Fréttir af frjálsíþróttastarfi HSÞ

0
328

Laugardaginn 26. apríl fór fram Akureyrarmót UFA í frjálsum íþróttum í Boganum á Akureyri. HSÞ átti þar 13 keppendur á aldrinum 11-16 ára. Ákveðið var að leigja sal og gista nóttina fyrir mót til að hrista hópinn saman fyrir mótið. Þetta var skemmtileg kvöldstund og margt var brallað.

Florczyk, Benóný, Unnar, Arna, Bjargey og Eyþór neðri röð:  Katla, Bergþór, Hafdís, Marta og Ari
Florczyk, Benóný, Unnar, Arna, Bjargey og Eyþór
neðri röð: Katla, Bergþór, Hafdís, Marta og Ari

Mjög vinsælt er að fara í spurningakeppni þegar frjálsíþróttakrakkarnir koma saman og vinsælasta spurningin er ævinlega, hvað heitir Brói þjálfari fullu nafni? Það eru alls ekki allir iðkendurnir með það á hreinu. Mjög líklegt er að við gerum það að árlegum viðburði að gista saman fyrir þetta mót, því það er líka mikilvægt að hittast utan vallar rétt eins og að keppa.

Marta Sóley Sigmarsdóttir
Marta Sóley Sigmarsdóttir

Keppendur HSÞ stóðu sig vel á mótinu en þeirra helstu úrslit voru:

Í flokki 10-11 ára:

Marta Sóley Sigmarsdóttir náði 1. sæti í hástökki, 2. sæti í kúlu og 3. sæti bæði í langstökki og 60 metrum.
Hafdís Inga Kristjánsdóttir var í 3. sæti í skutlukasti.
Bergþór Snær Birkisson var í 1.-3. sæti í hástökki og 1. sæti í 60 m. grind.
Ari Ingólfsson var í 3. sæti í kúlu.

Í flokki 12-13 ára var Katla María Kristjánsdóttir í 1. sæti í langstökki og í 2. sæti í 60 m hlaupi.

16 ára og eldri:

Arna Dröfn Sigurðardóttir var í 2. sæti í 60 m hlaupi og í 3. sæti í langstökki.
Bjargey Ingólfsdóttir var í 2. sæti í 60 m grind.
Marta Sif Baldvinsdóttir var í 3. sæti í kúlu.
Strákar 14-15 ára náðu 2. sæti í 4×200 metra boðhlaupi.

Sumarstarfið framundan

Nóg verður á döfinni hjá krökkunum í sumar. Vikuna 10.-13. júní verður boðið upp á frjálsíþróttaskóla UMFÍ á Laugum og munu auglýsingar um það verða birtar fljótlega. Sumarleikar HSÞ verða helgina 28.-29. júní. Unglingalandsmót UMFÍ verður 1.-4. ágúst á Sauðárkróki. Meistaramót Íslands í frjálsum fyrir 11-14 ára verður á Akureyri 16.-17. ágúst en meistaramót fyrir 15-22 ára fer fram á Selfossi 26.-27. júlí.

Frjálsíþróttaráð sér um frjálsíþróttahlutann á landsmóti UMFÍ 50 + sem verður á Húsavík 21. og 22. júní. Viljum við hvetja til þátttöku á mótinu en skráningargjald er 3500 óháð greinafjölda .

Æfingar hefjast utanhúss á frjálsíþróttavellinum á Laugum 15 maí n.k. og verða þær tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 19 – 20:30 fyrir 10 ára og eldri. Sameinast verður í bíla og foreldrar skiptast á að keyra á æfingarnar frá Húsavík. Þá verður skoðað hvort næg þátttaka verður til að hafa æfingar í sumar á Húsavík fyrir yngri aldurshópinn. Þjálfari á Laugum er Brói. Nýir iðkendur velkomnir.

Í byrjun sumars viljum við þakka öllum iðkendum og þjálfurum fyrir skemmtilegan vetur og foreldrum fyrir aðstoð á mótum vetrarins. Einnig viljum við þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í frjálsum á undanförnum misserum og minnum á að enn er hægt að greiða fyrir dagatal Frjálsíþrótta sem sent var inn á heimili í byrjun árs.

Frjálsíþróttaráð HSÞ.