Fræðasetur um forystufé opnar á Svalbarði

0
174

Fræðasetur um forystufé var opnað í blíðskaparveðri á Svalbarði í Þistilfirði laugardaginn 29. júní 2014.  Fjölmargir gestir lögðu mislanga leið sína þangað til þess að samfagna og skoða safnið en þeir komu víða að. Allir sem við var rætt voru sammála um að virkilega vel hefur tekist til. Gamla félagsheimilið hefur verið tekið rækilega í gegn og fengið nýtt hlutverk. Þar er nú kominn mjög skemmtilegur áfangastaður fyrir ferðamenn á Norðausturlandi en það verður þó ekki eina hlutverk fræðasetursins. Frá þessu segir á vef Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga

DANÍEL HANSEN OG BJARNVEIG SKAFTFELD MEÐ FORINGJA SÉR AÐ BAKI.
DANÍEL HANSEN OG BJARNVEIG SKAFTFELD MEÐ FORINGJA SÉR AÐ BAKI.

Þegar upp kom sú hugmynd að stofna setrið í Þistilfirði lofaði þáverandi sauðfjárræktar-ráðunautur Bændasamtaka Íslands stuðningi sínum við verkefnið, því hvergi hefur ræktun forystufjár verið meiri en í Norður-Þingeyjarsýslu.

Í grein frá Forysturæktarfélagi Íslands í Bændablaðinu sl. október segir Ólafur R. Dýrmundsson að íslenska forystuféð sé meðal þeirra verðmætu erfðaauðlinda sem beri að varðveita í samræmi við alþjóðlega sáttmála og skuldbindingar. Hann segir félagið fagna stofnun Forystufjársetursins og að við hæfi sé að reisa slíkt setur í Norður-Þingeyjarsýslu þar sem þungamiðja forystufjárræktar hafi staðið frá fornu fari. Þaðan hafi flestir sæðingahrútarnir komið og á seinni árum hafi verið selt þaðan all margt forystufé á fæti á fjárbú víða um landið.

Aðal hvatamaðurinn að uppbyggingu fræðaseturs um forystufé er Daníel Hansen skólastjóri Svalbarðsskóla, búfræðingur og áhugamaður um forystufé. Verkefnið hófst með stofnun fræðafélags um forystufé árið 2010 og hefur víða mætt áhuga. Ráðunautar Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins komu að faglegum undirbúningi Forystufjársetursins og munu áfram koma að starfi þess eftir því sem efni og ástæður þykja til. Meðal annarra samstarfsaðila eru Búnaðarsamband Norður Þingeyinga og Bændasamtök Íslands. Svalbarðshreppur léði starfseminni gamla félagsheimilið og verkefnið hefur hlotið styrki frá Vaxtarsamningi Norðausturlands og fleiri aðilum.

Fjölmargir einstaklingar hafa einnig sýnt safninu velvilja og látið því í té bæði sögur, myndir og gripi. Fremstur á sviðinu í Forystufjársetrinu stendur Foringi sem enn var í fullu fjöri þegar Skúli í Ytra-Álandi ánafnaði hann setrinu.

Sýninguna í Forystufjársetrinu hönnuðu þeir Þórarinn Blöndal og Finnur Arnar. Á staðnum er einnig kaffihúsið Sillukaffi sem býður upp á sérblandað kaffi og sérbakað meðlæti, myndlistarhorn þar sem nú er sýningin Horfnir veðurvitar með vatnslitamyndum eftir Ástþór Jóhannsson og einnig verða í setrinu seldir gripir unnir úr afurðum forystufjár.

Ýmsan meiri fróðleik og myndir má sjá á vefsíðu og Facebook síðu Fræðaseturs um forystufé:

www.forystusetur.is/

www.facebook.com