Þingeyjarsveit kaupir rafmagnsbíl

0
Rafmagnsbíllinn sem Þingeyjarsveit hefur keypt

Þingeyjarsveit hefur fest kaup á nýjum Nissan Leaf rafmagnsbíl. Sveitarstjóri fékk bílinn afhentan hjá B&L á Akureyri, þriðjudaginn 18. september s.l. Uppgefin drægni framleiðanda er um 378 km samkvæmt NEDC stuðli en raundrægni er um 250 km. Rafmagnsbíllinn mun nýtast vel til að komast á milli staða innan sveitarfélagsins sem og utan en oftast er um að ræða ferðir til Akureyrar, Húsavíkur og Mývatnssveitar sem allt er innan 150 km fram og til baka.

Þá eru hleðslustöðvar á öllum þessum stöðum og rétt í þessu er verið að setja upp AC hleðslu Laugum. Uppsetning þessara hleðslustöðva gerir það að verkum að innan þessa svæðis er mjög gerlegt að ferðast um á rafmagnsbílum.

Kostir við notkun rafmagnsbíla eru margir, ekki hvað síst fyrir andrúmsloftið þar sem þeir brenna ekki jarðefnaeldsneyti og losa þar af leiðandi ekki CO2 út í andrúmsloftið. Einnig má reikna með því að þeir séu talsvert ódýrari í rekstri en hefðbundnir bílar.

Á heimasíðu Orku náttúrunnar, www.on.is má nálgast margvíslegan fróðleik varðandi rafbílavæðingu, rekstur þeirra og fjölda hleðslustöðva um land allt.

 

Framsýn – Hvetja til samstöðu með VR í komandi kjaraviðræðum við SA

0

Framsýn stóð fyrir tveimur fundum um kjaramál í gær. Annars vegar var fundur haldinn á íslensku og hins vegar á ensku.

Þetta skipulag var viðhaft til að gefa sem flestum kost á að hafa áhrif á kröfugerð Framsýnar og stefnu félagsins varðandi samstarf við önnur stéttarfélög og landssambönd í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Greinilegt var á fundunum að menn leggja mikið upp úr góðu samstarfi við VR og Eflingu enda öflugustu stéttarfélögin innan Alþýðusambands Íslands hvað stærð varðar.

Eftir góðar og málefnalegar umræður samþykkti fundurinn að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

„Félagsfundur Framsýnar stéttarfélags, haldinn 18. september 2018, samþykkir að fela stjórn félagsins að leita allra leiða til að sameina aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Samstaðan er forsendan fyrir árangri. 

Fram að þessu hefur sambandið verið klofið þegar komið hefur að gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum. Stéttarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa farið fram undir merkjum Flóabandalagsins meðan önnur stéttarfélög innan sambandsins, svo kölluð landsbyggðarfélög, hafa unnið saman í kjaraviðræðum. 

Framsýn stéttarfélag hefur lengi haldið því fram að klofningurinn hafið komið niður á baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum. Láglaunafólk hefur miklar væntingar til næstu kjarasamninga og því er afar mikilvægt að aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands myndi breiðfylkingu til sóknar í kjara- og réttindabaráttu félagsmanna.  

Þá hvetur Framsýn stéttarfélag til samstarfs við VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna til að ná þessum markmiðum fram. Takist að sameina slagkraft Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum er það vænlegast til árangurs í þeirri mikilvægu kjarabaráttu sem framundan er.“ 

 

Jökull Gunnarsson ráðinn forstjóri kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka

0
Jökull Gunnarsson

Jökull Gunnarsson framleiðslustjóri PCC BakkiSilicon hf. hefur verið ráðinn forstjóri félagsins. Hafsteinn Viktorsson sem lætur nú af störfum sem forstjóri mun sinna verkefnum fyrir félagið, þar á meðal hvað varðar mögulega stækkun verksmiðjunnar. Frá þessu segir í tilkynningu á vef PCC í dag.

Frá júní 2016 hefur Hafsteinn unnið að byggingu og gangsetningu kísilverksmiðjunnar við Húsavík. Hluthafar PCC BakkiSilicon hf. þakka honum kærlega fyrir það lykilhlutverk sem hann hefur gegnt í því verkefni og hlakka til að vinna með honum að nýjum viðfangsefnum.

