þættir sem mörgum þykja sjálfsagðir, eins og það að mennta börnin sín og eignast þak yfir höfuðið er ekki einfalt fyrir þá sem lítið hafa og sama hvað hver segir, þá er það blákaldur veruleiki að við Íslendingar sitjum ekki öll við sama borð.

Vinna verka- og láglaunafólks skiptir sköpum fyrir samfélagið, því það vinnur störfin sem enginn tekur eftir að séu unnin, en það taka allir eftir því ef það er ekki gert. Líklega hugsa ekki margir út í það að þetta er einmitt fólkið sem heldur samfélaginu gangandi (með fullri virðingu fyrir öðrum stéttum). Ætli hugsi til dæmis margir út í það hvað starfsfólk á hjúkrunarheimilum ber úr býtum við að sinna andlegum og líkamlegum þörfum ástvina okkar, sem við sjálf höfum ekki tíma til að sinna? Eða hvernig við kæmust leiðar okkar í snjó og ófærð ef enginn fengist til að vinna á snjóruðningstækjunum? Ef enginn tæmdi sorptunnurnar fyrir okkur myndi fljótlega skapast vandamál og lítill yrði útflutningurinn ef ekki fengist fólk til starfa í frystihúsin og í afurðastöðvarnar við að skapa verðmæti úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Hvað ef við fengjum ekki fólk í vinnu við að þjónusta ferðamenn ? Það yrði ástand í leik- og grunnskólum ef ekki fengist þar fólk til almennra starfa. Hver ætti þá að gæta barnanna, snýta þeim, hugga þau og skeina, svo að við hin gætum sinnt okkar vinnu og aflað tekna. Öll þessi störf ásamt reyndar fjölmörgum öðrum láglaunastörfum eiga það sammerkt að vera ekki mikils metin í þjóðfélaginu, þó öllum ætti að vera ljós nauðsyn þess að þau séu ynnt af hendi. Launaseðlar verka- og láglaunafólks taka af allan vafa um hversu margra króna virði það er talið. Þó að gamla bændasamfélagið sé sem betur fer liðið undir lok, þá hangir enn yfir okkur sá illi arfur að ætla vinnufólki það hlutskipti að ná því rétt að hanga á horriminni.

Íslenskt verka- og láglaunafólk hefur lengi verið þurftalítið og hefur langoftast, allavega í seinni tíð, beðið þeirra mola er hrjóta við og við af borðum atvinnurekanda. Verið sagt að fara varlega í að rugga bátnum, ófaglært fólk hafi lítið fram að færa og mætti þakka fyrir að hafa yfirhöfuð einhverja vinnu.

Nærtæk dæmi snúa að þeim kjaraviðræðum er nú standa yfir og lúta að kostakjörum Samtaka atvinnulífsins varðandi vinnutímabreytingar og eru svar þeirra við kröfum ASÍ er varða styttingu vinnuviku. Tillögur SA byggja á þremur meginþáttum og hljóða í stuttu máli upp á: „ að víkka ramma dagvinnutímans úr 10 klukkutímum í 13, að lengja uppgjörstímabil yfirvinnu og að taka kaffitíma út úr launuðum vinnutíma“. Tillögurnar féllu líklega vel að þeirri samfélagsgerð sem hér var við lýði í árdaga verkalýðshreyfingarinnar, í upphafi 20.aldar. Þá tíðkaðist að fólk þrælaði myrkranna á milli, alltaf á sama kaupinu hversu margir tímar sem unnir voru og án nokkurra sérstakra kaffitíma. Tillögurnar ef samþykktar yrðu myndu færa verkafólk aftur til ómanneskjulegs samfélags, þar sem réttlaus lítilmagninn mátti sín lítils gagnvart ofríki atvinnurekanda.

Eins og ævinlega er styttist í að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losni og verkalýðshreyfingin krefst launahækkana fyrir verka- og láglaunafólk, bregst það ekki að á sjónvarpsskjánum birtist boðberi válegra tíðinda, í formi seðlabankastjóra. Allt hans yfirbragð ber þess merki að heimsendir sé á næsta leiti, jafnvel strax á morgun. „Það verður ágjöf, þjóðarskútan mun lenda í svarrandi brimi. Vitið þið ekki að óhóflegar launahækkanir leiða af sér hærri vexti og meira atvinnuleysi“ þrumar bankastjórinn, slær út höndum orðum sínum til áréttingar og ískaldur hrollur hríslast niður hryggsúluna á kröfuhundum og kommúnistum sem vita, en vilja ekki lengur skilja, að það er hefð fyrir því að stöðugleiki efnahagslífsins sé látinn lenda á einmitt þessum hópi.

Ég ætla, sem einn þessara meintu kommúnista og kröfuhunda að boðskap seðlabankastjóra megi skilja sem svo að þær krónur sem vinnulýðurinn nær að hrista úr launaumslaginu, séu á einhvern hátt efnismeiri og hafi meira verðgildi en hækkanir til þeirra sem gullvögnunum aka. Þeim er ekki boðið upp á launahækkanir sem tíðkast á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði þar sem prósentin teljast á fingrum annarar handar heldur hljóða þær oftast upp á tugi prósenta og svo það sé sagt hreint út af bálreiðri verkakonu, þá er líkast því að þær hækkanir séu skrifaðar með sverum skítagaffli. Siðlausar launahækkanir, árangurstengdar greiðslur og bónusar til þessara útvöldu hópa í þjóðfélaginu vekja reiði í brjóstum þeirra sem sífellt þurfa að stíga pedalana hraðar í von um að eiga fyrir mat fram að næstu mánaðarmótum. Slíkar hækkanir þó miklar séu gára ekki hafflötinn og þjóðarskútan siglir hægan byr á milli hafna. Hvar er þá samfélagsleg ábyrgð og hófsemi? Fólkinu á gólfinu bjóðast ekki slíkar greiðslur þótt margir hverjir hafi verið á vinnumarkaði árum saman og búi þar af leiðandi yfir víðtækri þekkingu og mikilli reynslu af ýmsum störfum. Árangurstengdar greiðslur til handa verka- og láglaunafólki byggjast hins vegar á stoðkerfisvandamálum og slitnum liðum. Leggi það verulega hart að sér, gæti það að auki nælt sér í bónus sem fólginn í skertum lífsgæðum sökum ótímabærrar örorku og skapast af langvarandi þrældómi.

Daginn sem Geir H. Harde bað guð að blessa Ísland fylltist almenningur í landinu réttlátri reiði í garð gráðugra auðvaldsplebba sem græddu á daginn og grilluðu á kvöldin. Hrunið kom harðast niður á þeim er síst skyldi, því án þess að hafa nokkuð til þess unnið missti fjöldi fólks atvinnuna, aðrir misstu heimili sín eða töpuðu fjármunum sem þeir voru búnir að nurla saman yfir starfsævina. Hrunið hafði samt ekki eingöngu slæmar afleiðingar þegar til lengri tíma er litið, því einhverskonar hópefli varð til meðal þjóðarinnar sem stóð eftir hnípin og særð. Það urðu víðtækar breytingar á hugsunarhætti almennings, sem var réttilega nóg boðið þegar veislan fór úr böndunum, á þeirra kostnað. Því eru, í það minnsta lægri stéttir samfélagsins ekki búnar að gleyma og ætla sér ekki að kosta gleðina á ný.

