Framkvæmdir stöðvaðar í Aðaldal.

0
110

Á vef Umhverfisstofnunar segir frá því í dag að, Umhverfisstofnun hafi borist ábending þess efnis að verið væri að taka efni úr gervigígum í Aðaldal í Þingeyjarsveit en gervigígar njóta sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. laga um náttúruvernd og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er.

Gervigígurinn í Aðaldal. Mynd: af vef Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun hafði í kjölfar ábendingarinnar samband við skipulagsfulltrúa Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps til að athuga hvort gefið hefði verið út framkvæmdarleyfi fyrir umræddri framkvæmd. Í ljós kom að ekki hafði verið sótt um né gefið út framkvæmdarleyfi af hálfu sveitarfélagsins vegna framkvæmdarinnar og er svæðið heldur ekki skilgreint sem efnistökusvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagsfulltrúi stöðvaði umsvifalaust framkvæmdir og í framhaldinu fóru fulltrúar Umhverfisstofnunar á vettvang. Ekki leyndi sér að þar hafði farið fram nokkuð umfangsmikið malarnám úr gervigígum og var t.a.m. búið að nema á brott stóran hluta gervigígs.

Umhverfisstofnun telur að ógerlegt sé að fara út í framkvæmdir til að endurheimta þær jarðmyndanir sem þarna hefur verið valdið tjóni á. En stofnunin telur jafnframt ekki boðlegt að verndaðar jarðmyndanir verði skildar eftir í því ásigkomulagi sem þær eru í dag enda veldur gígurinn sem tekið hefur verið af þó nokkrum neikvæðum sjónrænum áhrifum. Umhverfisstofnun hefur því farið fram á það við lögregluembættið á Húsavík að málið verði rannsakað, enda telur stofnunin mögulegt að hér sé um að ræða refsivert brot á lögum um náttúruvernd.