 

Fjöruhreinsun við Ærvíkurbjarg

0
Fjöruhreinsun

Á dögunum sameinuðust nokkrir starfsmenn Norðursiglingar og annarra hvalaskoðunarfyrirtækja á Húsavík sem og nemar við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands um að hreinsa plast úr fjörunni neðan við Ærvíkurbjarg í landi Laxamýrar. Flestir sem tóku þátt voru erlendir leiðsögumenn og nemar.

Þetta er annað sumarið í röð sem slík plasthreinsun á sér stað hjá starfsfólki hvalaskoðunarfyrirtækjanna en í fyrra var Eyvíkurfjara á Tjörnesi hreinsuð af plasti. Allir sem tóku þátt unnu í sjálfboðavinnu og lögðu sjálfir til bíla og útbúnað. Stór hluti þess plasts sem fjarlægt var reyndist vera ýmiskonar veiðarfæri en einnig ýmislegt annað plast. 

Nokkur hundruð kíló af plastúrgangi söfnuðust og var úrgangurinn fluttur á kerru að vinnusvæði Íslenska Gámafélagsins á Húsavík. Gámafélagið var mikilvægur þátttakandi í verkefninu og sá um að eyða plastinu án endurgjalds.

Ásýndir lands í Safnahúsinu á Húsavík

0

Laugardaginn 15. september klukkan 15, opnar sýningin Ásýndir lands í Safnahúsinu á Húsavík. Verkin á sýningunni eru úr safneign Myndlistarsafns Þingeyinga. Verkin fást við ósnortið landslag, manngert umhverfi og einstaklinginn, hvert á sinn hátt. Með því að stefna þeim saman er markmiðið ekki aðeins að bjóða áhorfandanum að njóta þessara verka, heldur einnig að vekja upp hugleiðingar og spurningar um hugtök á borð við stað, tungumál, land, náttúru, manngert umhverfi og umbreytingu.

Þessi hugtök hafa fengið aukið vægi í samtímanum, og hafa tekið á sig samfélagslegar og pólitískar víddir. Á sýningunni er leitast við að skoða þau frá sjónarhorni myndlistarinnar og þau sett í samhengi við það hvernig land, umhverfi og eintaklingur birtast í mismunandi framsetningum listamanna.

Sýningarstjóri sýningarinnar er Jóhannes Dagsson. Jóhannes er heimspekingur og myndlistarmaður. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá University of Calgary 2012 og er lektor við Listaháskóla Íslands.

Sýningin er opin á virkum dögum 10 – 16 og á laugardögum 10 -14. Aðgangur er ókeypis og verður sýningin opin fram í miðjan nóvember.

 

Vaðlaheiðargöng opnuð 1. desember

0

Stefnt er að því að Vaðlaheiðargöng verði tekin í notkun 1. desember næstkomandi, að því er fram kemur í sameiginlegri tilkynningu frá Vaðlaheiðargöngum hf. og verktakafyrirtækinu Ósafli sf., sem stefnir að því að afhenda göngin tilbúin til umferðar föstudaginn 30. nóvember. Frá þessu segir á rúv.is í kvöld.

Upphaflega var áætlað að göngin yrðu tilbúin á seinni hluta ársins 2016. Þá var upphaflega áætlað að kostnaður við göngin yrði tæpir níu milljarðar. Haft var eftir stjórnarformanni Vaðlaheiðarganga í frétt í mars á þessu ári að kostnaðurinn yrði líklega 16 til 17 milljarðar.

Þar segir einnig að, Vaðlaheiðargöng hf. og Ósafl sf. hafa nú gert samkomulag um fyrrnefndan verklokadag. Jafnframt hefur náðst samkomulag um uppgjör og greiðslu bóta til Ósafls samkvæmt úrskurði sáttanefndar sem starfar samkvæmt ákvæðum verksamnings. „Bæturnar eiga sér einkum rót í áhrifum af umfangsmeiri jarðhita á gangaleiðinni en vænst var og námu á verðlagi samningsins kr. 1.379 milljónum. Verkkaupi gerir ágreining um bótafjárhæðina og hefur í samræmi við reglur verksamningsins áskilið sér rétt til að fara með hann fyrir dómstóla,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Einari Hrafni Hjálmarssyni, verkefnisstjóra Ósafls, í tilkynningunni að gangagerðin hafi verið erfið áskorun og tekið mjög á starfsmenn vegna óvenju erfiðra jarðfræðilegra aðstæðna. Jarðhitinn hafi verið miklu meiri og útbreiddari en vænst hafi verið. „Við munum nú einhenda okkur í lokavinnuna, kalla til fleiri starfsmenn og setja fleiri á vaktir til þess að ná því marki að skila göngunum tilbúnum til umferðar 30. nóvember næstkomandi.“

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir í yfirlýsingunni að mikill léttir sé að geta opnað göngin áður en veturinn gangi í garð.