Fólkið á lægstu laununum, fólkið bak við tjöldin er Íslands stærsta auðlind, því án þess myndi samfélagið einfaldlega ekki virka. Við förum ekki fram á mikið, enda kærum við okkur ekki um samfélag byggt á græðgi og efnishyggju. En við eigum fullan rétt á að okkur sé sýnd virðing fyrir það að vinna þau mikilvægu störf sem við vinnum og fyrir það krefjumst við mannsæmandi launa.

Amen og halelúja

(Birtist fyrst á Framsýn.is)

 

MÍ innanhúss – Elísabet með gull í 600m

0
Elísabet á pall, Mynd af vef HSÞ

Meistaramótum Íslands innanhúss í frjálsum í aldursflokkum 11-14 ára og 15-22 ára er nú lokið þetta tímabilið. HSÞ átti alls 6 fulltrúa á þessum mótum sem áttu alla jafna góða daga með persónulegum bætingum. Frá þessu segir á vef HSÞ.

Meðal helstu afreka að þessu sinni má nefna 2. sæti hjá Halldóri Tuma Ólasyni í langstökki 18-19 ára drengja en þar jafnaði hann sinn besta árangur með stökki upp á 6,33m og var aðeins 2 cm frá gullinu. Þá náði Elísabet Ingvarsdóttir 3. sæti í 60m hlaupi 11 ára stúlkna en hún hljóp á 9,53s best.

 

Toppurinn var þó líklega gullverðlaun Elísabetar í 600m hlaup 11 ára stúlkna en hún vann hlaupið með yfirburðum á persónulegu meti 2:04,71 mín.

Öll úrslit mótsins má finna á mótaforriti FRÍ http://thor.fri.is

 

 

Framsýn – Kalla eftir endurskoðaðri kröfugerð í ljósi ofurhækkana til bankastjóra Landsbankans

0

Það var þungt hljóð í fundarmönnum á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks Framsýnar sem fram fór í gærkvöldi vegna frétta um sturlaðar hækkanir til bankastjóra Landsbankans. Landssamband íslenskra verslunarmanna fer með samningsumboð Framsýnar er viðkemur verslunar- og skrifstofufólki innan félagsins.  Ljóst er að mikil reiði er út í þá misskiptingu sem þrífst í þjóðfélaginu og endurspeglast í launahækkunum til bankastjórans á sama tíma og ákveðnir leiðarahöfundar vara við kröfum verkalýðshreyfingarinnar um að lægstu laun hækki upp í um 400.000 krónur á mánuði. Því fylgi óðaverðbólga og upplausn í íslensku þjóðfélagi.

Í lok fundar í gær og eftir góðar umræður um kjara- og efnahagsmál samþykkti fundurinn að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu mála um kjaramál og ákvörðun bankaráðs Landsbankans að hækka yfirmann bankans langt umfram allt sem eðlilegt getur talist.

 Ályktun

„Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar telur löngu tímabært að vísa kjaradeilu Landssambands íslenskra verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Svo virðist sem lítið sem ekkert sé að gerast í kjaraviðræðum aðila annað en að ræða breytingar á vinnutilhögun með niðurfellingu á neysluhléum sem félagsmönnum Framsýnar hugnast ekki.

Í ljósi frétta um ofurhækkanir til bankastjóra Landsbankans er mikilvægt að LÍV endurskoði framlagða kröfugerð sambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Ný kröfugerð taki mið af því svigrúmi sem bankaráð Landsbankans telur vera til staðar, svigrúm sem virðist hafa farið algjörlega fram hjá Seðlabankastjóra, sem varað hefur við kröfum verkalýðshreyfingarinnar.

Á sama tíma og almenningur í landinu býr við okurvexti telur bankaráð Landsbankans eðlilegt og sanngjarnt að hækka laun bankastjórans þessi launahækkun uppá 82% ógni ekki stöðugleikanum, eða valdi óðaverðbólgu að ógleymdu hinu margfræga höfrungahlaupi.sem flokkast undir sturlaðar launahækkanir.

Frá 1. júlí 2017 til 1. apríl 2018 hafa laun bankastjóra Landsbankans hækkað úr kr. 2.089.000 í kr. 3.800.000. Það gerir hækkun um rúmar 1,7 milljónir á mánuði, eða rétt tæp 82% á þessu tíu mánaða tímabili.

Í ljósi þessara tíðinda verður fróðlegt að fylgjast með hvernig Seðlabankastjóri, fjármálaráðherra og leiðarahöfundar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins bregðast við. Landsbankinn er að mestu í eigu íslenska ríkisins og þá hafa leiðarahöfundar Fréttablaðsins kallað forystumenn í verkalýðshreyfingunni öfgamenn fyrir það eitt að fylgja eftir kröfum tugþúsunda félagsmanna um bætt kjör, það er að þeir þurfi ekki að búa við fátæktarmörk öllu lengur, það er innan við kr. 300.000 í mánaðarlauni.

Enn og aftur kallar Framsýn eftir jöfnuði og réttlæti í þjóðfélaginu. Í landi eins og Íslandi á enginn að þurfa að líða skort eða búa við það hlutskipti að geta ekki búið í húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Annað verður aldrei liðið!“

 

Bugsý Malón í Hofi, síðustu sýningar.

0

Leikfélag VMA er að sýna söngleikinn Bugsý Malón í Hofi. Síðustu sýningar eru um næstu helgi, föstudagskvöldið 15. og sunnudagskvöldið 17. febrúar kl. 20:00. Sýningin er litskrúðug, fyndin og fjörug en þó með drama ívafi. Fallegur söngur og góður leikur einkennir sýninguna. Þau eiga eflaust eftir að láta að sér kveða í framtiðinni þetta unga hæfileikaríka fólk. Það eru þrjár stúlkur úr Þingeyjarsveit sem koma að sýningunni, þær Katla María Kristjánsdóttir Lækjarvöllum, Dagbjört Jónsdóttir Lundi og Guðný Jónsóttir Staðarfelli svo er Anna Birta Þórðardóttir frá Húsavík. Miðasala er á mak.is og tix.is og miðaverð er 3.900kr.

