Fræsöfnunarverkefni – Samskipti við Wales

0
76

Síðustu ár hefur Skógræktarfélag Íslands unnið að því að koma á verkefni meðal áhugasamra skóla og gengur það út á að skólabörn rækti upp tré sem síðar verði gróðursett í heimabyggð þeirra til fegurðar og yndisauka. Frumkvöðull verkefnisins er þróunarfulltrúi dreifbýlis í Conwy-héraði í N-Wales, kona að nafni Ann Lloyd-Williams. Samskipti hennar og fulltrúa Skógræktarfélags Íslands hafa leitt til þess að komið hefur verið á fræskiptum á milli skóla á Íslandi og Wales. Nú hefur Stórutjarnaskóli verið paraður við Ysgol Maes Owen skóla í Wales, og munum við senda þeim fræ af íslenskum trjám, sérstaklega birki, furu og reyni.

Fæum safnað.
Mynd: Birna Davíðsdóttir / Sigrún Jónsdóttir.

Nemendur útiskólans sem eru í elsta bekk leikskólans og 1. – 4. bekk grunnskólans tóku að sér verkefnið í Stórutjarnaskóla ásamt umsjónarkennurum undir stjórn og leiðsögn Agnesar skógarbónda. Síðast liðinn þriðjudag var hafist handa við fræsöfnun. Birkifræum og furukönglum var safnað í bréfpoka í landi skólans og síðan þurfti að koma afrakstrinum fyrir í bökkum til þerris. Nemendur hvolfdu úr pokunum í bakka af natni. Bökkunum var síðan komið fyrir á öruggum stöðum í skólastofunni og eftir tvær til þrjár vikur á svo að vitja um fræin. Þegar þau verða þurr og búið verður að hrista úr könglunum verða fræin send úr landi. Skógræktarfélag Íslands heldur utan um þetta verkefni en Við bíðum eftir væntanlegri fræsendingu frá Wales sem mun fara í forræktun fyrst í stað.

Hægt er að skoða fleiri myndir á vefnum Storutjarnaskoli.is