 

Stórutjarnaskóli – Vinsamleg tilmæli um að hafa símana heima

0
Mynd frá setningu Stórutjarnaskóla 2018

Í Stórutjarnaskóla hefur verið ákveðið að mælast til þess, nú í upphafi skólaársins að nemendur komi ekki í skólann með snjallsíma fyrsta mánuðinn. Vonast er til að það geti haft margvísleg jákvæð áhrif á félagsleg tengsl, virkni og líðan nemenda. Fyrir þessu liggja nokkur rök sem vert er fyrir hvern og einn að hugleiða. Með þessu ætti að aukast svigrúm til félagslegra samskipta í frímínútum og skólabíl þar sem margir hverfa inn í sýndarveruleika í stað þess að leika sér eða spjalla saman.

Á heimasíðu Stórutjarnaskóla segir: Ýmsar rannsóknir á notkun snjalltækja gefa vísbendingar um breytingu á líðan og hegðun unglinga sem veldur áhyggjum m.a. hjá sálfræðingum og kennurum. Áhyggjurnar beinast m.a. að þeim tökum sem tækið/öppin virðast ná á börnunum. Allt of hátt hlutfall barna er farið að verja mörgum klukkutímum á dag við tölvu/snjalltæki, bæði í skóla og frístundum. Auðvitað eru þau stundum að nota tækin sér til gagns og í félagslegum tilgangi. En fæst börn og unglingar hafa þroska eða getu til að takmarka sjálf notkun sína á snjalltækjum og þau gera sér heldur ekki grein fyrir mikilvægi annarra þátta fyrir þroska sinn. Sá tími sem við erum “inni” í tækjunum þýðir að á meðan erum við fjarverandi úr öðru sem er okkur bráðnauðsynlegt til að þroskast eðlilega. Við tökum þennan tíma t.d. frá innihaldsríkum samræðum, lestri bóka, hreyfingu og samveru og missum þar með af nauðsynlegri örvun sem við þurfum á að halda. Og börn á viðkvæmu þroskakeiði fá ekki þann tíma til baka til að læra ýmsa hæfni, t.a.m. málþroska, tilfinningagreind og félagsþroska.

Við fáum sömu skilaboð hvað varðar stöðu íslenskunnar. Um þessar mundir er stór íslensk rannsókn í gangi þar sem vísbendingar eru uppi um alvarlega hnignun móðurmálsins í samfélaginu. Þar snúast áhyggjurnar ekki bara um stöðu tungumálsins heldur líka okkur sem notum það. Venjulegur Íslendingur á að geta talað móðurmál sitt reiprennandi, án þess að skorta orð. Hann á að geta tjáð tilfinningar sínar og átt í innihaldsríkum samræðum án þess að þurfa að grípa til enskra orða. Ensk orðanotkun og ensk setningaskipan sækja hins vegar hratt inn í málið um þessar mundir í föstum takti við aukna notkun hinna svo kölluðu “snjalltækja”.

Í Stórutjarnaskóla langar okkur að spyrna við fótum, við viljum standa með móðurmálinu okkar og við viljum standa með þjóðinni. Við biðjum þig lesandi góður að ígrunda þessi mál vel og velta því fyrir þér hvort þú vilt ekki ganga til liðs við okkur í þessari baráttu. Helst af öllu viljum við að nemendur okkar verði meðvitaðir um kosti og galla snjalltækja. Við getum vissulega nýtt tæknina til frábærra verkefna og þekkingaröflunar, en hún getur líka verið skaðleg sé hún ekki notuð á réttan hátt.