 

 

Pétur Guðjónsson viðburðastjóri hjá VMA segir: Þetta er gríðarlega stór og fjölmenn sýning. Þetta er fjölmennasta sýning sem sett hefur verið upp til margar ára.  Leikfélag VMA hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár. Það má segja að þetta hafi byrjað 2014, þá setti leikfélagið upp 101 Reykjavík í Rýminu þar sem grunnurinn var lagður og þá fór þátttakendum að fjölga. Síðan þá hafa sýningar stækkað og í fyrra var uppsetningin Ávaxtakarfan en á þriðja þúsund manns sáu þá sýningu. Bugsý Malón er því afrakstur síðustu ára enda væri ekki hægt að setja upp slíka sýningu nema að hafa fjölda nemenda sem leggja mikið á sig til þess að koma sýningunni á fjalirnar. Auk nemenda koma að listrænir stjórnendur sem eru ráðnir í verkefnið, leikstjóri, aðstoðarleikstjóri, raddþjálfi og danshöfundur. Útkoman er glæsileg sýning með fjölmörgum þátttakendum sem hafa heldur betur lært mikið síðan ferlið hófst í október á síðasta ári.  Fréttaritari hafi einnig samband við Sigríði Huld Jónsdóttur Skólameistara VMA sem sagði eftirfarandi:

Ég sá Bugsy Malone í bíó fyrir nokkuð mörgum árum síðan. Þá fékk maður stjörnur í augun yfir krökkunum sem léku í myndinni og lét sig dreyma um að verða fræg leik- og söngkona. Þessi draumur rifjaðist upp fyrir mér á frumsýningunni í Hofi, draumur minn um að verða leik- og söngkona, er fyrir löngu síðan bara orðin að góðri minningu, en eins og í bíóinu forðum, fékk ég stjörnur í augun yfir uppsetningu nemenda í leikfélagi VMA. Það að sjá margra vikna vinnu verða að heildstæðu verki á sviðinu er alveg magnað. Í sýningunni er líf og fjör allan tímann og allur þessi fjöldi góðra söng- og leikara er órtrúlegur. En það eru ekki bara þau sem leika og syngja, það er stór hópur annarra sem koma að sýningunni og þar kemur fjölbreytileikinn í skólanum sér vel þar sem nemendur af ólíkum brautum skólans koma að sviðsuppsettiningunni, búningum, förðun, tæknimálum og markaðsmálum. Ég er viss um það að það eru framtíðar sviðslistafólk í þessum hæfileikaríka hópi.

Allur hópurinn að lokinni frumsýningu.

 

Brúðkaup var frumsýnt á Breiðumýri um helgina

0
Brúðkaup. Mynd Sólborg Mattíasdóttir

Sl. laugardag frumsýndi Leikdeild Eflingar leikritið Brúðkaup eftir Guðmund Ólafsson fyrir fullu húsi á Breiðumýri í Reykjadal. Leikstjóri er Vala Fannell og tónlistarstjóri er Jaan Alavere. Önnur sýning var síðan í gær, sunnudag. Þriðja sýning verður föstudaginn 15. febrúar kl 20:30. Sýningaplan má sjá í auglýsingu hér fyrir neðan.

Brúðkaup. Mynd Sólborg Mattíasdóttir
Brúaðkaup. Mynd Sólborg Mattíasdóttir

Meðfylgjandi myndir eru frá æfingu.

Miðapantarnir í síma 618-3945 eða á leikdeild@leikdeild.is

 

 

Tæp 15% keyrðu Víkurskarð frá því að gjaldtaka hófst í Vaðlaheiðargöng

0
Mynd frá Vegagerðinni

Nú er liðinn rétt rúmur mánuður frá því að Vaðlaheiðargöng opnuðu og gjaldtaka hófst. Samkvæmt umferðarteljara Vegagerðarinnar á tímabili gjaldtöku, hafa farið 862 (ökut/sólarhring) um göngin að meðaltali, en 133 (ökutæki/sólarhring) hafa farið yfir Víkurskarðið á sama tíma. Þ.a.l. hafa rétt tæp 15% umferðarinnar farið um Víkurskarðið á umræddu tímabili.

Þetta hlutfall er við þau mörk sem lágspá Vegagerðarinnar (um Vaðlaheiðargöng) gerði ráð fyrir árið 2012, en þá skal haft í huga að gjaldskrá lá ekki fyrir.

Athygli vekur að þrátt fyrir að tæp 15% umferðarinnar fari um Víkurskarðið er umferðin um Vaðlaheiðargöng ein og sér 2,2% meiri, en var um Víkurskarðið á sama tímabili árið 2018, þegar Víkurskarðið var eini valkosturinn.

Á meðfylgjandi mynd má skoða umferð um Vaðlaheiðargöng frá 1. janúar til og með 5. febrúar. 12. janúar sker sig nokkuð úr þar sem þann dag fór fram opnunarhátíð Vaðlaheiðarganga og göngin lokuð fyrir umferð megnið af deginum. (Smella á mynd til að skoða stærri útgáfu)

Mynd frá Vegagerðinni

Ófrávíkanleg krafa

0
Sparisjóður Suður Þingeyinga á Laugum

Ég kerfst þess að vegaskattar sem á að fara að innheimta verði lagðir óskertir á lokaðan reikning hjá Sparisjóði Suður Þingeyinga og Ari Teits hafi einn aðgang að þeim reikningi.

Jónas á Lundarbrekku

Ég treysti honum til að koma þessum peningum til vegagerðar, alls ekki þingmönnum eða öðrum embættismönnum.

Sporin hræða.

Jónas Sigurðarson
Lundarbrekku.

Búnaðarsambandið verðlaunar bændur á bændagleði 2019

0
Guðrún Tryggvadóttir formaður BSSÞ, Benedikt, Flosi og Unnur. Mynd: Ragnar Þorsteinsson

Bændagleði var haldin laugardagskvöldið 12. janúar sl. á Breiðmýri. Á bændagleðinni voru m.a veitt verðlaun í nautgriparækt og sauðfjárrækt auk viðurkenninganna Þingeyski bóndinn og hvatningarverðlaun BSSÞ.

Í nautgriparæktinni hefur myndast sú hefð að veita verðlaun fyrir bestu kýrnar í hverjum árgangi. Að þessu sinni voru þau veitt fyrir kýr sem fæddar eru árið 2014. Til grundvallar verðlaununum eru að kýrnar séu lifandi í árslok 2018, fyrir liggi að minnstakosti 6 efnamælinganiðurstöður á heilu mjaltaskeiði. Kýrnar mega ekki hafa verið eldri en 3 ára við burð og burðartilfærsla sé ekki óeðlilega mikil.

Fyrstu verðlaun hlutu Sveinbjörn Þór Sigurðsson og Hulda Kristjánsdóttir fyrir kúna Töru 789 með 296,6 heildarstig, faðir hennar er Tari 12006. Annað sætið hlutu Geir Árdal og Margrét  í Dæli fyrir kúna Eyju 497 með 290,6 heildarstig, faðir hennar er Bakkus 12001.  Í þriðja sæti voru Kolbeinn Kjartansson og Tora Katinka Bergeng Hraunkoti fyrir kúna Kampölu 481 en hún var með 288,2  heildarstig, faðir hennar er Peli 12008  .

Í sauðfjárrækt voru veitt tvenn verðlaun.

Heiðurshornið sem veitt er í minningu Eysteins Sigurðssonar frá Arnarvatni, var veitt í 13. sinn. Samkvæmt gildandi úthlutunarreglum komu 29 bú til endanlegs útreiknings en megin áhersla er lögð á lömb til nytja og vöðvaflokkun en hlutfall vöðva og fituflokkunar vegur fimmtung.

