Framsýn – Rafræn atkvæðagreiðsla að hefjast

0
132

Samninganefnd Framsýnar sem skipuð er stjórn og trúnaðarmannaráði félagsins samþykkti í gær að hefja rafræna atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um boðun verkfalls. Kjörgögn munu berast félagsmönnum í byrjun næstu viku og stendur atkvæðagreiðslan til kl. 24:00 þann 20. apríl. Frá þessu segir á vef Framsýnar.

Mynd af vef Framsýnar-stéttarfélags

 

Rétt er að taka fram að atkvæðagreiðslan nær aðeins til þeirra félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Um er að ræða tvo kjarasamninga, annars vegar kjarasamning SGS og SA vegna starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum s.s. bílstjóra, ræstingarfólks, fiskvinnslufólks og starfsfólks í kjötvinnslum og hins vegar kjarasamning SGS og SA vegna starfsmanna í ferðaþjónustu. Samtals eru 486 félagsmenn Framsýnar á kjörskrá.

Samtök atvinnulífsins gerðu athugasemdir við lögmæti sameiginlegrar atkvæðagreiðslu aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands um boðun verkfalls. Þess vegna verður að endurtaka atkvæðagreiðsluna og verður hún nú á vegum einstakra félaga innan sambandsins. Þannig munu félagsmenn Framsýnar fá kjörgögn í hendur frá félaginu í byrjun næstu viku. Afar mikilvægt er að félagsmenn greiði atkvæði með boðun verkfalls.