Fréttir af starfi Soroptimistaklúbbs Húsavíkur og nágrennis

0
241

Í fyrrahaust fórum við af stað með nýtt verkefni sem var sjálfstyrkingarnámskeið fyrir telpur á þrettánda ári sem er í anda stefnu soroptimista: Styrkur kvenna hvar sem er, heima og að heiman.

Þetta verkefni heppnaðist vel og dagana 9.-10. Nóvember sl. endurtókum við leikinn.  Öllum stúlkum fæddum 2006 í Þingeyjarsýslum var boðið að taka þátt í námskeiðinu þeim að kostnaðarlausu. Að þessu sinni voru það 18 stúlkur sem þáðu boðið og nutu leiðsagnar þeirra Ingibjargar Þórðardóttur félagsráðgjafa  og Sigríðar Ástu Hauksdóttur náms-, starfs- og fjölskylduráðgjafa sem einnig sáu um námskeiðið  í fyrra.

Námskeiðsgögnin voru þau sömu. Markmiðin fyrst og fremst að styrkja sjálfsímynd telpnanna, læra að  standa með sjálfri sér, virða aðra, átta sig á öllum þeim hættum sem steðja unglingum í dag og þora að leita aðstoðar fullorðinna ef eitthvað bjátar á.

Hrískökur

Eins og í fyrra fengum við aðsetur í Þingeyjarskóla okkur að kostnaðarlausu. Klúbbsystur sáu um gæslu og máltíðir.  Námskeiðið hófst á föstudagskvöldinu og lauk seinnipart laugardags. Telpurnar gistu á staðnum, nánast í einni stórri flatsæng í einni skólastofunni og var glatt á hjalla er kom að náttum.

Ánægja ríkti að loknu námskeiði og gengu allar nokkuð sáttar frá borði. Hugmynd kviknar og verkefni eins og þetta verður til með stuðningi samfélagsins, okkar systra er að finna leiðir. Allir voru tilbúnir að láta af hendi það sem vantaði: Þingeyjarsveit skólahúsnæðið, Norðlenska, Nettó, Heimabakarí og Hveravellir (Garðræktarfélag Reykhverfunga) gáfu þá matvöru sem þurfti og við systur bökuðum meðlæti.

Styrk fengum við frá Lýðheilsusjóði, hluti af afrakstri SÁÁ-álfasölu rann til verkefnisins og einnig nutum við stuðnings nokkurra Kvenfélaga í Þingeyjarsýslum. Við þökkum öllum þeim sem studdu okkur við þetta litla en vonandi árangursríka verkefni.

Fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Húsavíkur og nágrennis

Undirbúningsnefndin.