Fyrsta sætið og Heiðurshornið hreppti að þessu sinni annað árið í röð Benedikt Arnbjörnsson á Bergsstöðum en hann hlaut 18,94 stig. Í öðru sæti voru Sveinbjörn Þór Sigurðsson og Hulda Kristjánsdóttir Búvöllum með 18.73 stig og í þriðja sæti voru Egill Freysteinsson og Dagbjört Bjarnadóttir, Vagnbrekku með 18.70 stig.

Guðrún Tryggvadóttir formaður BSSÞ, Benedikt, Flosi og Unnur. Mynd: Ragnar Þorsteinsson

Hvatningarverðlaun BSSÞ í sauðfjárrækt voru veitt í ellefta sinn. Til útreiknings koma öll bú sem hafa 50 ær eða meira. Gerðarmat, hlutfall vöðva og fitu ársamt fjölda lamba til nytja leggja grunninn að útreikningi einkunnar. Búið sem fær lægsta tölugildið ber sigur úr býtum.  Að þessu sinni hlutu hvatningarverðlaunin Flosi og Unnur á Hrafnsstöðum með 10 stig.  Sigurður Atlason á Ingjaldsstöðum var í öðru sæti með 12.8 stig  og í því þriðja Benedikt Arnbjörnsson á Bergsstöðum með 13.3 stig.

Erlingur og Sigurlaug á Brún ásamt Guðrúnu Tryggvadóttur. Mynd: Ragnar Þorsteinsson

Þingeyski bóndinn, viðurkenningin Þingeyski Bóndinn er nú veitt í fimmta sinn.  Við val hans hafa  þrjú eftirfarandi stef verið höfð að leiðarljósi: Hógværð, snyrtimennska og sátt við umhverfið, í víðustu skilgreiningu þeirra orða.  Að þessu sinni hlutu viðurkenninguna Sigurlaug Svavarsdóttir og Erlingur Teitsson á Brún  sem hafa um áratuga skeið rekið afurðamikinn myndarbúskap. Brún er fallegt býli og þangað er til fyrirmyndar heim að horfa. Þau hjónin hafa auk þess verið virkir þátttakendur í félagsmálum í samfélaginu.

Hlöðver og Guðrún frá BSSÞ með þá Kvíabólsfeðga, Hauk og Martein, á milli sín. Mynd: Viðar Hákonarson

Hvatningarverðlaun Búnaðarsambands Suður Þingeyinga eru veitt þeim aðila/ aðilum sem á einn eða annan hátt vekja eftirtekt fyrir framtak sitt í tengslum við landbúnað í héraði.  Að þessu sinni hlutu viðurkenninguna ábúendur á Kvíabóli en þeir hafa sýnt með verkum sínum –  áræðni og dugnað, þar er sannarlega rekinn búskapur af miklum áhuga og myndarbrag öðrum til fyrirmyndar.

Framsýn – Úrbætur í húsnæðismálum varða alla landsmenn

0

Í meðfylgjandi bréfi Framsýnar stéttarfélags til forsætisráðherra er lögð áhersla á að horft verði til landsins alls er viðkemur úrbótum í húsnæðismálum sem nú eru til umræðu. Nýlega skilaði átakshópur tillögum um aukið framboð á íbúðum og aðgerðum til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Að mati Framsýnar hefði starfshópurinn þurft að horfa sérstakalega á vanda landsbyggðarinnar þar sem húsnæðiskortur er víða alvarlegt vandamál. Því miður fer lítið fyrir sértækum aðgerðum hvað landsbyggðina varðar. Hins vegar er horft sérstaklega á höfuðborgarsvæðið. Meira jafnvægi hefði þurft að vera í tillögum starfshópsins varðandi úrbætur í húsnæðismálum milli höfðuðborgasvæðisins og landsbyggðarinnar. Því verður ekki á móti mælt að vandinn er mikill á höfuðborgarsvæðinu en hann er einnig til staðar á landsbyggðinni, því mega menn ekki gleyma í umræðunni. Hér má lesa bréf Framsýnar til forsætisráðherra:

Forsætisráðuneytið
Katrín Jakobsdóttir forsætisráherra
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg
101 Reykjavík

Vegna tillagna átakshóps um húsnæðismál

Framsýn stéttarfélag hefur lengi barist fyrir því að almenningur í landinu, ekki síst verkafólk, hafi möguleika á því að eignast þak yfir höfuðið eða standi til boða leiguhúsnæði á sanngjörnu leiguverði í stað okurleigu sem tröllríður leigumarkaðinum.

Til viðbótar hefur Framsýn stéttarfélag ítrekað bent á mikilvægi þess að tillögur sem væru lagðar fram af stjórnvöldum, sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins til lausnar þessum mikla vanda tækju mið af þörfum allra landsmanna, ekki eingöngu þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og/eða í stærstu þéttbýliskjörnum landsins.

Niðurstöður átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðgerðum til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði eru að mörgu leiti áhugaverðar enda gangi þeir eftir. Átakshópurinn hefði hins vegar þurft að horfa til sértækra aðgerða á svokölluðum köldum svæðum á landsbyggðinni enda fyrirliggjandi vandi sem þarf að leysa. Því miður er ekki að finna slíkar tillögur í niðurstöðum starfshópsins.

Það er von Framsýnar stéttarfélags að í frekari umfjöllun um niðurstöður átakshópsins verði landsbyggðinni gefið aukið vægi og vill félagið koma eftirfarandi ábendingum á framfæri;

