Forsetahjónin heimsækja Þingeyinga

0
377

Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff hafa verið á ferð um Þingeyjarsýslu í dag, en þau eru heimsækja bændur sem urðu fyrir tjóni í septemberóveðrinu. Þau byrjuðu daginn á heimsókn í Reykjahlíðarskóla. Þau heimsóttu bændur í Baldursheimi og á Skútustöðum í Mývatnssveit í dag. Þau komu svo við í Framhaldsskólanum á Laugum síðdegis í dag til að kynna sér skólann. Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari tók á móti forsetahjónunum við komuna þangað síðdegis.

Forsetahjónin í matsal Framhaldsskólans á Laugum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í gær voru haldnir styrktartónleikar í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri til styrktar bændum á Norðurlandi sem urðu fyrir fjárskaða í septemberóveðrinu. Forsetahjónin voru þar viðstödd og ávarpaði Ólafur Ragnar Grímsson samkomuna. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson sagði að tilgangur heimsóknarinnar væri að kynna sér með eigin augum afleiðingar óveðursins og stappa stálinu í þá bændur sem urðu fyrir tjóni. Með forsetahjónunum í för voru þeir Þórarinn Ingi Pétursson formaður landssambands sauðfjárbænda, Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri landssambands sauðfjárbænda, Svavar Pálsson sýslumaður Þingeyinga, forsetaritarinn Örnólfur Thorsson og Sigurður Brynjúlfsson yfirlögregluþjónn á Húsavík.

Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari tók á móti forsetahjónunum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari og séra Þorgrímur Danílesson formaður skólanefndar Framhaldsskólans á Laugum tóku á móti forsetahjónunum í anddyri skólans þar sem nemendur og starfsfólk biðu komu þeirra. Síðan var haldið inn í matsal þar sem biðu þeirra þingeyskar kræsingar eins og pönnukökur og flatbrauð með hangikjöti. Forsetinn lýsti ánægju sinni með komuna í skólann og hversu vel var tekið á móti þeim. Forsetinn gaf sig á tal við nemendur framhaldsskólans og settist til borðs hjá þeim. Síðan gátu nemendur spurt hann út í hin ýmsu mál sem Ólafur svaraði eins og honum er einum lagið.

Ólafur Ragnar Grímsson svarar spurningum nemenda.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Forseti nemendafélagsins Tómas Guðjónsson, Matthildur Ósk Óskarsdóttir úr stjórn nemendafélagsins og Eyþór Bragi Bragason formaður íþróttafélags Laugaskóla gerðu forsetanum grein fyrir félagsstarfi í skólanum auk annarra nemenda sem tóku til máls.

Við brottför forsetahjónanna færði Valgerður skólameistari Dorrit útsaumaðan púða að gjöf eftir móður sína og var Dorrit hæst ánægð með gjöfina. Athygli vakti að forsetahjónin klæddust bæði lopapeysum og var lopapeysan sem Dorrit var í gjöf frá Þórarni Inga Péturssyni, sem hann afhenti henni í morgun.

För forsetahjónanna er nú heitið til Siglufjarðar og er ætlunin að heimsækja skagfirska og húnverska bændur á morgun.

Dorrit gaf Daníel Smára Magnússyni nemandi við Framhaldsskólann á Laugum, koss við brottförina.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Myndir: Andri Hnikarr Jónsson.

Á morgun verður greint frá heimsókn forsetahjónanna í Mývatnssveit.