Franskt fyrirtæki skoðar byggingu slípiefnaverksmiðju á Bakka

0
100

Einn stærsti efna- og byggingavöruframleiðandi heims, franska fyrirtækið Saint Gobain, skoðar nú möguleika á byggingu slípiefnaverksmiðju við Húsavík. Fulltrúar félagsins heimsóttu Norðurland í dag, í annað sinn í sumar.

Bakki við Húsavík.

Saint Gobain rekur sögu sína aftur til ársins 1665 og er elsti glervöruframleiðandi heims. Það er í fjölbreyttri framleiðslu margskyns húsbúnaðar-, byggingar- og efnavara, og er með 195 þúsund starfsmenn í 64 löndum. 

Fyrir hartnær tuttugu árum freistuðu íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun þess að fá fyrirtækið til að reisa verksmiðju hérlendis en þær viðræður skiluðuðu ekki tilætluðum árangri þá. Saint Gobain hefur nú endurnýjað tengslin við Ísland og hafið könnunarviðræður við Landsvirkjun um möguleika á kísilkarbítverksmiðju, en afurðir hennar eru meðal annars notaðar sem slípiefni í sandpappír. 

Fyrirtækið sendi fyrr í sumar sérfræðingahóp til Íslands til að kanna aðstæður og heimsóttu Frakkarnir meðal annars Þingeyjarsýslur, en Landsvirkjun vísar nú öllum áhugasömum viðskiptavinum á iðnaðarlóðina á Bakka. Meiri alvara virðist vera komin í málið því forstjóri framleiðslu fyrirtækisins er nú kominn til Íslands til frekari viðræðna við Landsvirkjunarmenn. Hann ræddi einnig við ráðamenn á Húsavík í dag og skoðaði jarðhitasvæðin í Kröflu og Bjarnarflagi en þar áformar Landsvirkjun orkuöflun á næstu árum. 

Ítrekaðar heimsóknir fulltrúa Saint Gobain sýna að þeir telja Ísland álitlegan fjárfestingarkost. Ráðamenn franska fyrirtæksins verða þó væntanlega að sætta sig við að sinni að fara í biðröðina fyrir aftan fyrirtækin PCC og Thorsil, sem bæði eru í lokaferli undirbúnings kísilvers á Bakka og bæði með undirritaða viljayfirlýsingu við Landsvirkjun. (visir.is)