 1. Telja verður jákvætt að viðurkennt er að markaðsbrestur sé á húsnæðismarkaði og inngrip stjórnvalda í samstarfi við stéttarfélög og sveitarfélög sé óhjákvæmilegt við þessar aðstæður.
 2. Ísland er svæðaskipt með tilliti til húsnæðismarkaða;
  1. Höfuðborgarsvæðið þar sem markaðsbrestur lýsir sér með því að takmarkað framboð húsnæðis hefur leitt til mjög mikillar verðbólu og leiguokurs.   Nýjar íbúðir eru úr takti við þarfir þess almennings sem hvorki getur né vill kaupa íbúð á yfirverði. Leigumarkaður hefur lent í algeru brask-umhverfi þar sem okur og óöryggi er raunveruleikinn sem snýr að almenningi.
  2. Stórir hlutar landsbyggðarinnar líða fyrir það að húsnæðisverð og lánakjör standa ekki undir nýbyggingarverði.   Almenningur leggur því ekki í slíkar fjárfestingar og lánastofnanir gera veðkröfur sem þrengja enn frekar að möguleikum fólks. Takmarkaður leigumarkaður er til staðar á landsbyggðinni almennt og í vöxt færist að fjarbúandi einstaklingar taki íbúðir út úr rekstri sem lögheimilisíbúðir.
 3. Því er sérstaklega fagnað að samstaða sé um að setja leigumarkaði og leiguverðlagningu skýrari ramma. Hvatt er til þess að sérstaklega sé horft til Þýskalands (Mietbremse-leigubremsa) og Svíþjóðar í því samhengi.
 4. Um leið og tekið er undir mikilvægi þess að leysa húsnæðismál þeirra sem allra verst standa – teljast til “lágtekjuhópanna” – þá er afar háskalegt að fjalla um húsnæðismálin út frá slíkri flokkun.   Með því að beita almennum lausnum og efla stöðu neytenda gagnvart verðlagningu og sem kaupendur á markaði gagnvart fjármögnun – þá mun sá hópur sem telst til “hinna verst settu” dragast saman nokkuð hratt. Þörfin fyrir sértækar og lausnir mun þannig minnka og útgjöld hins opinbera af slíkum úrræðum lágmarkast.   Með þannig útfærslu mun einnig verða til betra samfélag þar sem lakar settir og betur settir búa hlið við hlið og leggja saman fremur en að vera aðgreindir vegna þvingaðrar flokkunar húsnæðisstuðnings.
 5. Tillögur átakshópsins eru því miður afar einhæfar og miðast við höfuðborgarsvæðið og sértækar aðstæður í kring um “almenningssamgöngukerfi” framtíðarinnar.   Sáralítð er tekist á við þann raunveruleika sem blasir við almenningi á landsbyggðinni, sveitarfélögum og þeim fyrirtækjum sem virkilega vilja leggja sitt að mörkum til að tryggja sér aðgang að öruggu starfsfólki og betra samfélagi.
 6. Liður í því að finna lausnir fyrir þá lakast settu í húsnæðismálum er að auðvelda staðbundnum íbúðafélögum/húsnæðissamvinnufélögum að breikka framboð sitt og taka að sér byggingar íbúða með stofnstyrkjum undir lögum um svokallaðar almennar íbúðir nr. 52/2016 – samhliða almennum búseturéttaríbúðum.
 7. Mikilvægt getur verið að útvíkka almennar heimildir Íbúðalánasjóðs/Lánasjóðs sveitarfélaga til 90% lánsfjármögnunar húsnæðis óhagnaðardrifinna félaga og á “köldum svæðum” allt að 100% ef sveitarfélög eru þátttakendur í slíkri uppbyggingu með beinum og óbeinum framlögum/ívilnunum.   Slíkt þarf að útfæra með stofnun sérstakra og nýrra lánaflokka með lægri vöxtum en sértækum forgangi eða “samningsbundnum/þvinguðum” kaupum lífeyrissjóða á tilteknum fjárhæðum.
 8. Til að byggja upp leigumarkað fyrir almenning (á landsbyggðinni) þarf að breyta lögum um húsnæðissamvinnufélög nr. 66/2003 þannig að þar verði beinlínis opnað á sameiginlegan rekstur leigu- og búsetuíbúða – í einu félagi og með virkri þátttöku sveitarfélaga og velvildarfjárfesta (fyrirtækja).   Með því verður almennur rekstrargrunnur húsnæðissamvinnufélaga sterkari og neytendum auðveldara að eiga aðgang að öryggi án hættu á uppsögnum eða fjárhagslegum ofurbyrðum.
 9. Til þess að auðvelda hagkvæma raðsmíði og magninnkaup íbúða með innflutning og/eða bættri tækni innanlands er nauðsynlegt að veita íbúðafélögum neytenda – í samstarfi við sveitarfélög og stéttarfélög – hvatningu og beinan fjárstuðning til að þróa og halda utan um stærri verkefni á sviði húsnæðismála í þágu almennings.     Örlítill vottur að slíku verkefni er kominn af stað hjá Íbúðalánasjóði en hefur ekki náð neinu flugi enn sem komið er.
 10. Leiguvernd; Eins og mál hafa þróast á íslenskum leigumarkaði er afar mikilvægt að stjórnvöld grípi inn í með embætti/þjónustu við leigjendur. Hugsanlega með „Embætti umboðsmanns leigjenda“. Slíkt þekkist innan stjórnsýslunnar sem skilað hefur góðum árangri s.s. Embætti umboðsmanns skuldara og Umboðsmanns Alþingis. Í dag eiga leigjendur ekki auðvelt með að leita aðstoðar opinberra fagaðila komi upp ágreiningur milli þeirra og leigusala sem er daglegt brauð.

Þessum hugmyndum og skoðunum Framsýnar stéttarfélags er hér með komið á framfæri við ríkisstjórn Íslands með von um að unnið verði áfram með niðurstöðu átakshópsins og hlustað verði á rödd landsbyggðarinnar sem kallar eftir lausn á fyrirliggjandi vanda í húsnæðismálum víða um land.

Skora á Norðlenska að greiða uppbót á haustinnlegg sauðfjárafurða

0
Úr sauðfjárrétt Norðlenska á Húsavík

Í vikunni var tilkynnt um að Kjötafurðastöð KS og Sláturhús KVH muni greiða viðbótargreiðslu á lambakjötsinnlegg s.l. hausts.  Greidd verða 10% viðbótargreiðsla á innlegg í ágústmánuði og 6,04% viðbótargreiðsla á innlegg í september og október.  Í tilkynningu frá fyrirtækjunum kemur fram að ágæt sala á afurðum og veiking íslensku krónunnar skapi grundvöll til þess að greiða bændum þessa viðbótargreiðslu. 

Af þessu tilefni hafa félög sauðfjárbænda á norður og austurlandi sent frá sér eftirfarandi áskorun til Norðlenska

„Félag sauðfjárbænda við Eyjafjörð, Félag sauðfjárbænda í Suður-Þingeyjarsýslu, Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum og Félag sauðfjárbænda á Suðurfjörðum skorar á Norðlenska ehf. að greiða innleggjendum sauðfjárafurða uppbót á haustinnlegg 2018 að lágmarki sambærilega öðrum sláturleyfishöfum“

Friðrik Sigurðsson selur Víkurblaðið

0
Ritstjóri Víkurblaðsins, Egill P. Egilsson flettir í gegnum fyrsta eintakið af nýja Víkurblaðinu

Tímamót urðu í rekstri Víkurblaðsins í gær fimmtudag en þá urðu breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins.

Víkurblaðið ehf. sem í nóvember síðastliðnum hóf útgáfu á prentmiðlinum Víkurblaðinu sem gefið er út annan hvern fimmtudag í 2300 eintökum og dreift er frítt i fyrirtæki og heimili í Þingeyjarsýslum. Fyrirtækið heldur einnig úti vefmiðlinum vikurbladid.is.

Stofnendur fyrirtækisins eru Egill Páll Egilsson, blaðamaður og Friðrik Sigurðsson athafnamaður. Egill, framkvæmdastjóri fyrirtækisins og ritstjóri blaðsins átti 80 prósent í félaginu. Friðrik var eigandi og rétthafi á nafni Víkurblaðsins og útgáfurétti þess og lagði það fram sem hlutafé, alls 20 prósent. Hann sat jafnframt sem stjórnarformaður Víkublaðsins ehf.

Nýlega náðu þeir samkomulagi um að Egill keypti Friðrik út úr félaginu. Samningur þess efnis var undirritaður í gær fimmtudag og verður Egill því skráður eigandi á öllum hlutum fyrirtækisins, þegar breytingarnar ganga í gegn. Kaupverð hlutarins er 100 þúsund krónur.

