Formaður LS hvetur sauðfjárbændur til þess að láta heyra í sér

0
184

Þórarinn Ingi Pétursson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda ritar pistil á vef samtakanna sauðfé.is í morgun þar sem hann hvetur sauðfjárbændur til að láta heyra í sér vegna lækkunar á afurðaverði til sauðfjárbænda, sem séu ekki í neinu samræmi við viðmiðunarverð LS. Einnig hvetur Þórarinn sauðfjárbændur til þess að halda fundi sem víðast og upplýsa stjórnarmenn afurðastöðva og þingmenn um stöðu mála. Pistilinn má lesa hér fyrir neðan.

Þórarinn Ingi Pétursson
Þórarinn Ingi Pétursson

 

Kæru sauðfjárbændur.

Undanfarna daga og vikur hafa sláturleyfishafa kynnt bændum verðtöflur haustsins sem ekki eru í neinu samræmi við útgefið viðmiðunarverð Landssamtaka sauðfjárbænda. Þótt bændur hafi auðvitað skilning á því að tímabundnir erfiðleikar á mörkuðum fyrir hliðarafurðir og óhagstæð gengisþróun setji afurðastöðvarnar í þrönga stöðu er ótækt að öllum slíkum áföllum sé velt yfir á bændur eins og raunin er.

 

Verð á lambakjöti hefur ekki fylgt verðlagsþróun í landinu á undanförnum árum og milliliðir taka allt of stóran hlut af endanlegu útsöluverði í sinn hlut. Verðlækkun til bænda lýsir í senn uppgjöf og vanmætti afurðastöðvanna gagnvart smásölversluninni í landinu. Verslunin beitir fákeppnisaðstöðu sinni til að halda niðri verði til bænda um leið og hún skammtar sér hagnað að vild. Hætt er við því að lækkunin til bænda skili engu öðru en auknum arði til fákeppnisfyrirtækjanna.

Verið er að taka 600 milljónir króna beint úr launaumslagi bænda. Við þetta verður ekki unað og Landssamtök sauðfjárbænda hafa mótmælt þessu harðlega. Um leið hafa samtökin róið að því öllum árum í samvinnu við Bændasamtök Íslands og fleiri að finna leiðir til að sporna við þessari hættulegu þróun.

Ég vil hvetja bændur til að halda fundi sem víðast um landið og láta í sér heyra eins og sauðfjárbændur í Vestur Húnavatnssýslu gerðu á sunnudaginn. Ég hvet bændur jafnframt til að taka upp símann og upplýsa bæði stjórnarmenn afurðastöðva og alþinigsmenn um þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er.

Framtíð íslenskra sveita er að veði.

Baráttukveðjur,

Þórarinn Ingi Pétursson

formaður Landssamtaka sauðfjárbænda