Framkvæmdir fyrir 300 milljónir fyrirhugaðar á Kárhóli á næstu tveimur árum

0
378

Framkvæmdir fyrir 300 milljónir króna eru fyrirhugaðar á Kárhóli í Reykjadal á næstu tveimur árum vegna uppbyggingar á norðurljósarannsóknarstöð. Þetta kom fram á kynningarfundi sem efnt var til á Breiðumýri í gærkvöld. Kynningarfundurinn sem var á vegum Aurora Observatory, var vel sóttur enda hafði verið beðið eftir upplýsingum um verkefnið lengi. Gunnlaugur Björnsson frá Raunvísindastofnum og Þorsteinn Gunnarssaon fra RANNÍS kynntu aðkomu RANNÍS og Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands að Norðurljósarannsóknarstöðinni. Einnig kynnti Reinhard Reynisson frá Aurora Observatory framtíðaráformin varðandi uppbygginguna á Kárhóli.

Kárhóll í Reykjadal.
Kárhóll í Reykjadal.

 

Í kynningu Reinhards koma fram að Aurora Observatory er sjálfseignarstofnun með staðfesta skipulagsskrá. Stofnendur eru fimm; Arctic Portal ehf., Atvinnuefling Þingeyjarsveitar ehf., Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs., Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. og Kjarni ehf. Framkvæmdastjórn og fjárreiður verða hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. Samstarfssamningur Aurora Observatory við PRIC (Heimskautastofnun Kína Polar Research Institute of China) er ótímabundinn en verður endurskoðaður á fimm ára fresti.

Tölvuteikning af Kárhóli, séð neðan af þjóðvegi, eftir byggingu rannsóknarhússins.
Tölvuteikning af Kárhóli, séð neðan af þjóðvegi, eftir byggingu rannsóknarhússins. Núverandi byggingar til vinstri, gráar að lit, en rannsókarhúsið til hægri

Jörðin Kárhóll í Reykjadal var keypt sl. haust og var kaupverðið 78,8 milljónir króna. Bráðabirgðaaðstöðu var komið upp haustið 2013 ofan á öðrum votheysturninum á Kárhóli og þar var komið fyrir myndavélabúnaði og segulsviðsmæli. Skipulags- og hönnunarvinna er hafin að nýju 700 fermetra rannsókarhúsi með gestaaðstöðu sem stendur til að opna árið 2016. Áætlaður framkvæmdakostnaður við bygginguna er 300 milljónir króna og verður framkvæmdatími um tvö ár.

Þverskurður af rannsóknarhúsinu, sem verður um 700 fermetrar að stærð.
Þverskurður af rannsóknarhúsinu, sem verður um 700 fermetrar að stærð og á þremur hæðum.

Reinhard telur að ávinningurinn  í héraði verði margskonar og ma. efling á þekkingarstarfsemi og stofnana á því sviði, auk tengslamyndunar til framtíðar. Þessar byggingaframkvæmdir kalla á verulega vinnu verktaka á framkvæmdatíma auk þjónustu við starfsemina og fasteignarekstur.

“Starfsemin og gestastofan eflir ferðaþjónustu á svæðinu og verður einn þáttur í því að koma svæðinu enn frekar á kortið“ sagði Reinhard Reynisson.

Að kynningunni lokinni var opnað á fyrirspurnir frá gestum fundarins. Spurt var meðal annars út í aðkomu Halldórs Jóhannsonar og fyritæki hans Arctic Portal á Akureyri og lístu nokkrir fundargestir yfir áhyggjum af því. Reinhard sagðist engar áhyggjur hafa af aðkomu Halldórs að verkefninu og samstarfið hefði gengið vel.

Teikning af neðstu hæðinni í rannsóknarhúsinu.
Teikning af neðstu hæðinni í rannsóknarhúsinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í dag var opnuð heimasíðan Kárhóll.is þar sem hægt er að kynna sér verkefnið nánar.