Framsýn semur við SA um kjör starfsmanna við hvalaskoðun

0
64

„Í gær skrifuðu fulltrúar Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins undir samkomulag um kjör, tryggingar og réttindi starfsmanna við hvalaskoðun á Húsavík. Samtök atvinnulífsins höfðu umboð hvalaskoðunarfyrirtækjanna til að ganga frá samningi við Framsýn en þrjú fyrirtæki stunda hvalaskoðun frá Húsavík.

1317204445-framsyn

Samningurinn markar tímamót þar sem ekki hefur verið til heildstæður samningur fram að þessu um kaup og kjör fólks sem starfar við þessa ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Með samningnum sýna því húsvíkingar ákveðið frumkvæði hvað varðar að hafa þessi þýðingarmiklu mál í lagi.

Starfsfólk hvalaskoðunarfyrirtækjanna á Húsavík hafa lengi krafist þess að komið yrði á samningi um kjör þeirra sem nú hefur tekist. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, segist ánægður með samkomulagið sem verði kynnt starfsmönnum í næstu viku. Samkomulagið byggir á kjarasamningi sjómanna og fólks í ferðaþjónustu og hefur sama gildistíma og kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum.

Þess má geta að samningaviðræður milli aðila hafa staðið yfir í marga mánuði með hléum, nú síðast óskaði Framsýn eftir aðkomu Ríkissáttasemjara til að leysa málið. Árangurinn liggur fyrir þar sem samningsaðilar skrifuðu undir samkomulag í gær.„  Framsýn.is