Reykdælingar á listamannalaunum

0
Leikhópurinn Artik. Ljósmynd: Auðunn Níelsson

Leikhópurinn Artik, með Jennýju Láru Arnórsdóttur í broddi fylkingar, vinnur nú að uppsetningu leikverksins Skjaldmeyjar hafsins, sem frumsýnt verður í Samkomuhúsinu á Akureyri 28. mars nk. Til verkefnisins hefur hópurinn hlotið Listamannalaun, auk styrkja frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Uppbyggingarsjóði Norðurlands. Með í verkefninu eru alls fjórir Reykdælingar, eða helmingur hópsins sem stendur að Skjaldmeyjum hafsins. Auk Jennýjar, sem er höfundur og leikstjóri verksins, fer systir hennar Vala Fannell með eitt þriggja hlutverka sýningarinnar, Arnþór Þórsteinsson sér um ljósahönnun og Arna Kristín Sigfúsdóttir hefur umsjón með framleiðslu á verkinu. Því má með sanni segja að Reykdælingar séu áberandi í listalífi Norðurlands um þessar mundir.

Skjaldmeyjar hafsins er nýtt leikverk úr smiðju leikhópsins Artik, en þau sýndu heimildaleikverkið Elska – ástarsögur Norðlendinga, sem var ein vinsælasta gestasýningin hjá LA haustið 2016. Þá var umfjöllunarefnið ástin en í þetta sinn eru það ónefndar hetjur hafsins, eiginkonur sjómanna, sem eru umfjöllunarefnið.

Skjaldmeyjar hafsins er hjartnæmt heimildaverk sem byggir á munnlegum heimildum af Norðausturlandi, um blákaldan sannleikann sem konur sjómanna glíma við þegar erfiðleikar steðja að úti á hafi.

Í verkinu skyggnumst við inn í líf þriggja eiginkvenna sjómanna og kynnumst þeirra sýn á lífið og hvernig þær takast á við óvissuna, óttann og sorgina þegar háska ber að á hafi úti og þær eru í landi.

Sjómennska hefur verið samofin íslensku samfélagi frá alda öðli. Fáar stéttir lenda í þeim háska og áskorunum sem sjómenn standa frammi fyrir í starfi sínu. Starfi sem krefst æði mikils af þeim, jafnvel lífs þeirra. Af því eru til margar sögur. Hins vegar fer minna fyrir sögum um eiginkonur þeirra; konurnar sem ganga í gegnum óttann og óvissuna og örlögin með þeim á einn eða annan hátt. Konurnar sem sjá um heimili, börn og buru á meðan þeir eru í löngum túrum. Þær sem bíða milli vonar og ótta í öllum veðrum og eru jafnvel sjálfar að takast á við sína eigin erfiðleika á sama tíma og þær eru stoð og stytta sjómannsins, fjölskyldunnar og heimilisins. Hérna eru þeirra sögur.

Sýningartímar og miðapantanir

Frumsýning fimmtudaginn 28. mars kl. 20:00

2. sýning föstudaginn 5. apríl kl. 20:00

3. sýning föstudaginn 12. apríl kl. 20:00

Miðasala hjá Tix: https://tix.is/is/mak/buyingflow/tickets/6610/

Nánari upplýsingar: https://www.mak.is/is/vidburdir/skjaldmeyjar-hafsins

Leikhópurinn Artik á Facebook: https://www.facebook.com/artiktheatergroup/

Stórmót ÍR – Fréttir úr frjálsum

0

Stórmót ÍR í frálsíþróttum fór fram í Reykjavík um nýliðna helgi. Þetta hefur gjarnan verið það mót innanhúss sem Frjálsíþróttaráð HSÞ hefur stefnt á með sem mestri þátttöku.

Þó svo að hópurinn í ár væri líklega eitthvað minni en áður náðist engu að síður flottur árangur og fjölmargar bætingar komu í hús eða alls 15 talsins, auk þeirra meta sem nokkrir settu í frumraun sinni í sínum greinum. Fjórum sinnum áttum við fólk á palli,

Elísabet Ingvarsdóttir átti flott hlaup í 600m hlaupi 11 ára stúlkna og uppskar gullverðlaun fyrir vikið, Hlynur Aðalsteinsson tók brons í bæði 1500m og 3000m hlaupum og Þórhallur Arnórsson nældi sér í brons með yfir 7m kasti í kúluvarpi.

Á Stórmóti ÍR hefur lengi verið sú skemmtilega hefð að veita einnig viðurkenningu til þeirra sem eiga mestu bætinguna í hverri grein í hverjum flokki – og þá viðurkenningu fengu HSÞ-krakkarnir a.m.k. 4 sinnum. Frábært mót með flottum krökkum.

Öll úrslit mótsins má nálgast á mótaforriti FRÍ thor.fri.is

Líf og fjör í gamla barnaskólanum Skógum

0
Frá Skógum sl. laugardag. Mynd: Sigrún Jónsdóttir

Mikið líf og fjör var í Gamla barnaskólanum Skógum laugardaginn 12. jan. sl. þegar fram fór formleg opnunarhátíð í Vaðlaheiðargöngum. Við skipulagningu var ákveðið að hafa opið hús í gamla barnaskólanum svo fólk hefði bækistöð austan ganganna. Heitt var á könnunni og boðið upp á hluta af þeim smákökum og kleinum sem konur í kvenfélögum Fnjóskdæla og Svalbarðastrandar bökuðu fyrir Vaðlaheiðargöng. Fólk kunni svo sannarlega að meta þetta því um 300 manns komu í Skóga á milli klukkan 12:00 – 17:00.

Mynd: Sigrún Jónsdóttir

Það var glatt og ánægt fólk sem kom gangandi, hjólandi eða akandi í Skóga. Í Skógum var búið að setja upp myndir og leggja fram efni safnsins, fræðsluefni og myndasafn. Af þessu tilefni voru sérstaklega prentaðar út og hafðar til sýnis myndir af eldri leiðum yfir Vaðlaheiðina, Þingmannaveginum og gömlu góðu beygjunum. Auk skólahúsnæðisins var opið í Bjarmasalinn en hann var byggður við skólann af ungmennafélaginu Bjarma árið 1937 og var nýttur fyrir leikfimi og hlaupaleiki í frímínútum á dögum skólans en einnig sem samkomusalur sveitarinnar. Í dag er salurinn í eigu jarðeigenda sem gerðu á honum góðar endurbætur í vetur. Á borðum voru steinmolar sem féllu til úr göngunum.

Mynd: Sigrún Jónsdóttir

Björgunarsveitin Súlur á Akureyri var á svæðinu og ferjaði fólk frá skólanum að metanstrætó í göngunum en einnig kom björgunarsveitin að góðu gagni þegar þurfti að kalla eftir viðbótar kökum frá Valsárskóla á Svalbarðsströnd. Sú sending barst hratt og örugglega með björgunarsveitinni.