 

Rannveig ráðin í starf lögfræðings hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga

0
Rannveig Ólafsdóttir

Rannveig Ólafsdóttir hefur verið ráðin í starf lögfræðings hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga ses og mun hefja störf þann 17. september n.k. Í tilkynningu segir að Rannveig sé með BA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og með MS gráðu í lögfræði frá sama skóla. Hún stundar nú MBA nám við HÍ og mun ljúka því vorið 2019.

Hún hefur verið í starfi fulltrúa sýslumanns á Húsavík frá 2017 og þar áður í afleysingum í lögfræðideild embættisins. Rannveig var skrifstofustjóri Skútustaðahrepps 2016-2017 og rekstrarstjóri hjá Geitey ehf., með námi og starfi síðan 2010.

Helstu verkefni Rannveigar hjá sparisjóðnum verða úrlausn lögfræðilegra álitaefna, bókhald, skýrsluskil til eftirlitsstofnana auk eftirlits með hlítni sjóðsins við lög og reglur.

Sparisjóðurinn býður Rannveigu velkomna til starfa.

 

Þingeyjarsveit – Helga Sveinbjörnsdóttir ráðin umsjónarmaður fasteigna og framkvæmda

0
Helga Sveinbjörnsdóttir

Helga Sveinbjörnsdóttir hefur verið ráðin tímabundið frá 1. september í starf umsjónarmanns fasteigna og framkvæmda hjá sveitarfélaginu og tekur við af Jónasi Halldóri Friðrikssyni sem er í leyfi frá störfum í eitt ár.

Helga er verkfræðingur búsett á Nípá í Kaldakinn ásamt fjölskyldu  sinni. Við bjóðum Helgu velkomna til starfa.

 

Rokkað gegn sjálfsvígum í Húsavíkurkirkju 10. september

0

 

Rokkað verður gegn sjálfsvígum í tilefni af alþjóðlegum degi sjálfsvígsforvarna í Húsavíkurkirkju mándudagskvöldið 10. september nk. kl. 20:00.

Heiðursgestur verður Magni Ásgeirsson

Í tilkynningu segir að aðgangseyrir sé aðeins 1.000 krónur sem rennur beint í forvarnarstarf.

 

 

Bárðardalsvegur vestari 2018 – Er þetta í lagi ?

0
Frá lagfæringum á Bárðardalsvegi tekin 2017. Mynd: Þórir Agnarsson.

Þórir Agnarsson bóndi á Öxará í Bárðardal birti í morgun myndband á facebook af stuttum kafla af Bárðardalsvegi vestari sem sýnir ástand vegarins. Vegurinn er vægast sagt í slæmu ástandi þrátt fyrir að hafa verið lagfærður í fyrra. Vegurinn er varla ökufær og mjög holóttur, eftir miklar rigningar í sumar og eru Bárðdælingar orðnir langþreyttir á ástandinu.

„Alveg úrvals efni, getur verið að gróðurinn og moldin bindist illa og skolist burt og eftir verði holur“ Mynd: Þórir Agnarsson

„Eftir endalausar tilraunir með efni, aka í þetta leir, hefla hann útaf sökum þess að hann var ómögulegur og hættulega hált í honum, sækja hann aftur og mala hann saman við grjót, jarðveg og gróður, þá er þetta niðurstaðan“ skrifar Þórir á facebook í morgun.

„Þetta er óþolandi ástand. Ef eitthvað rignir þá festist leirdrullann á bílanna og fólk á í mestu vandræðum með að komast í og úr bílunum á þess að fötin verði óhrein, sem er alveg sérstaklega óheppilegt ef menn eru í sparifötunum“, sagði Ingvar Vagnsson sæðingamaður og bóndi á Hlíðarenda sem keyrir veginn nær daglega í tengslum við sína vinnu, í spjalli við 641.is í dag.

Myndbandið má skoða hér fyrir neðan, en það var tekið frá vegamótunum við þjóðveg nr. 1 suður að brúnni yfir Öxará.

Uppfært kl. 15:15

Verið er að hefla Bárðardalsveg vestari í þessum töluðu orðum.

Góðgerðarleikur fyrir Gunnstein – Geisli A gegn Geisli

0

Á morgun, miðvikudaginn 29. ágúst klukkan 19:00 mun knattspyrnulið Geisli A mæta stjörnuprýddu liði sem Guðmundur í koti er búin að safna saman í góðgerðarleik fyrir Geislamannin okkar Gunnstein, sem greindist með Hvítblæði fyrr á þessu ári. Leikurinn fer fram á Ýdalavelli.

