Formleg uppbygging kísilvers á Bakka hafin

0
219

Sveitarfélagið Norðurþing og PCC BakkiSilicon hf stóðu í gær fyrir opnum kynningarfundi á Húsavík. Á fundinum kom fram að nú hefði öllum hindrunum verið rutt úr vegi og að uppbygging kísilvers á Bakka sé nú formlega hafin. Einnig var farið yfir næstu skref uppbyggingarinnar og spurningum fundargesta svarað um það hvers bera að vænta á næstu mánuðum og árum. Frá þessu er sagt á 640.is

Kristján Þór bæjarstjóri Norðurþings og fulltrúar PCC. Mynd: 640.is
Kristján Þór bæjarstjóri Norðurþings og fulltrúar PCC. Mynd: 640.is

Árið 2011 hóf þýska fyrirtækið PCC SE könnun á uppbyggingu kísilvers í landi Bakka við Húsavík sem nýta myndi jarðvarmaorku við framleiðsluna. Í byrjun júní staðfesti svo PCC BakkiSilicon hf. að hafist yrði handa við uppbyggingu kísilvers á Bakka í sumar og að framleiðsla myndi hefjast í lok árs 2017.

 

Samhliða uppbyggingu kísilversins verður ráðist í viðamiklar hafnarframkvæmdir og vegagerð á milli hafnar og Bakka sem munu liggja í jarðgöngum á kílómeterskafla í gegnum Húsavíkurhöfðann. Orkunnar verður að mestu aflað úr gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum sem nú er í byggingu og orkan flutt um nýjar rafmagnslínur sem lagðar verða að Bakka. Áætlað er að þessum framkvæmdum verði lokið síðla árs 2017 enda forsenda fyrir því að starfsemi geti hafist á Bakka.

 

Á fundinum kom fram að ýmsar undirbúningsframkvæmdir væru þegar hafnar á Bakka og búist mætti við því jarðvegsframkvæmdir hæfust á lóðinni sjálfri á næstu vikum. Vega- og hafnarframkvæmdir munu svo hefjast af fullum krafti í upphafi næsta árs. Þegar mest lætur er áætlað að allt að 700 manns muni starfa við uppbyggingu verkefna á Bakka, þar af hátt í 500 við uppbyggingu kísilversins. Í kísilverinu munu svo skapast 120-125 framtíðarstörf.

Fulltrúar PCC voru m.a. spurðir um vinnufyrirkomuleg og hugsanleg launakjör í kísilverinu. Voru svörin á þá leið að vegna eðlis starfseminnar væri mikilvægt fyrir fyrirtækið að halda í vel þjálfað og reynt starfsfólk og því ljóst að launin þyrftu að vera vel samkeppnishæf. Nánari útfærsla á vinnufyrirkomulagi og launkjörum yrði svo útfærð á næstunni, m.a. í samvinnu við stéttarfélögin á svæðinu.

Almenn ánægja var meðal fundargesta í lok fundar eftir fróðlegar og jákvæðar umræður um verkefnið í heild sinni.

Að sögn Snæbjarnar Sigurðarsonar verkefnastjóra hjá Norðurþingi er stefntað reglulegum upplýsingafundum á vegum Norðurþings á uppbyggingartímanum.

Þá voru íbúar hvattir til að fylgjast áfram vel með framvindu mála. Jafnframt var biðlað til allra um að leggjast á árar með sveitarfélaginu til að uppbygging næstu ára verði farsæl og skili sér að lokum með fjölbreyttara og sterkara samfélagi í Þingeyjarsýslum.