Haft hefur verið á orði að ástæða væri til að loka göngunum fyrir umferð eins og einn dag á ári svo fólk geti notið þess að vera þar og stundað ýmiskonar list- og hreyfiviðburði.

Mynd: Sigrún Jónsdóttir

Texti og myndir: Sigrún Jónsdóttir

 

 

Vaðlaheiðargöng – VEII !

0
Gangagerðin í upphafi. myndin er tekin af upplýsingasíðu Vaðlaheiðarganga.

Laugardaginn 12 janúar 2019 kom mannfjöldi saman austan og vestan við Vaðlaheiðina – og fagnaði samgöngubótum.    Menn hlupu og hjóluðu og tóku allskonar farartæki í gegn um göngin og létu í ljós ánægju sína með margvíslegu móti.   Stórfengleg kaffiboð í Gamla skóla í Skógum og í Valsárskóla  – nú og svo ræðuhöldin og myndatökurnar.

Benedikt Sigurðarson

Það er ánægjulegt að hafa sjálfur á einu stigi sem stjórnarmaður í KEA fengið tækifæri til að leggja að mörkum til að greiða fyrir því að framkvæmdin færi af stað.    Það er líka ánægjulegt að geta sagt það menn sanni að hafa allan tímann reynt að tala jákvætt fyrir framkvæmdinn og leiðrétta eða reka til baka rangfærslur og róg sem nokkrir hávaðasamir fjölmiðlungar og stjórnmálamenn hafa haft í frammi gegn Vaðlaheiðargöngum.

Það er á sama hátt sorglegt að hafa orðið vitni að því að stjórn svokallaðs Félags Íslenskra bifreiðaeigenda og nafn þess félagsskapar skuli margsinnis hafa verið misnotan í ándróðri og afvegaleiðandi orðræðu gegn þessarri gríðarlegu samgöngubót.

Þegar horft er til baka þá má telja það meira en furðulegt að Vegagerð ríkisins skuli á engu stigi hafa átt frumkvæði að því að setja greiningu og undirbúning Vaðlaheiðarganga á dagskrá og koma í verkröð og á Vegaáætlun.       Sama var auðvitað á sínum tíma með Hvalfjarðargöng –  þar var ekki frumkvæði eða jákvæð vinnsla í höndum Vegagerðarinnar eða ríkisstjórnar og Alþingis.

Vera kann að það hafi verið fleiri en Glúmur bóndi í Vallakoti í Reykjadal sem höfðu á orði fyrir hundrað árum og þaðan síðar að rétt væri að grafa sig í gegn um Vaðlaheiðina fremur en að brölta endalusa ófærðarvegi yfir Heiðina eða í gegn um Fnjóskadal/Dalsmynni og Nollabrekkuna og Ystuvíkurhólana.

Ótvírætt er að Tryggvi Helgason flugmaður og Matthías Gestsson ljósmyndari og samstarfsmenn þeirra í Lýðræðisflokknum héldu Vaðlaheiðargöngum á stefnuskrá í Alþingiskosningum 1974.   Þeir mættu meira en tómlæti á sínum tíma og ræðum það ekki frekar hér.

Síðan gerist lítið lengi vel;   málamyndaskýrsla Vegagerðarinnar 1990 og ekkert meira fyrr en 2002-2003.

  • „Stofnfundur einkahlutafélags um undirbúning að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði með 4.410.000 kr. hlutafé var haldinn í Valsárskóla á Svalbarðseyri 28. febrúar. Stofnendur félagsins voru öll 20 sveitarfélög innan vébanda Eyþings og tíu fyrirtæki á svæðinu: Alli Geira hf., Brim hf., Flytjandi/Eimskip hf., Grímur ehf. , Kaupfélag Eyfirðinga, Norðlenska ehf., Norðurmjólk ehf., SBA-Norðurleið hf., Skipaafgreiðsla Húsavíkur ehf. og Vélsmiðja Steindórs ehf.  Á stofnfundi voru þrír stærstu hluthafarnir Akureyrarbær, sem skráði sig fyrir 36% stofnfjár, Kaupfélag Eyfirðinga með 23% og Þingeyjarsveit með 11%. Greið leið ehf. var samþykkt sem nafn á hið nýja félag. Í stjórn félagsins voru kjörnir: Andri Teitsson, Ásgeir Magnússon og Pétur Þór Jónasson. Varamenn voru kjörnir Jóhann Guðni Reynisson og Bjarni Jónasson. Pétur Þór var kjörinn formaður stjórnar á fyrsta stjórnarfundi 24. mars 2003.“

Við vígsluna voru margir gleiðir og áhugasamir um að fá myndir af sér að loknu verkinu.    Sá sem þetta ritar getur ekki annað en velt því upp við minnisbetri áhugamenn um samfélagsmálin að þónokkrir þingmenn og ráðherrar fyrr og nú  – voru áhugalausir eða beinlínis andsnúnir Vaðlaheiðargöngum lengi og vel eða allt þar til að þeim sýndist að framkvæmdin yrði að veruleika og þeirra tækifæri fælist þá í því að skreyta sig með stuðningi við verkið.

Það þarf ekki langa upprifjun til að komast að raun um að borðleggjandi má telja að hvatning og stuðningur KEA við verkefnið í byrjun hafði afgerandi vægi –  og alveg sérlega þegar kom að því að fjármagna undirbúningsrannsóknirnar.   Án KEA er meira en óvíst hvort verkefnið hefði lifað af andstreymið – og alla vega ólíklegt að það hefði komist á framkvæmdaplönin frá árinu 2010.

Að fjármagna hluta af framkvæmdakostnaði með veggjöldum;

Upphaflega var meining frumkvæðisaðila að fjármagna ca þriðjung kostnaðar með framlögum hins opinbera en greiða niður lánsfjármögnun með veggjöldum fyrir tveimur þriðju kostnaðarins –  líka  var velt væri upp þeim hugmyndum að skipta verkinu í 50:50 með fjármögnun á fjárlögum á móti veggjöldunum. .    Illa gekk að fá ríkisstjórn og ALþingi til samtals á þeim nótum  og má eiginlega segja að þingmenn margra flokka og frá flestum landshlutum hafi fundið Vaðlaheiðargöngum allt til foráttu.

Svo kom Hrunið og allt í kaldakoli;

Í kjölfar hruns  lögðu áhugamenn og Greið leið upp við ráðamenn að fullfjármagna Vaðlaheiðargöng  með veggjöldum notenda.    Ljóst var að heimamenn staðfestu verulegan greiðsluvilja sinn og stuðning við verkefnið.    Áhrifafólk í atvinnulífi reyndust áfram um að koma þessu mannvirki á koppinn.

Já annars; hvers vegna Vaðlaheiðargöng?

