Framkvæmdir hafnar á Kárhóli

0
139

Jarðvegsvinna fyrir Norðurljósarannsóknamiðstöð Aurora Observatory (AO) sem rísa mun á Káhóli í Reykjadal hófust sl. þriðjudag. Að sögn Reinhards Reynissonar hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga er verið að vinna við að taka grunninn fyrir rannsóknarstöðina og svo í framhaldinu á að leggja nýjan veg að byggingarstaðnum. Það er ekki búið að bjóða bygginu hússins út en gert er ráð fyrir að það verði gert síðar í júnímánuði.

Jarðvegsvinna hafin á Kárhóli
Jarðvegsvinna hafin á Kárhóli

Reinhard reiknar með því að byggingaframkvæmdir geti hafist í fyrri hluta júlímánaðar. Heildarkostnaður er áætlaður um 300 m.kr. Stefnt er að því að loka húsinu fyrir veturinn þannig að koma megi fyrir rannsóknartækjum á efstu hæð þess. Gert er ráð fyrir að rannsóknarstöðin taki svo formlega til starfa næsta haust. Eftir stendur svo að klára þann hluta hússins sem hýsa mun gestastofuna, en ekki er ljóst hvenær hún klárast þar sem fjármögnun liggur ekki fyrir.

Norðurljósarannsóknarstöðin Aurora Observatory (AO) er sjálfseignarstofnun með staðfestri skipulagsskrá lögum samkvæmt. Stofnaðilar eru Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs. , Atvinnuefling Þingeyjarsveitar ehf. , sem er eignarhaldsfélag sveitarfélagsins, Kjarni ehf. , sem er eignarhaldsfélag í eigu Þingeyjarsveitar, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og nokkurra einstaklinga í héraði og Arctic Portal ehf., en fyrirtækið hefur virka aðkomu að margvíslegum rannsóknar- og upplýsingaverkefnum á sviði norðurslóðamála.

Kárhóll.is