í þessu stjörnuprýddi liði verða fyrrverandi leikmenn Geisla ásamt hugsanlega þekktum knattspyrnumönnum í Alþjóðafótbolta. Kynnir á leiknum verður einn af þekktari núlifandi Þingeyingum.

Grillaðar pylsur, drykkir, tónlist, brandarar og almenn gleði.

Frítt verður á viðburðinn en tekið á móti frjálsum framlögum,

Vonandi sjá flestir sér fært að mæta og sjá knattspyrnu á heimsmælikvarða hér heima á Ýdalavelli.

Munum eftir veskjunum, margt smátt gerir eitt stórt

 

séra Sólveig Halla Kristjánsdóttir boðin velkomin.

0
séra Sólveig Halla og séra Bolli Pétur.

Boðið var til sameiginlegrar kvöldmessu í Þorgeirskirkju fyrir Háls, Lundabrekku og Ljósavatnssóknir sunnudagskvöldið 26. ágúst. Tilefnið var að bjóða velkomna sr. Sólveigu Höllu Kristjánsdóttur og fjölskyldu hennar. Sólveig Halla mun þjóna í eins árs námsleyfi sr. Bolla Péturs Bollasonar. Sólveig Halla er þakklát fyrir það tækifæri að fá að þjóna hér í Laufásprestakalli og að kynnast þessu samfélagi. Sólveig Halla predikaði, sagði söguna um miskunsama samverjann og lagði áherslu á að við kæmum vel fram við alla, án tillits til þjóðernis, litarhafts, trúar, kynhneigðar og fleira. Gengið var til heilagrar kvöldmáltíðar eða altarisgöngu, þar sem  minnst er Jesú, dauða hans og síðustu kvöldmáltíðarinnar. Kirkjukórinn söng undir stjórn Dagnýjar Pétursdóttur organista. sr. Bolli Pétur stefnir svo að því að koma næsta haust og vera með kveðjumessu.

Eftir messu bauð sóknarnefnd uppá kaffi, konfekt og nýsteiktar kleinur, sem Karen Hannesdóttir á Krossi steikti og gerðu allir góðan róm að.

séra Sólveig Halla og séra Bolli Pétur.
kirkjukórinn söng undir stjórn Dagnýjar Pétursdóttur organista.
Altari Þorgeirskirkju.

Vetraropnun sundlaugarinnar á Laugum

0
Íþróttahúsið og sundlaugin á Laugum

Vetraropnun sundlaugarinnar á Laugum er sem hér segir:

Mánudagar-fimmtudagar: 07:30-9:30 og 16:00-22:00
Föstudagar: 07:30-9:30
Laugardagar: 14-17
Sunnudagar: lokað

 

Landbúnaðarráðherra boðar til almennra funda með sauðfjárbændum

0
Kristján Þór Júlíusson

Sauðfjárbændur hafa með skömmum fyrirvara verið boðaðir til almennra funda með Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

 

Landbúnaðarráðherra verður með fund fyrir sauðfjárbændur í Þingeyjarsýslu í Ýdölum kl 19:00 annað kvöld, miðvikudaginn 22 ágúst.

 

 

 

 

 

 

Sundlaugin á Laugum lokuð vegna þrifa

0
Sundlaugin á Laugum

Sundlaugin á Laugum er lokuð vegna þrifa daganna 19.-26. ágúst. Opnum aftur mánudagsmorguninn 27.ágúst og þá hefst vetraropnun.

Opnunartíminn í vetur er:
Mánudagar-fimmtudagar 07:30-09:30 og 16:00-21:30
Föstudagar 07:30-09:30
Laugardagar 14:00-17:00

Starfsfólk Sundlaugarinnar á Laugum

 

Skólasetning Þingeyjarskóla á morgun kl. 16:30

0

Skólasetning tónlistar- og grunnskóladeildar Þingeyjarskóla verður á morgun, miðvikudaginn 22. ágúst kl. 16:30.

Allir hjartanlega velkomnir.

Skólastjóri.

 

 
 

VINSÆLAST Á 641.IS

VEGASJÁ

FÆRÐ