1984 var vegur um Víkurskarð opnaður – og reyndist mikil samgöngubót framyfir gamla krókótta veginn um há-heiðina og hinn um Fnjóskadal og snjóflóðasvæðið í Dalsmynni.    Fljótt kom hins vegar á daginn að vegarstæðið í Víkurskarði reyndist veðravíti – – og ófærðardagar urðu margir.   Vikum saman hefur vegurinn um Víkurskarð verið illfær eða ófær 12-20 klukkustundir á sólarhring –   og algerlega vonlaust að skipuleggja vinnu og þjónustusókn yfir heiðina –  að maður tali nú ekki um ferðaskipulag milli Akureyrar og Austfjarða.      Hvern einasta vetur hafa komið upp kaflar þar sem Víkurskarðið hefur verið lokað vegna óveðra og ófæraðr  – sólarhringum saman – og engin leið að koma neyðarflutningum sjúkrabíla yfir.

Síðustu 10 árin hefur skipulega verið unnið að því að skerða sjúkrahúsþjónustu á Húsavík og ma. leggja af fæðingarþjónustu.    Ferðamannasprengingin sem hefur nánast staðið frá 2010 hefur gerbreytt viðhorfum til samgangna á þessu landshorni.    Það er fyrst frá árinu 1995-1996 sem reynt var að halda reglulegum vetrarsamgöngum milli Mývatnssveitar og Egilsstaða.     Á rúmum 20 árum hefur orðið alger viðhorfsbreyting ganvart samgönguöryggi í landshlutanum.

Vaðlaheiðargöng snúast ekki að neinu leyti um vegstyttingu um 16 kílómetra sem slíka – styttingin um nokkrar vegmínútur er að mestu bara bónus.     Vaðlaheiðargöng snúast eiginlega eingöngu um samgönguöryggi og samfélagslega og efnahagslega hagsmuni á þeim grunni.    Þjónustusókn frá Þingeyjarsýslu og Austurlandi verður miklu auðveldari og tryggari –  og heilbrigðis- og öryggismál landshlutans færist á nýtt og betra stig aftur.   Ferðaþjónustan getur gert út á val um gistingu á Akureyri, Húsavík eða Mývatnssveit og nokkuð öruggar samgöngur á mill og til áhugaverðustu áningarstaðanna í nágrenni.    Vinnusvæði Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu verður næstum samfellt  –  og Austurland öllu nær en fyrr.

Með því að þjónustustofnun almennings í formi Vegagerðarinnar neitaði að undirbúa verkefnið í alvöru – og sinnti því ekki í áratugi –  og alþingismenn og ríkisstjórn kusu að horfa framhjá þessu mikilvæga hagsmunamáli varð til stemming á nærsvæðinu fyrir því að notendur mundu sjálfir taka þetta verkefni upp á sína eigin ábyrgð og borga allan kostnaðin með notkun sinni í 25-40 ár.   Þar var sannarlega horft til reynslunnar af Hvalfjarðargöngum.

Rétt er þó að rifja upp að Spölur sem byggði Hvalfjarðargöngin var fjármagnaður af einkaaðilum sem fengu ríkisábyrgð og einkaleyfi til innheimtu veggjaldanna  –  og var tryggður býsna ríflegur arður af sínu fjármagni.   Greið leið og Vaðlaheiðargöng sækja ekki hagnað af rekstri Vaðlaheiðarganga og munu ekki fá slíkan arð.     Það vekur hins vegar athygli að ríkissjóður sem er lánveitandi Vaðlaheiðarganga innheimtir rosalegt vaxtaálag á fjármögnun –  er beinlínis að okra á láninu og okkur vegfarendum í gegn um Heiðina.   Á sama hátt er það mjög óvenjulegt að gera Vaðlaheiðargöngum að kosta allar vegtengingar og frágang – ólíkt því sem hefur tíðkast við önnur jarðgöng.

Andróður FÍB gegn  Vaðlaheiðargöngum og afvegaleiðing á gögnum –  jafnvel með beinum öfugsnúningum sem teljast varla annað en fölsun  eins og skýrsla kennd við Pálma Kristinsson –  er meira en furðulegur þar sem meint félag bifreiðaeigenda er hagsmunafélag vegfarenda og ættu undir engum kringumstæðum að beita sér gegn framförum í einstökum landshlutum.

Einn og einn þingmaður hefur farið offari gegn Vaðlaheiðargöngum og gengið býsna langt í skrumskælingum raunveruleikans.   Sérstaklega er framganga Björns Leví Gunnarssonar ámælisverð þar sem hann dylgjar og snýr útúr á margan hátt og fullyrðir –  jafnvel að lögbrot falsanir og lygi hafi verið beitt þegar ALþingi tók sínar ákvarðanir.   Auðvitað var sett fráviksákvæði í sérstökum lögum gagnvart ríkisábyrgðum –  enda eru Vaðlaheiðargöng ekki dæmigerð „einka-hagnaðar-framkvæmd“ – af því að ríkið er þriðjungs eigandi og Greið leið eigandi að tveimur þriðju – og ríkið eignast framkvæmdina að fullu að loknum endurgreiðslutíma án þess að stofnaðilar taki hagnað af sínu stofnhlutafé.

Á sama hátt;  tapsáhætta ríkisins af framkvæmdinni er ekki fyrir hendi þar sem ef Vaðlaheiðargöngum reynist ofviða að standa undir afborgunum af lánum ríkisins þá yfirtekur ríkið einfaldlega framkvæmdina og reksturinn og innheimtir veggjöldin beint þar til framkvæmdin verður að fullu greidd.

Væntingar okkar margra hér á NA-landi er að spár um umferðarmagn muni reynast langt undir því sem raunin er þannig að fljótt verði mögulegt að lækka grunngjaldið  –  og menn verði jafnvel ásáttir um að lengja endurgreiðslutímann líka þannig að íþynging fyrir atvinnurekstur og heimili íbúanna verði bókstaflega minniháttar.

Sjálfur hyggst ég fagna því að með fleiri ferðum milli þingeyjarsýslu og Akureyrar – að það verður álíka langt heiman frá mér að tvíbreiðri Fnjóskárbrú eins og er út á Svalbarðseyri – – og ekki erfiðari ferðaleið.    Kolefnissporið mun minna en áður með brölti yfir fjallveginn – og öryggið raunverulegt að maður komist aftur heim þrátt fyrir kolvitlaust veður á Víkurskarðinu.

Til hamingju öll – íslendingar – fögnum framförum

 

 

Skrifað undir samkomulag um endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar

0
Frá undirskriftinni. Mynd: Sauðfé.is

Föstudaginn 11. janúar var skrifað undir samkomulag um endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar.  Markmið samkomulagsins er meðal annars að stuðla að auknu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir, auka frelsi sauðfjárbænda og að auðveldara verði að takast á við sveiflur í ytra og innra umhverfi greinarinnar. Myndbandsskýringu á samkomulaginu má horfa á hér neðst í fréttinni.

Áhersla er lögð á að auðvelda aðlögun að breyttum búskaparháttum eða nýrri starfsemi með sérstökum aðlögunarsamningum.

Samkomulagið er undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum og samþykki félagsmanna LS og BÍ í atkvæðagreiðslu.

Fréttatilkynning.pdf

Samkomulag.pdf

 

 

 

 

VEGASJÁ

FÆRÐ

VINSÆLAST Á 641.IS