Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, setti með formlegum hætti í gang framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, þegar hann sprengdi svokallaða viðhafnarsprengju við jarðgangagerðina um kl 14:30 í dag.

Flestir þingmenn Norðausturkjördæmis, sveitarstjórnarfólk úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslu, starfsmenn Ósafls og vegagerðarinnar fylgdust með, auk annara gesta. Umferð um þjóðveg 1. var stöðvuð rétt á meðan sprengt var enda gangnamunninn rétt við veginn. Heildarlengd ganganna með vegskálum verður 7,5 kílómetrar. Gerð Vaðlaheiðarganga er umfangsmikil framkvæmd. Ætla má að út úr göngunum verði ekið á bilinu 30 til 40 þúsund vörubílsförmum af efni og í sprengingarnar í göngunum fari um 1000 tonn af sprengiefni. Vaðlaheiðargöng verða tilbúin í árslok 2016. Tíðindamaður 641.is var á staðnum og tók meðfylgjandi myndir.



