Fréttatilkynning frá Rannsóknamiðstöð Íslands, Heimskautastofnuninni í Kína og Aurora Observatory

0
141

Undirritað hefur verið samkomulag milli Rannsóknamiðstöðvar Íslands –RANNÍS- og Heimskautastofnunar Kína  (PRIC) um stofnun sameiginlegrar miðstöðvar til norðurljósarannsókna á Íslandi undir nafninu China-Iceland Joint Aurora Observatory (CIAO).  Miðstöðin verður staðsett að Kárhóli í Reykjadal.  Heimasíða verkefnisins er í vinnslu og verður opnuð innan skamms, www.karholl.is.

Á myndinni sést að búið er að rífa þakið af öðrum votheysturninum á Kárhóli.
Kárhóll í Reykjadal.

Undirbúningsvinna  við uppsetningu rannsóknatækja og annars búnaðar er þegar hafin og hefjast mælingar á norðurljósum á næstu dögum.

Samvinna kínverskra og íslenskra vísindamanna hefur verið að styrkjast á undanförnum árum .  Vísindalegir samstarfsaðilar China-Iceland Joint Aurora Observatory eru m.a. Rannís, Raunvísindastofnun Háskólans, Veðurstofa Íslands, Norðurslóðanet Íslands, Háskólinn á Akureyri, Arctic Portal og Þekkingarnet Þingeyinga, Polar Research Institute of China (PRIC), Geimvísindastofnun Kína, Peking háskóli og Wuhan háskóli svo nokkrir aðilar séu nefndir.

Uppbygging rannsóknamiðstöðvar  að Kárhóli mun hafa jákvæð áhrif á nærumhverfi stöðvarinnar, bæði hvaða varðar atvinnulíf og þekkingarmiðlun á svæðinu.  Miðstöðin mun verða opin almenningi og mynda brú milli vísinda og daglegs lífs með rekstri gestastofu  og verða þannig hluti af þjónustuframboði og afþreyingarmöguleikum í Þingeyjarsveit. Sjálfseignarstofnun heimamanna, Aurora Observatory, hefur verið komið á fót til þess að útvega aðstöðu og annast þjónustu við rannsóknamiðstöðina.

Vísindalegt markmið þessa samstarfs er að efla skilning á samspili sólar og jarðar annars vegar og  geimveðri hins vegar með því að framkvæma athuganir í háloftum á heimskautasvæðum, t.d. á norðurljósum, breytileika í segulsviði og öðrum tengdum fyrirbærum. Samstarfið hefur það einnig að leiðarljósi að miðla upplýsingum um fyrrgreind málefni til almennings. Starfsemi rannsóknamiðstöðvar  á Kárhóli mun styrkja þær norðurslóðarannsóknir sem þegar eru stundaðar hér á landi og bæta við þær á sumum sviðum. Það er von aðstandenda að þetta skref og uppbygging rannsóknarmiðstöðvar á  Kárhóli muni efla samvinnu milli vísindamanna þjóðanna, alþjóðlegt samstarf á þessu sviði og auka þekkingu á eðli norðurljósa og margbrotnum áhrifum þeirra.

Nánari upplýsingar:

Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri mats- og greiningarsviðs Rannís thorsteinn.gunnarsson@rannis.is
Sími: 899-3290

Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Aurora Observatory reinhard@atthing.is Sími: 863- 6622

Ítarefni með fréttatilkynningu Aurora Observatory